29.04.1924
Efri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í B-deild Alþingistíðinda. (1402)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Jónas Jónsson:

Það var ekki alveg rjett, sem hv. 2. þm. G.-K. (BK) sagði. (BK: O, — það er aldrei neitt rjett, sem jeg segi). Það er alveg satt; þar skildi þingmaðurinn fyrst sjálfan sig rjettilega. Það var ekki rjett hjá honum, er hann sagði, að þessi breyting yrði ekki til þess að hækka gjöldin á húsunum yfirleitt. En jeg lít svo á, að það verði hverfandi lítið, sem hækkunin nemur fyrir hvert heimili, samanborið við þær skattabyrðar, sem á þeim hvíla. Þá gleymdi hv. þm. stórum lið, sem lagður hefir verið á eftir brunavirðingu húsanna, en á nú hjer eftir, samkvæmt frv. þessu, að leggjast á eftir fasteignamatsvirðingu húsanna. Það, sem jeg á hjer við, er vatnsskatturinn. Er þetta svo mikið á mununum, að það mun fyllilega vega upp þann mun, sem áður var mjög lítils virði.

Þá sagði hv. þm., að síðan 1917 hefði verið dregið 30% af brunabótavirðingunni við skattaálagninguna. En þetta er tómur misskilningur, eins og alt annað hjá honum. Það, sem hann mun vera að rugla um þarna, er það, að af þeim húsum, sem metin voru fyrir 1917, hefir verið borgað 3‰, en af þeim húsum, sem metin hafa verið síðan, 2‰. Þetta rugl um 30% frádrátt er ekkert nema staðleysa. Þetta var hjerumbil öll uppistaðan í ræðu hans. Annars komst hann jafnilla frá öllu. Þá vildi hann halda því fram, að engir nafnkendir menn stæðu bak við frv. þetta. Þrátt fyrir það, þó margsannað sje, að margir af þektustu mönnum bæjarins hafa staðið að því bæði fyr og síðar. Og hverjir báru það fram nú? Jón Ólafsson framkvæmdarstjóri og núverandi borgarstjóri, hvortveggja þaulreyndir Íhaldsmenn. Hvað skyldi maður halda, þegar menn eins og Jón Ólafsson, einn af mestu auðmönnum þessa bæjar, bera fram slíkt frumvarp, og það ennþá harðara en það, sem liggur fyrir hjer? Er hægt að draga þá ályktun, að það sjeu aðeins bolsevikkar, sem aðhyllast þessa skoðun? Jeg held ekki. En eftir þessu eiga þá jafnaðarmenn að vera svo harðsnúnir, að þeir hafa ekki aðeins snúið bæjarstjórninni, heldur og einnig allshn. Nd., neðri deild mestallri og síðast allshn. þessarar deildar, og þar á meðal hv. þm. Seyðf. (JóhJóh). Ef nú jafnaðarmenn hafa svona mikið vald hjer, að þeir geta tekið kapítalistana, snúið þeim á sína skoðun og yfir höfuð látið þá gera alt eftir sínum geðþótta, þá eiga þeir sannarlega rjett á, að farið sje eftir tillögum þeirra. Og jeg fyrir mitt leyti tel mjer meiri heiður í því að vera talinn með svona duglegum mönnum heldur en þó jeg fengi kross hjá háttv. 2. þm. G.-K., sem er í krossanefndinni og mjög natinn við þá virðulegu útdeilingu, enda hjegóminn þar hæfilegur veitandanum.

Þá játaði hv. þm., að ekki væri skaði skeður, þó að frv. næði ekki fram að ganga að þessu sinni, og þó að þeir efnuðu menn, sem flýja út úr bænum, af því að þeim þykja gjöldin of há, kæmust þá eitt árið enn undan að greiða skatt þennan. Það lítur því út fyrir, að hann hugsi alveg eins mikið um hagsmuni bæjarins eins og hag „öreiganna“ á Vesturgötu.

Annars byrjaði háttv. þm. ræðu sína með mjög hreinskilnislegri játningu, þar sem hann játaði, að hann væri orðinn mjög ellilamaður og að honum hefði ekki unnist tími til að koma með þessar einföldu brtt. sínar fyr en í gærkvöldi, þrátt fyrir það, þó að hann hafi haft ærið langan tíma til undirbúnings. Jeg vil nú beina því til háttv. þm., hvort ekki sje athugavert fyrir hann, sem sökum elli sinnar og þar af leiðandi andlegrar og líkamlegrar hrörnunar þarf svona langan tíma til að koma með jafnlítilfjörlegar brtt. og þessar eru, að vera að tefja fyrir stórmáli, sem vel er undirbúið af honum yngri og færari mönnum. Og jafnframt vil jeg vekja athygli hans á því, hvort þessi hrörnun hans muni ekki vera þess eðlis, að viðurhlutamikið sje fyrir hann að vera að skifta sjer af stórmálum og sitja á þingi.

Út af því, sem hann var að tala um samábyrgðina, vil jeg taka það fram, að hann var með að lögfesta hana, og ber því til eilífðar sögulega, lagalega og siðferðilega ábyrgð á henni. Samábyrgðin, sem áður var komin undir vilja fjelagsmanna, er nú gerð að föstu skilyrði í samvinnufjelögum með atfylgi hv. 2. þm. G.-K. Er nú ekki ástæða til að halda, að hv. þm. hafi skilið þessi mál betur 1921 en nú, þegar hann svo bersýnilega er farinn að ganga í barndómi, og jafnvel játar það sjálfur? En hafi ekki svo verið, þá getur hann gefið sjálfum sjer utan undir í hegningarskyni það sem eftir er æfinnar. Hafi hann nú á rjettu að standa, hefir hann 1921 skemmilega svikið sinn málstað, er hann rjetti upp „putann“ hjer í þessari hv. deild og lögfesti samábyrgðina.