29.04.1924
Efri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1950 í B-deild Alþingistíðinda. (1404)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Jeg held, að ekki sje ástæða til, og jafnvel varhugavert, að lækka húsaskattinn frá því, sem hann er nú settur í frv., 8‰ af fasteignamati, vegna þess, að húseigendur eiga jafnframt að losna við ýms gjöld, sem nú hvíla á húseignunum, er munu nema fast að því eins miklu og húsaskatturinn.

Nokkru öðru máli er að gegna með lóðarskattinn; hann er enn í frv. miklum mun hærri en núverandi lóðargjald og lagður á eftir alt öðrum mælikvarða en nú er gert. Það getur því verið mikið álitamál, hve hár hann á að vera, og auðvitað varlegast að hækka hann sem minst meðan ekki er sjeð, hvernig hann kemur niður.

Jeg treysti mjer því ekki til að greiða atkvæði með 1. lið brtt. hv. 2. þm. G.-K. á þskj. 469, en mun greiða atkvæði með 2. og 3. lið.

Það er auðvitað ekki annað en fyrirsláttur eða grýla að halda því fram, að það sje sama og að fella frv. að samþykkja þannig lagaðar breytingar á því. Tíminn er nógur til þess, að það geti gengið fram, jafnvel þótt sá ágreiningur yrði á milli deildanna, að það þyrfti að fara í sameinað þing, og hv. þm. Reykv. munu sjá um, að það nái fram að ganga í hv. Nd. og dagi þar ekki uppi.

Jeg leyfi mjer að vænta, að hæstv. forseti beri upp liði till. á þskj. 469 hvern fyrir sig.