25.04.1924
Efri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1922 í B-deild Alþingistíðinda. (1390)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Guðmundur Ólafsson:

Mjer fanst hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) taka óstint upp fyrir mjer það, sem jeg sagði. En hv. þm. verður að virða mjer til vorkunnar, þó að jeg sje ekki ánægður með nefndarálit, sem er aðeins ½ lína, þegar því jafnframt er lýst yfir af frsm. nefndarinnar, að málið sje stórmál og að ýmsu leyti athugavert, sem þingið ber vitanlega ábyrgð á, hvernig það afgreiðir; því að þó háttv. nefnd vilji skella ábyrgðinni á bæjarstjórnina, getur það ekki komið til mála.

Jeg býst nú við, að síðari ræða hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) og sömuleiðis ræða hv. 5. landsk. þm. (JJ) hafi verið mjer að kenna. Háttv. 5. landsk. sagði, að þetta væri aðeins sjúkt móthald, en því fer fjarri, því að jeg var ekki að mótmæla frv. sjálfu, heldur því, hve illa það væri athugað og skýrt hjer í þessari hv. deild, því að jeg get ekki látið mjer nægja fyrir mig, þó að málið hafi fengið góðan undirbúning í Nd. Það, sem jeg því heimta, er að fá skýrt frá allshn. þessarar deildar, að hún hafi athugað málið vel, og álit hennar á því.

Hvað snertir það, að þingmenn greiði atkvæði á eigin ábyrgð, er það aldrei nema satt. Og jeg þykist altaf hafa gert það og hefi ekki orðið í meiri vanda staddur með það en sumir aðrir háttv. þingmenn.