10.04.1924
Neðri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1903 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Hv. samþingismaður minn, 3. þm. Reykv. (JakM), sagði, að jeg hefði reynt að færa rök að því, að skatturinn væri órjettlátur að öllu leyti og rangt að leggja hann á. Þetta er alls ekki rjett hjá háttv. þm. En jeg tel rangt að hafa gjaldið eins hátt og farið er fram á í frv. bæjarstjórnar. Samanburður við aðra bæi eða sveitir finst mjer ekki geta átt sjer stað, þar sem lóðir og hús hjer í bænum eru í miklu meira verði en annarsstaðar á landinu. En hitt er alveg rjett, að full ástæða er til, að eigendur lóða og húsa borgi eitthvað, þar sem bærinn hefir lagt fram mikið fje og aukið verðgildi fasteigna að miklum mun. Gæti líka farið svo, að ef góðir tímar gengju yfir bæinn, hækkuðu fasteignir enn í verði. En mjer finst þá rjettara að færa sig smátt og smátt upp á skaftið, en ekki setja skattinn svona hátt alt í einu. Og fyrir það verður ekki tekið, að þetta er einskonar eignarnám. Af slíkri „dauðri eign“, sem óbygðar lóðir eru, er ekki hægt að áætla nema 5% vexti handa eigandanum. Með 2% skatti eru því 2/5 eignarinnar teknir lögnámi. Eignin hlýtur að lækka í verði sem því svarar.

Hv. frsm. minni hl. (JBald) sagði, að lóðargjaldið gæti ekki komið niður á leigjendur, eða kæmi það að minsta kosti síður en húsaskattur. En þetta er alveg rangt, því að auðvitað verður húseigandi að vinna upp eitthvað af þessum skatti með því að hækka leiguna. Jeg veit, að hver einasti húseigandi gerir það að meira eða minna leyti, því að leigan hlýtur að miðast við verð eignarinnar, og þá ekki síður lóðarinnar en hússins. Vænti jeg þess, að hv. deild samþykki breytingar meiri hlutans og afgreiði frv. fljótlega.