26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

1. mál, fjárlög 1925

Fjármálaráðherra (JÞ):

Ræða háttv. frsm. (ÞórJ) gaf mjer tilefni til nokkurra athugasemda, sjerstaklega að því er snertir deiluna milli mín og nefndarinnar um aðstöðuna gegn bæjar- og sýslusjóðum. Háttv. frsm. vildi halda því fram, að sjóðir þessir ættu ekki eins erfitt að ná inn tekjum sínum og ríkissjóður, því að þeir gætu lagt á efnamennina, og ættu því betra með að innheimta tekjur sínar. En hjer talar reynslan átakanlega á móti hv. frsm., því að hjer er mjög mikill munur á, hversu tekjur ríkissjóðs innheimtast betur en tekjur Reykjavíkurbæjar. Stafar það af því, að bærinn fær mestar tekjur sínar með óhentugu gjaldi, sem ríkissjóður notar aðeins að litlu leyti í tekju- og eignarskatti, enda innheimtist sú tekjugrein langverst, eða mjög líkt og aukaútsvörin hjá bæjarsjóði. Þá gat hv. frsm.

þess, að bænum væri vorkunnarlaust að nota vel þennan álagningarjett sinn og leggja vel á þá, sem mikið gætu borið, og nefndi þar til Eimskipafjelag Íslands sem dæmi. En þar sem mjög bráðlega kemur fram á þinginu frv. um að undanþiggja það útsvari, verður ljóst, hvort ástæða sje fyrir bæjarsjóð að nota þar rjett sinn meira en góðu hófi gegnir. Þá sagði hv. frsm. ennfremur, að jeg hefði látið í ljós, að jeg gæti ekki gengið inn á, að bæjarsjóður tæki þátt í kostnaðinum við skólana hjer á Reykjavík. En jeg sagði einmitt, að jeg teldi rjettlátt, ef mentaskólinn hjer yrði að einum óskiftum lærðum skóla, að þá tæki bæjarsjóður drjúgan þátt í stofnun gagnfræðaskóla, sem óhjákvæmilegt yrði þá að stofna hjer. Það er því ekki rjett, að mótstaða mín gegn þessum tillögum nefndarinnar stafi af því, að jeg vilji hlífa bæjarsjóði Reykjavíkur við útgjöldum, enda hefir framkoma mín á þingi ekki getað sýnt það, að jeg hafi viljað hlífa bæjarsjóðnum við rjettlátum útgjöldum eða draga taum kjördæmis míns í fjármálum. En jeg vil ekki, að löggjafarvaldið heimti, að hlutfallinu milli bæjarsjóðs- og ríkissjóðsframlaga, sem staðið hefir um mörg ár, sje raskað.

Þá gat hv. frsm. þess, að ekki hefði sjeð á fjárskort hjá bæjarsjóði er hann nýlega hefði keypt mjög dýra eign. Skal jeg að gefnu tilefni lýsa aðstöðu minni til þessa máls frekar en jeg hefi áður gert. Jeg lít svo á, að kauptún og hin stærri sveitarfjelög þurfi engu síður en ríkissjóður að gæta allrar varúðar í fjármálum sínum, því að fjáreyðsla þeirra bitnar engu síður á almenningi en fjáreyðsla ríkissjóðs. Og jeg tel óforsvaranlegt eftirlitsleysi stjórnarinnar undanfarin ár í þessum efnum. Hefði til mín verið leitað sem ráðherra um samþykki á jarðakaupum þessum, hefði jeg hiklaust synjað samþykkis; því að jeg tel það skyldu hverrar stjórnar að koma í veg fyrir, að sveitar- eða bæjarstjórnir viðhafi óhæfilega ógætni í fjármálum.

Þá sagði hv. frsm., að jeg hefði frekar komið fram sem þingmaður Reykvíkinga en sem fjármálaráðherra, en svo er alls ekki, því að bæjarsjóð munar lítið um 6 þús. kr. til þessara skóla, því að tekjur hans og gjöld eru svo mikil; en það er aðferðin, sem jeg er að mótmæla, því að hún má ekki eiga sjer stað. Þá gat hann þess, að það væri undarlegt, að jeg hefði ekki tekið skóla utan Reykjavíkur til samanburðar. En þar er aðeins um Flensborgarskólann í Hafnarfirði að ræða, og jeg taldi ekki þörf að geta hans í þessu sambandi, því að það var búið svo rækilega áður. Fleiri dæmi er heldur ekki hægt að nefna.

Jeg hefi leitað í fjárlögunum fyrir 1923, og finn ekkert dæmi þess þar, að sveitar- eða bæjarfjelagi sje gert að skyldu að leggja ákveðna fjárhæð fram á móts við ríkissjóð. Sömuleiðis hefi jeg leitað í fjárlögum fyrir 1924 og í frv. til fjárlaga fyrir 1925, og hvergi á það sjer stað, að bæjarfjelagi sje gert að skyldu að kosta skóla á móti ríkissjóði. Heldur er alstaðar komist svo að orði, að fje er áskilið annarsstaðar frá. Verða þá stjórnir skólanna að ráða fram úr því, hvaðan þær fá þessar tekjur. Þetta skilyrði, sem háttv. fjvn. vill setja, er því alveg nýmæli. Og má í þessu sambandi benda á, að nefndin er á rjettri leið með tillöguna um fjárveitingu til kvennaskólans á Blönduósi, því að þá fjárveitingu bindur hún einungis því skilyrði, að að minsta kosti komi 2000 kr. annarsstaðar frá.

Áður en jeg fer lengra vil jeg kvitta fyrir þau ununæli hv. frsm., að jeg væri þröngsýnn. Jeg geri ráð fyrir, að hann hafi sagt þau fyrir nefndarinnar hönd, því að hann sagði þau ekki aðeins einu sinni, heldur tvisvar. En þó aldrei nema hann hafi ekki sagt þau fyrir nefndarinnar hönd, þykir mjer engu minna fyrir þeim, hafi þau verið frá honum sjálfum, því að jeg met hann einan jafnmikils sem 7 meðalmenn, þó saman sjeu í einni nefnd.

Viðvíkjandi iðnskólanum get jeg tekið það fram, að þar mun hentara að orða tillöguna með öðru móti en gert er í brtt. nefndarinnar. Því að tilskilið hefir verið, að framlag úr ríkissjóði færi ekki fram úr 4/5 kostnaðar. Hitt hefir mest verið greitt með skólagjöldum, sem samkvæmt síðasta ársreikningi námu um 7 þús. kr. Og bera iðnaðarmenn sjálfir þyngstu byrðina við þetta, því að svo mæla lög fyrir, að það sje skylda meistaranna, sem taka iðnnema til læringar, að greiða þetta gjald. Eru því lærlingarnir sjálfir lausir við að greiða skólagjald þar. Kemur þetta að miklu gagni fyrir skólann, því að stjettin hefir sívakandi auga á, að árangur verði af starfi hans, með því t. d. að hafa sterkar gætur á, að piltar stundi þar vel nám sitt, til þess að þeir fái árangur fyrir þá peninga, sem þeir leggja fram. Jeg er því ekkert viss um, að skóla þessum hefði farnast betur, þó að hann hefði fengið alt fje sitt frá ríkissjóði og bæjarsjóði.

Þá fundust mjer ummæli hv. frsm. um tilraunastarfsemi Fiskifjelagsins fremur ólíkleg, þar sem hann sagði, að árangurinn af starfsemi eins manns gæti borgað allan kostnaðinn. En jeg hefi nú talað við marga menn, sem kunnugir eru sjávarútvegi, og hefir þeim komið saman um, að árangur af starfi þessara manna væri lítill sem enginn fyrir sjávarútveginn.

Um Búnaðarfjelag Íslands er það að segja, að jeg hefi ekki sjeð síðustu reikninga þess, og get því ekki dæmt um, hvort það hefir varið fje sínu á svipaðan hátt og Fiskifjelagið, er eytt hefir meira en helming þess í stjórnarkostnað. En út af umræðum þeim, er orðið hafa milli hv. frsm. og hv. þm. Barð. um álit manna á Búnaðarfjelaginu úti um land, hefir hv. frsm. viðurkent, að alment myndi litið svo á, að ekki fengjust nægilegir ávextir af því fje, sem fjelagið fengi. Þetta hefi jeg sömuleiðis orðið var við nú á síðari árum í þeim sveitum, sem jeg þekki til. Sje þetta rjett, má óhætt segja, að það sje öðruvísi en fyrir 20 árum, því að þá hafði Búnaðarfjelag Íslands mjög gott álit úti um land, sem átti rót sína að rekja til þess, að hjá því fengust þá góð og ódýr ráð. Duglegir og ósjerhlífnir áhugamenn tóku þá að sjer, fyrir litla eða enga þóknun, að ráðstafa því fje, sem landssjóður vildi af mörkum láta. Voru þá allir mjög ánægðir með þessa tilhögun, sem líka var auðsjáanlega hentugri en sú, að stjórnin ráðstafaði því sjálf. En nú er orðin ærin breyting á þessu, því að nú fer nokkuð mikill hluti þess fjár, sem það hefir, einungis í kostnað við að ráðstafa því. Auk þess finna menn beinlínis mikla afturför í þekkingu þeirra manna, sem leiðbeina eiga fólkinu.

Jeg vil nefna eitt atriði því til sönnunar. Þegar herra Þórhallur Bjarnarson var búnaðarfjelagsstjóri, hjelt hann fram þeirri sjálfsögðu kenningu, að sá, er rækta vill blautt mýrlendi, verði að þurka það upp 5–6 árum áður en hann byrjar fyrir alvöru að rækta það, því jörðin þarf tíma til þess að safna gróðurmagni. Þetta er líka hlutur, sem allir vita, sem eitthvað kunna til jarðyrkju, enda undirstöðuatriði allrar mýrlendisyrkju. Hverjar hafa svo framfarirnar orðið í þessu efni? Þær, að nú á síðustu árum hefir búnaðarfjelagsstjóri ráðlagt mönnum að taka forblautar mýrar og tæta í sundur jarðveg þeirra, til þess þar með að gera þær þegar í stað að túni. Og þetta skeður hjer í þeim sama höfuðstað, þar sem herra Þórhallur Bjarnarson flutti sína rjettu og sjálfsögðu kenningu inn þessi efni. Jeg nefni þetta dæmi sökum þess, að það er eitt af mörgu, sem, hefir gert það að verkum, að menn hafa nú á síðari tímum mist trúna á því, að því fje væri vel varið, sem gengur til Búnaðarfjelagsins. Annars get jeg ekkert sagt um, hvort jeg muni verða með eða móti þessari fjárveitingu fyr en jeg hefi sjeð reikninga fjelagsins fyrir síðastliðið ár, því fyr get jeg ekki dæmt um, hvort fjeð muni verða vel notað eða ekki.

Þá ætla jeg að minnast á eina brtt. hv. fjvn., sem er um að verja 35 þús. kr. til þess að byrja á að framkvæma jarðræktarlögin. Jeg skal ekki mæla á móti þeirri till. að sinni. Hvort jeg verð með henni eða ekki, kemur undir því, hvort þingið gerir nokkuð til þess að afla ríkissjóði tekjuauka á þessu og komandi ári. Mjer finst óforsvaranlegt að taka þetta upp í fjárlögin fyrir árið 1925, nema því aðeins, að þingið sjái ríkissjóðnum fyrir tekjuauka; en verði það gert, vil jeg ekki vera móti þessari fjárveitingu. Annars verður framkvæmd jarðræktarlaganna mjög fjárfrek, og mjer finst það meira um vert, að byrjað sje á framkvæmd þeirra með krafti, þegar til þess kemur, heldur enn hvort byrjað er á framkvæmdunum árinu fyr eða síðar. Jeg veit líka, að margir áhugasamir landbúnaðarmenn eru mjer sammála um þetta. Annars finst mjer, að það ætti vel við um nýjung sem þessa, að gerð væri við hana sú athugasemd, að hún kæmi því aðeins til framkvæmda, að nægjanlegt fje væri til í ríkissjóðnum.

Um aðrar brtt. en brtt. hv. fjvn get jeg þegar tekið það fram, að jeg get felt mig við flestar lækkunartillögurnar, en er á móti flestum hækkunartillögunum, nema þeirri, sem flutt er af mjer og samþingismanni mínum, hv. 4. þm. Reykv.

Að því er snertir fjárveitingu til markaðsleitar, skal jeg taka það fram, að mjer er það fyllilega ljóst, að nú er sjerstök ástæða til þess að verja fje í því skyni að finna nýja markaði fyrir íslenskt kjöt, svo um fleiri leiðir sje að ræða en að selja það til Noregs. Jeg vona þó, að hægt verði að komast af með 15 þús. kr., þó hinsvegar sje ómögulegt að segja um það fyrirfram, og það má vel vera, að eigi verði komist af með minna en 20 þúsund krónur.

Þá vil jeg minnast á eina brtt., sem til útgjalda horfir, og það er um hafskipabryggju á Ísafirði. Jeg er sammála hv. frsm. fjvn. um það, að ekki sje nein brýn nauðsyn á því að bæta við hafskipabryggju á Ísafirði við hliðina á þeirri myndarlegu bryggju, sem þar er fyrir. Og mjer finst alls ekki rjett að ráðast í slíkar framkvæmdir nú á þessum tímum, þegar ekki ber brýna nauðsyn til, alveg án tillits til þess, hvort fje er varið til þess úr ríkissjóði eða bæjarsjóði Ísafjarðar, því jeg álít, að bæjarfjelögin þurfi engu síður að gæta hófs í fjárframlögum sínum en ríkið, og jeg álít, að ríkið hafi alls ekki efni á því að uppörva til slíkra framkvæmda með því að leggja fram ¼ af því fje, sem með þarf.