30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1955 í B-deild Alþingistíðinda. (1414)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Frv. þetta er endursent frá hv. Ed. Hefir hún gert á því tvær smávægilegar breytingar í þá átt að færa lóðargjaldið niður af bygðum lóðum í 0,6% og af óbygðum lóðum tilsvarandi. Eins og hv. þm. muna, þá var hv. deild ekki á eitt sátt um það, hversu hátt þetta gjald skyldi vera, hvort það t. d. skyldi vera af bygðum lóðum 1% eða 0,8% og tilsvarandi af óbygðum lóðum. Þó var meiri hl. þeim megin, sem gjaldið var lægra, og munu þeir hinir sömu hv. þm. síst amast við því, þó þetta gjald verði enn fært niður. Menn verða hvort sem er að gæta þess, að með því er alls ekki verið að minka tekjur bæjarins, heldur er spurningin aðeins sú, hve mikið bæjarsjóður skuli taka inn á þennan hátt og hvað mikið með aukaútsvari. Jeg veit líka, að þeir, sem kynnu að hafa viljað miða við hærri tölurnar, láta þessa lækkun ekki aftra sjer frá því að lofa frv. að ganga fram, þar sem í sjálfu sjer er um mjög smávægilegt atriði og smáar upphæðir að ræða.

Vil jeg svo að lokum óska þess fyrir hönd nefndarinnar, að hv. deild samþykki frv. óbreytt eins og það kom frá hv. Ed.