26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

1. mál, fjárlög 1925

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það er nú þegar orðið mjög framorðið. Ef hv. þm. Str. (TrÞ) er mjög kvöldsvæfur (TrÞ: Alls ekki tilfellið!), mætti ef til vill finna nokkra afsökun fyrir þeim framúrskarandi fjarstæðum hans um það, að ásökun mín í garð forseta Búnaðarfjelagsins fyrst og fremst snerti sessunaut minn, hæstv. atvrh., af því að hann væri í stjórn fjelagsins. Þennan vitnisburð gaf jeg eftir því, sem jeg hefi fræðst um starfsemi Búnaðarfjelagsins í sveitum landsins á ferðalögum mínum. Jeg hefi ekki komið í sveit síðan í júlí síðastl., um sama leyti sem hæstv. atvrh. fyrst kom í stjórn þessa fjelags. Jeg get ekki skilið, að hv. þm. Str. hafi sagt þetta í góðri trú, nema hann sje þá orðinn grútsyfjaður. Að öðrum kosti verð jeg að álíta, að það hafi verið sagt af þeim hvötum, sem helst ekki eiga að ráða orðum manna. Til að fyrirbyggja misskilning, tek jeg það skýrt fram, að orð mín áttu ekki við þann mæta mann, sem var forseti Búnaðarfjelagsins fyrir 10–20 árum. Það er núverandi forseti, sem hefir, eftir því sem jeg best veit, ráðlagt fáráðlingum að róta í forarblautum, óræstum mýrum, í því skyni að gera þær að túni.