29.04.1924
Efri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Sigurður Eggerz:

Jeg tók það fram við 2. umr. þessa máls, að það mætti ekki samþykkja brtt. við þetta frv., því það gæti orðið því til falls, þar sem svo mjög er liðið á þingtímann. Bæjarstjórnin þarf nýja tekjuauka; það er ein af aðalástæðunum fyrir, að þetta frumvarp er komið fram. Það er í fullu samræmi við það, sem vjer höfum gert hjer á þinginu. Vjer höfum lagt þunga skatta á landslýðinn, og jeg hygg, að bæjarsjóður Reykjavíkur hafi engu minni þörf fyrir tekjuauka heldur en ríkissjóður.

Jeg skal taka það fram, að fyrir þá, sem ekki hafa sett sig mikið inn í þetta mál, er ekki gott að átta sig á útreikningum hv. 2. þm. G.-K. Það má vel vera, ef tekin eru nokkur hús á víð og dreif um bæinn, að sýna megi fram á, að þetta komi hart niður á einhverjum efnalitlum mönnum, en það er svo með hvaða skattalöggjöf, sem er. Það er ómögulegt að komast hjá því, að hún komi hart niður á einhverjum. Annars hjelt jeg, að þetta kæmi langharðast niður á efnamönnunum; að minsta kosti snertir það ekki þá, sem eru svo fátækir, að þeir geta ekki átt neitt hús.

Jeg hefi ekki getað gert þá útreikninga, sem nauðsynlegir eru til þess að geta talað með fullri vissu um það, hvernig skatturinn kemur niður. Jeg verð hinsvegar að treysta því, að bæjarstjórnin hafi athugað þessa hlið málsins. Undarlega víkur því og við, að jafnaðarmennirnir, sem sjerstaklega ættu að hafa hag hinna fátækari fyrir augum, eru með frv., en hinsvegar er Byggingarfjelagið andstætt því.

Jeg minnist þess í þessu sambandi, að árið 1917, þegar frv. um tekjuskatt var borið fram, þá var mikil andstaða gegn því í þinginu, að árið 1917 yrði skattlagt, og var sjerstaklega því þá borið við, að þetta mætti ekki vegna hinna fátæku.

Jeg vildi einnig minna á það, að ef þetta frv. verður samþykt, þá verður minni upphæð, sem þarf að jafna niður á bæjarbúa, og væri þá rjett að taka tillit til þeirra fátæku, sem hart hefðu orðið úti vegna skattsins, í útsvarsniðurjöfnuninni.

Jeg vil biðja hv. 2. þm. G.-K. að athuga, hvort hann hafi ekki gleymt þeim allra fátækustu, þegar hann var að íhuga, hversu hart þetta gjald kæmi niður á fátæklingunum. Því eins og jeg tók fram áðan, þá kemur þessi skattur alls ekki á þá.

Jeg vil einnig benda hv. þm. á, að brtt. hans lækka aðeins skattinn, en skatturinn kemur niður eftir sama hlutfalli og áður eftir brtt. hans, eða jafnranglátlega og áður eftir hans skoðun. Mjer skilst, að hv. þm. ætti samkv. forsendum sínum að greiða atkvæði gegn frv.