10.04.1924
Neðri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1900 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Fjármálaráðherra (JÞ):

Út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði, vil jeg gera grein fyrir því, hvers vegna mjer finst varhugavert að leggja lóðargjald, sem nemi 2% af fasteignamatsverði, á lóðir hjer í bænum, þó að það hafi verið leyft annarsstaðar. Fasteignamatsverð lóða hjer er svo geysihátt, að það verður ekki borið saman við samskonar mat nokkursstaðar annarsstaðar á landinu. Sjest það best á því að bera saman matsverð lóða og húsa í bænum. Verð lóðanna samkv. fasteignamatsverði er 14,4 miljónir, en húsa 26,8 miljónir kr. Það, að matsverð lóðanna er svo hátt, kemur af því, að matsnefnd fylgir alveg sjerstökum reglum. Þori jeg að fullyrða, að matsverðið er í mörgum tilfellum hærra en söluverð. Er jeg sannfærður um, að alls ekki fengist fasteignamatsverð fyrir margar lóðir, ef útboð færi fram á svæðunum, sem hið háa matsverð tekur til. Auðvitað fengjust ef til vill eins háar upphæðir fyrir sumar lóðir ríkisins og hafnarsjóðs. En þær eru heldur ekki falar. Væru þær falar og útboð færi fram á þeim, mundu þær aftur á móti ekki verða seldar eins hátt og þær eru metnar. En hið háa mat lóða við höfnina gerir þeim mönnum, sem þar eiga lóðir og hafa ekki verslunarrekstur, óbærilegt að halda eign sinni, ef þetta 2% lóðargjald kæmist á, því að mat á þeirra lóðum er sama og á lóðum hinna, sem reka verslun. Svona hátt lóðargjald yrði einskonar refsiskattur á húseigendur.

Eitt ákvæði er í frv. sjálfu, sem sýnir það, hve langt þykir gengið, en það er ákvæðið um, að lóðir hafnarsjóðs skuli undanþegnar þessum skatti. Virðist svo, sem óbærilegt þyki fyrir hann að greiða þetta gjald. En nú er einmitt alls engin þörf á þessari undanþágu, því að hafnarsjóður er eign bæjarins, þó að fjárreiður hans sjeu sjerstakar. Annars er ekkert farið út í það, hve hátt gjald þetta í raun og veru er. Segjum nú, að hæfilegir ársvextir af matsverði lóðanna sjeu 5%. Sje miðað við þetta, er gjald það, sem frv. fer fram á, 40% af árstekjum húseigenda, en sje miðað við till. minni hl., nemur gjaldið 20%. Að þessu athuguðu virðist það ekki fjarri sanni að fara ekki hærra en í 16% af ársarði, eins og sú tillaga, sem minstar gerir kröfurnar, fer fram á, því að einhver takmörk hljóta þó að vera fyrir því, hvað svifta megi menn miklu af tekjum þeim, er eignir þeirra gefa af sjer.