08.04.1924
Neðri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1906 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg rjeðist ekki í að koma fram með brtt. við 2. gr. frv. um lóðar- og húsaskatt. En hinsvegar flyt jeg brtt. á þskj. 366, um að ákvæði frv. um ráðstafanir til útrýmingar á rottum og tryggingar gegn eldsvoða falli burt. Þessi till. er, eins og aðrar till. á sama þskj., flutt í samráði við borgarstjóra Reykjavíkurbæjar, sem telur þessar breytingar nauðsynlegar. Hjer hafa nýlega verið sett sjerstök lög um brunatryggingar, sem ákveða, að bæjarsjóður annist slökkvilið og slökkvitæki, og því ætti ekki að vera að ræða um neinar nýjar kvaðir í þessu frv. út af því, þar sem búið er að lögfesta þetta fyrir fáum dögum. Hitt atriðið, um ráðstafanir til útrýmingar rottum, er þannig vaxið, að það gæti orðið bænum ærið útdráttarsamt, ef bærinn á að gera alt í þessu efni, en húseigendur ekki neitt. En hitt get jeg viðurkent, að rjett sje að bærinn hafi forgöngu í þessu efni, þar sem töluverðs skipulags þarf með, ef vel á að fara. En það hefir bærinn, þótt engin lagaákvæði sjeu um það sett.

Þá hefi jeg flutt brtt. við 10. gr. í samræmi við ummæli mín við 2. umr. um það, að málskot til yfirskattanefndar nái aðeins til utansveitarmanna. Jeg fæ ekki betur sjeð en að það ákvæði sje hættulaust, þótt innanbæjarmenn geti ekki skotið útsvarskærum lengra en til bæjarstjórnar. Það er ástæðulaus ótti að ímynda sjer, að þeir yrðu beittir ósanngirni. Frekar er hitt, eins og jeg hefi margtekið fram, að bæjarstjórnin hefir þótt fara helst til langt í niðurfærslu útsvara.

Í þriðju brtt. minni felst, að síðari gjalddaginn, sem verið hefir 1. okt., verði hjer eftir 1. sept. Þessi till. er líka flutt eftir tilmælum borgarstjóra, og tilgangur hennar er sá, að bærinn fái fyr lögtaksrjett á gjöldum sínum en verið hefir. Undanfarið hefir ekki verið hægt að framkvæma þessi lögtök fyr en um jól, en sá tími er mjög óhentugur. Menn eru þá oft og tíðum í mikilli fjárþröng, og auk þess er óviðkunnanlegt að gera mönnum slíkar heimsóknir um jólin.

Þá er ein brtt. enn, sem flutt er í samráði við borgarstjóra. Hún er sú, að útsvör utanbæjarmanna, þegar búið er að leggja þau á og útsvarsskrá er komin fram, þá skuli þau þegar falla í gjalddaga. Það er alveg ófært að hafa tvo gjalddaga fyrir þessi útsvör. Þessir menn geta farið út í veður og vind hvenær sem er, og þá er ekki neitt af þeim að hafa. Þetta er og í samræmi við það, sem annarsstaðar gildir hjer á landi í þessu efni, og er til þess sett, að utanbæjarmenn komist ekki hjá að greiða útsvarið; þeir eiga heldur ekki að geta komist hjá greiðslu, þótt þeir hafi skotið kæru yfir útsvari sínu til yfirskattanefndar. Jeg tel alveg sjálfsagt, að Reykjavík hafi sama rjett og önnur sveitarfjelög í þessu efni.

Það segir sig sjálft, að jeg er samþykkur brtt. háttv. samþingismanns míns (JakM) um, að rjett sje að aðgreina húsa- og lóðargjald, enda þótt það skifti ekki miklu, þar sem lóðarskatturinn er ákveðinn svo miklu lægri en bæjarstjórn fór fram á, og jafnvel lægri en minni hl. allshn. lagði til.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál að sinni, en vona, að deildin fallist á þær röksemdir, er jeg hefi fært fyrir brtt. mínum, og samþykki þær.