29.04.1924
Efri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1924 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Björn Kristjánsson:

Eins og jeg gerði ráð fyrir á síðasta fundi þessar hv. deildar, þegar jeg óskaði, að mál þetta yrði tekið af dagskrá, þá hefi jeg leyft mjer að bera fram brtt. við frv. eins og það nú er, og eru þær að finna á þskj. 469. Þá gerði jeg ennfremur ráð fyrir því að bera þessar brtt. mínar undir hv. allshn., og það hefi jeg líka gert, og veit jeg ekki betur en að hv. nefnd hafi óbundin atkv. um þær.

En áður en jeg tala um þessar brtt. mínar sjerstaklega, langar mig til að segja fáein almenn orð um málið í heild, með því að það hefir ekki verið gert áður í þessari hv. deild.

Eins og kunnugt er, hefir Reykjavíkurkaupstaður bygst á þann hátt, að hver einstaklingur, sem nokkur ráð hefir haft, hefir bygt skýli yfir höfuð sjer. Þá hefir bærinn og bygst eftir lögbundnum reglum eða byggingarsamþyktum, sem gilt hafa á hverjum tíma, og hefir bæjarstjórnin getað hagað byggingarfyrirkomulaginu eftir því, sem henni hefir þóknast á hverjum tíma, og þarf því engum þvingunarmeðulum, svo sem óeðlilegum skattaálögum, að beita í þessu efni, því að með byggingarsamþykt bæjarins er ráðið allri tilhögun bygginga í bænum.

Einstaklingarnir, sem hús eiga í bænum, eru því eins og nokkurskonar sjálfseignarbændur í sveit, hver í sínu húsi, og hingað til hefir það verið skoðað sem gæfa bæjarfjelagsins, að sem flestir einstaklingar þess ættu skýli yfir höfuð sjer út af fyrir sig. Að undanförnu hefir hinn fátæki húseigandi í bænum og fengið dálítinn blett til ræktunar, sjer til stuðnings, og goldið bænum hæfilegt og ákveðið gjald fyrir. Fram á stríðsárin höfðu margir fátækir borgarar bæjarins allmikla stoð af lóðum þessum, einkum ef þeir gátu unnið sjálfir að ræktun þeirra. En síðan dýrtíðin óx svo mjög, gjaldmiðillinn fjell í verði og verkalaun öll margfölduðust, hefir þessi ræktun ekki borgað sig, nema hjá þeim, sem sjálfir hafa getað unnið að henni í hjáverkum sínum og notað liðljett heimafólk sjer til aðstoðar. Þetta geta allmargir enn gert og framfleyta sjer og sínum, jafnvel alt til helmings, með þessari ræktun, þegar aðra vinnu er ekki að fá. En þessari stoð eru hinir fátæku hús- og lóðareigendur sviftir, ef frv. þetta nær fram að ganga, einkum ef gjaldstigi þess er svo hár sem ákveðið er í frv. Þess vegna hefi jeg leyft mjer að bera fram brtt. um að lækka hann, þó að jeg hinsvegar sjái, að grundvöllurinn undir frv. er jafnskakkur fyrir því, þó að þær verði samþyktar.

Hjer blasir við eigna- og atvinnutjón fyrir hina fátæku húseigendur bæjarins, og þeir eru margir — líklega alt að því helmingur bæjarbúa — ef skattur þessi kemst á, og það því fremur, sem hann er hærri. Og eyðilegging hinna fátæku steðjar að þeim frá tveim hliðum. Fyrst á að leggja á þá margfalt það útsvar, sem niðurjöfnunarnefnd bæjarins hefir talið þá geta mest borið, og þar á ofan á að rýra eignir þeirra svo í verði, að þær geti ekki lengur staðið sem trygt veð fyrir skuldum þeim, sem á þeim hvíla. Og vitanlega kemur gjaldið harðast niður á fátækustu húseigendunum, því að þeir verða að taka hæstu og dýrustu lánin út á eignir sínar.

Nú er fjöldi hinna fátækari húseigenda hjer í bænum, eftir því sem mjer er kunnugt, í kaupfjelagi því, sem hjer starfar, og þar af leiðandi í hinni svonefndu allsherjarsamábyrgð, sem nær til allra kaupfjelaga á landinu, sem eru í Sambandinu. Þar með er upphafinn rjettur þeirra eða möguleiki til þess að taka lán í bönkum eða sparisjóðum, nema því aðeins, að þeir fái tryggingar utanfjelagsmanna. Því með samábyrgðinni er settur slagbrandur fyrir það, að einstakur maður, hversu vel efnum búinn sem hann er, geti notað sitt eigið persónulega lánstraust gagnvart lánsstofnunum. Hann verður því að hafa fasteignaveð, ef hann á að geta fengið lán. En með frv. þessu eru fasteignirnar stórfeldar í verði, svo að eigendur þeirra geta ekki heldur notað þær sem tryggingu fyrir láni eins vel og áður. Þessi atriði vil jeg benda á, bæði alment og sjerstaklega í sambandi við þetta mál.

Þannig er verið að klípa utan af hinu fjárhagslega sjálfstæði einstaklingsins á öllum sviðum. Og lánsstofnanirnar hafa mist grundvöllinn undan viðskiftum sínum: hinar verðmætu persónulegu tryggingar, sem mikill meiri hluti viðskifta þeirra hefir bygst á, því að vitanlega hafa bankarnir veitt minstan hlutann af lánum gegn fasteignatryggingum, sem þeir hafa veitt, en nú á að kippa verðmæti þeirra í burtu líka.

Það er ef til vill allra alvarlegasta hliðin á þessu máli, sú sem að veðhöfunum snýr. Eignirnar verða með frv. þessu svo stórum feldar í verði frá því, sem var þegar lán út á þær voru veitt. Þar er aðalhættan, sem það hefir í för með sjer að ganga þessa braut, nema þá smátt og smátt, eins og jeg hefi áður getið um opinberlega. Og svo þegar eignirnar komast undir hamarinn, sem hætt er við að verði nokkuð oft, þá er ekki líklegt, að margir vilji kaupa, þegar beinu gjöldin, sem hvíla á þeim, eru orðin svo há, en arðurinn af þeim aftur á móti óviss; og því síður vilja menn kaupa þessar fasteignir, þegar hætt er við því, að þegar þingið hefir einu sinni gengið inn á þessa braut, þá sje alveg eins líklegt, að það haldi áfram á henni og afráði að hækka gjald þetta, jafnvel á næsta þingi eða næstu þingum. En óttinn við þetta hefir aftur í för með sjer, að lánsstofnanirnar hætta alveg að þora að lána út á fasteignir, nema þá hverfandi lítið.

Mál þetta er hið mesta vandamál og er óhugsandi, að nokkur þingnefnd geti fundið botn í því eða lagað það sem skyldi. Það er líka alt of mörgum málum dembt á allshn. þingsins, sem ómögulegt er fyrir þær að komast yfir, svo að vel fari á, aðrar nefndin hafa aftur á móti mjög lítið að gera. Þyrfti að laga þetta fyrirkomulag, og þetta frv. hefði t. d. þurft að ganga til nefndar, sem hefði haft betri tíma til að rannsaka það.

Bæjarstjórn Reykjavíkur hefir áður miðað hin föstu gjöld af húseignum í bænum við brunabótavirðingu húsanna, eða m. ö. o. við húsverðið sjálft, og þá óbeinlínis við húsaleiguna. Svo var t. d. um sótaragjald, hreinsunargjald o. s. frv. Þessari reglu hefði hún átt að fylgja við samningu þessa frv., enda er henni fylgt víða erlendis, t. d. á Skotlandi, þar sem gjöldin eru miðuð við húsaleiguna, eða arðinn af eigninni, sem er rjettlátast.

Hjer er ekki verið að tryggja bænum nýjar tekjur, heldur er verið að breyta gjaldafyrirkomulaginu. Og niðurstaðan hefir orðið sú, að flytja gjöldin af þeim efnuðu yfir á hina fátækari íbúa bæjarins. Vitaskuld hefir þetta orðið óvart, en það er nú svo samt. Þess vegna væri eina rjetta leiðin að vísa málinu nú til stjórnarinnar, svo að lögun fáist á þetta atriði, því að jeg er ekki í nokkrum vafa um það, þó að frv. þetta verði nú að lögum, þá líður ekki á löngu áður en þarf að breyta þeim aftur.

Þá kem jeg að brtt. mínum á þskj. 469, og vil jeg gera nokkra grein fyrir þeim og sýna fram á, á hverju þær eru bygðar. Jeg hefi reiknað út 10 dæmi til þess að sýna, hver útkoman verður, ef fasteignagjaldið er ákveðið 0,6%. Það verður yfirleitt sama niðurstaðan, að því leyti, að gjaldið kemur órjettlátt niður, hvort sem það er hátt eða lágt, en skekkjan verður vitanlega ótilfinnanlegri eftir því, sem gjaldið er lægra, og það er meiningin með þessum brtt., að draga nokkuð úr því órjettlæti, sem slíkt frv. sem þetta hlýtur að hafa í för með sjer fyrir gjaldendur Reykjavíkur, ef það verður að lögum.

Dæmi þau, sem jeg hefi reiknað út, eru þessi:

Í fyrsta dæminu er hækkunin 134,29 kr. frá því, sem áður var. Útsvar mannsins, sem það hús á, er 10 kr. Gjald hans til bæjarsjóðs verður því 13½ sinnum hærra en áður, og allir sjá, hverjar afleiðingar slíkt hlýtur að hafa fyrir hann. Niðurjöfnunarnefndin hefir ekki treyst þessum manni til að borga hærra útsvar en 10 kr., og hann er víst líka alls ekki fær um að greiða meira. Afleiðingin af þessum auknu gjöldum virðist því hljóta að verða sú, að hann missi húsið.

Í öðru dæminu, um húsið við Vesturgötu 9, er hækkunin 99,46 kr. Sá maður, sem þar er um að ræða, hefir 700 kr. útsvar. Ef hans gjald ætti að hækka tiltölulega jafnmikið og í fyrsta dæminu, þá ætti hann að greiða rúmar 9000 kr. Allir geta því sjeð, að með þessu hverfur sá grundvöllur, að menn borgi eftir efnum og ástæðum, og sá grundvöllur hverfur því meir, sem gjaldið er hærra, en meining bæjarstjórnar virðist vera að koma öllum gjöldunum yfir á húseigendur, án tillits til þess, hvort þeir eiga í raun og veru nokkuð til.

Í þriðja dæminu hækka gjöldin á húsinu um 31,21 kr. Útsvar eigandans er 10 kr., og hækka gjöld hans til bæjarsjóðs því um þrefalt. Annars skal jeg ekki eyða frekar orðum um það.

Í fjórða dæminu er hækkunin 34,65 kr. Útsvar mannsins er 10 kr., og gjöld hans hækka því 3½ sinnum.

Í fimta dæminu er hækkunin 44,31 kr., og samsvarar því hjerumbil útsvari mannsins, sem er 40 kr. Þar verður því lítil sem engin skekkja, og er það sökum þess, að þar á hlut að máli maður, sem kemst sæmilega af, og hefir því altaf greitt bænum nokkuð hátt útsvar.

Í sjötta dæminu er hækkunin 102,29 kr., en útsvar mannsins er 20 kr., og gjöldin fimmfaldast því, og er það illa farið, því þar á hlut að máli bláfátækur maður, sem á lítils úrkosti.

Í sjöunda dæminu, sem er um húsið í Hafnarstræti 8, er hækkunin 171,81 kr. En eigandi þess ber 700 kr. útsvar, og það staðfestir það, sem jeg hefi haldið fram, að þetta lækkar gjöldin á efnuðu mönnunum í miðbænum, en hækkar þau á fátæklingunum, sem búa í úthverfum bæjarins.

Áttunda dæmið sýnir, að þetta frv. lækkar gjöldin á húsinu í Austurstræti 19 um 20,90 kr. Eigandi hússins ber 3500 kr. útsvar, en ef hann borgaði hlutfallslega eins mikið eins og eigandi hússins, sem nefnt er í fyrsta dæminu, þá ætti hann að borga 47250 kr.

Níunda dæmið sýnir, að gjöldin á Nýja Bíó, sem er virt á 147875 kr., hækka aðeins um 30,27 kr., og sýnir þetta best, hvílíkt afskaplegt órjettlæti þetta hefir í för með sjer, sem sje að koma gjöldunum af þeim efnaðri yfir á þá fátækustu.

Í tíunda dæminu er hækkunin 253,98 kr., en þar eru margir leigjendur með há útsvör, þar á meðal Gamla Bíó. Jeg skal geta þess, að á þeirri eign hefði gjaldið í raun og veru átt að vera miklu hærra.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þessi dæmi. Jeg hefi viljað sýna þinginu fram á þetta, því mjer finst það hafa gott af að sjá, að hverju stefnir, svo það gangi síður lengra á þessari braut framvegis, en það tel jeg að megi alls ekki gera.

Mjer hefði fundist eðlilegast, að þessu máli væri vísað til stjórnarinnar, því mjer finst það þurfa vandlegrar athugunar. Það, sem stefnt er að með þessu, er að mynda hjer sem mest af öreigalýð — búa til öreiga og viljalausa hópsál, sem einstakir menn geti sveiflað í kringum sig að vild sinni til hvers sem vera skal, en slíkt getur ekki haft góðar afleiðingar. Jeg vona því, að þeir, sem ekki unna slíkri stefnu, greiði brtt. mínum atkvæði.