08.04.1924
Neðri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1910 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Jakob Möller:

Það var hæstv. fjrh. von og vísa að bera kvíðboga fyrir of mikilli skriffinsku, og get jeg því verið honum þakklátur fyrir athugasemd hans um brtt. mína. En þó hygg jeg, að hún geri enga breytingu í þessu efni, því að vegna b-liðsins í 2. gr. frv., eins og það er nú, er jafnmikil nauðsyn á sjerstakri skrá. Þar eru nefndar sjerstakar lóðir með sjerstöku gjaldi. Annars hygg jeg, að engin nauðsyn sje á 2 eða 3 skrám, heldur mætti hafa dálkinum fleira á skránni, og verður þá tæplega sagt, að skriffinska aukist að mun við það. Jeg skal geta þess, að jeg hefi átt tal við borgarstjóra um þessa breytingu, og er hann samþykkur henni og óskar, að hún verði samþykt Jeg geri ráð fyrir, að hann hafi eins mikinn skilning og aðrir á þeirri skriffinsku, sem af þessu mundi leiða, og er hann á sama máli sem jeg, að vel megi komast af með eina skrá, þó að a-lið 2. gr. verði skift í tvent. Auðvitað má segja, að lítil ástæða sje til að breyta þessu, en jeg gerði þó grein fyrir því áðan, hvers vegna brtt. er fram komin. Það eru aðrar ástæður, sem liggja til húsaskattsins heldur en lóðarskattsins, og ef seinna kæmi til orða að hækka gjaldið, tel jeg, að það ætti alls ekki að ná til gjaldsins af húsum. Komi það í ljós, að þetta gjald hafi þau áhrif, að lóðir lækki í verði, mun tæplega til þess koma, að lóðargjaldið verði hækkað, enda lítil tekjuvon af því þá; en sjái menn ástæðu til að hækka það, mun það verða gert alt að einu, þó að bæði gjöldin sjeu hjer ákveðin í einum og sama staflið.

Jeg skal geta þess, að gjöld þessi eru ekki eins há og þau virðast á pappírnum. Við nánari athugun hefi jeg komist að þeirri niðurstöðu, að fasteignamatið er mun lægra en sannvirði eignanna, að minsta kosti þriðjungi lægra. Er þetta gjald því í raun og veru ekki nema um ½ af verði eignanna.