12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1905 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Jakob Möller:

Jeg vildi víkja nokkuð að þeim brtt., er fram hafa komið, og sný mjer þá fyrst að þeirri brtt. minni, er stíluð er gegn því, að slengt sje saman tveim alveg óskildum gjöldum, húsa- og lóðarskatti. Skatt af húsum ber að skoða sem endurgjald fyrir það, er bærinn vinnur fyrir húseigendur, en lóðarskatt hinsvegar sem beinan skatt.

Það hefir verið hneykslast á orðalagi frv. um tryggingar gegn eldsvoða, og má vera, að betra væri að orða það öðruvísi, en þó hygg jeg, að það geti varla valdið misskilningi. Ef til vill væri þó rjettast að fella þetta burt, eins og hv. 2. þm. Reykv. (JBald) leggur til. — Jeg vildi undirstrika það, á hverju mín till. byggist. Samkvæmt a-lið 2. gr. er að ræða um endurgjald til bæjarfjelagsins, en samkvæmt b-lið um beint skattgjald í samræmi við það, er samþykt hefir verið fyrir önnur sveitarfjelög. Vitanlega skiftir þetta engu máli efnislega, því að skatturinn verður hinn sami eftir sem áður. Tillaga mín er sprottin af „principiellum“ ástæðum og veldur væntanlega ekki ágreiningi. Lóðargjald er ekki lagt á til að fá kostnað endurgreiddan, eins og húsagjaldið.