29.04.1924
Efri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (1401)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Björn Kristjánsson:

Þessi ræða gefur mjer tilefni til að segja fáein orð. Hv. 1. landsk. þm. (SE) byrjaði með því að benda á, að bæjarsjóður þyrfti tekjur. Jeg hefi ekki sjeð, að með þessu frv. væri verið að skapa bænum nýjar tekjur, nema að því leyti að ná í fáeina menn utanbæjar. En frv. stefnir aðeins að því að breyta tekjufyrirkomulaginu. Mjer er ekki um neinar nýjar tekjur að ræða móts við t. d. 20% tollinn fyrir ríkissjóð. Hann gat þess ennfremur, að skattarnir legðust ójafnt á. Ef grundvöllurinn er rjettur, þarf það alls ekki að vera. Aftur á móti eru það tollarnir, sem eru lagðir á mjög af handahófi, og koma því misjafnt niður. Hv. þm. sagði, að bæjarstjórnin hefði haft þetta mál lengi á prjónum, og er það rjett. En hún hefir ekki grafið djúpt í því eða rannsakað það til nokkurrar hlítar. Það var sagt, að sósíalistar hefðu athugað málið. Jeg veit ekki til, að sósíalistar hafi neinum fjármálamanni á að skipa hjer; þeir forðast þá mest af öllum, sem einhverja þekkingu hafa á fjármálum. Þeir hafa sína ákveðnu pólitík, og hún er sú, að gera þessa sjálfseignamenn, húseigendurna, að öreigum. (JJ: Hafa þeir þá tælt borgarstjórann!?).

Hv. 1. landsk. (SE) gat þess, að skatturinn kæmi ekki niður á alla, og er það alveg rjett. Hann á að koma niður á húseigendur í þessu tilfelli. Þess hærri sem skatturinn er, því misjafnara kemur hann niður eða ranglátari verður hann. Grundvöllurinn verður þá ekki sá, að greiða útsvörin eftir efnum og ástæðum, heldur lagt þyngst á þá — eins og jeg sannaði með dæmunum — sem minst eiga. Þetta, sem jeg hefi vikið að, var aðalkjarninn í ræðu hv. 1. landsk. Verð jeg að segja, að af öllum ræðum, sem jeg hefi heyrt til hv. 1. landsk., hefir hann farið þetta gætilegast í sakirnar; enda hefði hann fyrst þurft að rífa niður rök mín, en það treystist hv. þm. auðvitað ekki til að gera.

Þá sný jeg mjer að hv. 5. landsk. (JJ). Jeg bjóst við, að hann myndi bera fyrir sig rök í þetta sinn, í stað stóryrða, en venjulega verða stóru orðin hans nokkuð innantóm. Fyrst fann háttv. þm. það mjer til saka, að jeg hefði komið of seint með brtt. Það er rjett hjá hv. þm., að jeg er gamall og farinn að kröftum, og þess vegna ekki eins liðugur í snúningunum eins og þeir yngri. Brtt. kom svo seint af því, að jeg hafði ekki tíma nje kringumstæður til þess fyr að koma með hana og að rökstyðja hana. En nú er hún komin og tveir háttv. andmælendur hafa ekki getað hrakið hana. Þá sagði hv. þm., að verið væri að svifta bæinn tekjum. Jeg segi nei. Aðeins er verið að breyta skattafyrirkomulagi. Röksemdir hv. þm. voru m. a. þessi fáu dæmi um það, að ekki næðist í menn, sem flyttu út á Seltjarnarnes. Þessi skoðun, að flytja útsvörin yfir á fasteignirnar, kom fram fyrir nokkrum árum, en jeg veit ekki betur en að hún sje horfin nú úr hugum flestra hugsandi manna. En sósíalistar hafa tekið upp þessa stefnu. Furðar mig ekkert, þótt hv. 5. landsk. sje henni fylgjandi, þar sem vitanlegt er, að hann fyllir þeirra flokk og þeirra stefnu í öllum málum.

Jeg er alls ekki að lá hv. þm., þó að hann sje sósíalisti, eða jafnvel kommúnisti, einungis að hann vilji kannast við það.

Jeg get alveg virt skoðanir kommúnista, ef þeir hafa hreinskilni og þor til að kannast við, hvert þeir stefna. En hv. 5. landsk. kannast aldrei beinlínis við það en hefir hinsvegar heldur ekki neitað því, að hann fylgdi stefnu kommúnista. Og verkin sýna merkin.

Þá sagði hv. þm., að allir vitrir menn fylgdu þessari skattastefnu, en meðan þau 10 dæmi, sem jeg nefndi, eru ekki vefengd, þýðir ekkert að vitna til þessara stórmenna, sem háttv. þm. er altaf að tönglast á. Og svo lengi sem dæmi þessi verða ekki hrakin, get jeg vel fallist á það, sem háttv. þm. sagði, að jeg hefði vit fyrir öllum þeim, sem þeirri stefnu fylgja.

Þá margtók háttv. þm. það fram, að það væri sama og fella málið að samþykkja brtt. mínar, en þetta er ekki rjett; því er í engan voða stefnt með því, þótt það væri vitanlega hið eina rjetta, og bærinn tapaði engu í við það, nema ef telja skyldi um eins árs skeið nokkrum þús. kr. frá þessum skipstjórum, sem fluttir eru fram á Nes, og bankastjórum, sem fluttir eru suður undir Skerjafjörð og hv. þm. er altaf að tala um. En jeg held nú, að bærinn hvorki stæði nje fjelli með því.

Jeg sagði, að hið eina rjetta væri að leggja þessi gjöld á eftir brunabótavirðingu eignanna, en ekki eftir fasteignamati, og eftir þeirri leigu, sem af þeim fæst. Þetta taldi háttv. 5. landsk. vera hina mestu fjarstæðu. En hann gætir ekki að því, að sótaragjald og hreinsunargjald er einmitt lagt á brunabótavirðinguna eins og hún var fyrir 1917, en síðan er dregið frá brunabótavirðingunni 30% af húsum, sem síðar voru bygð, svo að ekki er lagt á nema 70% af brunabótavirðingunni á þeim húsum. Þá sagði þessi sami háttv. þm., að nauðsyn bæri til að leggja gjaldið á í þessu formi vegna götulagninga. En þetta er ekki rjett, því að göturnar hafa verið lagðar hingað til, þó að gjald þetta hafi ekki verið komið á, og munu verða lagðar jafnt hjer eftir, þó að það komist ekki á. Þá sagði hann ennfremur, að rjett væri að sameina gjöld þau, er um ræðir í frv. Þetta er aldrei nema satt, ef það er gert á rjettum grundvelli, og er jeg á sömu skoðun og hann um það, að það yrði kostnaðarminna, ef fleiri gjöldum yrði slengt saman í eitt.

Þá taldi hann, að fasteignamatið væri rjett. En það fer nú eftir því, hvernig á það er litið. Jeg sagði, að jeg teldi það mat eitt rjett, sem bygt væri á þeim arði, sem eignin gæfi, og á því mati eiga skattarnir að byggjast, en ekki á skuldum gjaldendanna.

Þá fór hann að blanda inn í þetta vörutollinum og sagði, að þar hefði jeg ekki hugsað um, þótt gjöldin kæmu ekki sem rjettlátast niður. Þessu er því til að svara, að fyrst og fremst geta tollar aldrei komið eins jafnt niður og skattar á fasteign, ef rjettilega eru á lagðir, og í öðru lagi kemur það þessu máli ekkert við. Annars mun jeg áreiðanlega vera kominn undir græna torfu, þegar þessi vörutollslög ganga úr gildi; svo lífseig munu þau verða.

Þá talaði hann einnig um, að það væri ósamræmi hjá mjer, að jeg greiddi atkvæði með verðtollinum. Þetta er rjett. En háttv. þm. gætir þess ekki, að þetta er aðeins bráðabirgðatollur, sem gilda á til ársloka 1925 og samþyktur var einungis fyrir hina knýjandi þörf, sem ríkissjóður hefir á því að fá tekjuauka. Jeg játa því, að hann sje að mörgu leyti ranglátur, en hjer má segja, að nauðsyn brjóti lög, og fyrir hina miklu tekjuþörf ríkissjóðs fylgdi jeg honum, þar sem ekki var þá í annað hús að venda. En annars er hann ekkert sambærilegur við það mál, sem hjer er um að ræða, því það er beinlínis fyrirkomulagsatriði, sem um er að ræða í bæjargjaldafrumvarpinu, eins og margtekið er fram.

Þá kom háttv. þm. með það, sem hann hefir svo oft komið með áður í Tímanum, án efa 10–20 sinnum; en það var, að jeg hefði samþykt samvinnulögin. Þó nú svo hefði verið, að jeg hefði samþykt þau, sem ekki var, því að jeg greiddi ekki atkvæði við 3. umr., þá getur verið fyllilega rjettmætt að vera á móti þeim nú, eftir að komið er í ljós, hversu rjettindi þau, sem lög þessi veittu, hafa verið vanbrúkuð. Þau lög ættu því nú að vera afnumin. Annars var það svo við 2. umr. málsins hjer í deildinni, að jeg sá, að allir fylgdu því. Gat jeg því ekki einn skorist úr leik eða farið að gera ágreiningsatkvæði. Vildi sem sagt gefa deildinni tækifæri til þess að átta sig á málinu betur til 3. umr.

Þá sagði háttv. þm., að jeg hefði verið að áfellast nefndina. Þetta er ekki satt; jeg var beinlínis að afsaka hana, fyrir því að hún gat ekki grafið sig inn í málið sem þurfti, og því ekki skilið það sem skyldi. En vitanlega skilur hv. 5. landsk. það aldrei, fremur en annað, þó að hann hefði fleiri ár til þess að grafa sig inn í það.

Þá talaði hann um, að þessi gjöld væru misjöfn; Nýja Bíó borgaði t. d. hátt útsvar. En þetta er ekki rjett, það borgar ekki nema 680 kr., eða minna en jeg. (JJ: Það er þá bara meiri öreigi!). Að jeg hafi sagt, að fasteignamatið væri falsað, er ekki rjett, því að jeg hefi aldrei haldið því fram, heldur, að það væri bygt á skökkum grundvelli; þeim grundvelli, sem ekki væri rjett að leggja skatta á eftir.

Annars finst mjer þær ástæður, sem komið hafa fram gegn brtt. mánum, svo veigalitlar og ljettvægar, að jafnrjett, ef ekki rjettara, sje að samþykkja þær eftir en áður. Vænti jeg því, að hv. deildarmenn greiði þeim atkvæði sín.