26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

1. mál, fjárlög 1925

Jón. Sigurðsson:

Það hafa ýms orð fallið við umr. síðari hluta fjárlaganna, og mörg æðiundarleg. Meiri hluti umr. hefir snúist um 3–4 fjárveitingar til landbúnaðarins. Mig furðar þetta sjerstaklega, þegar litið er á það, að á þessum krepputímum munu víst allir hv. þm. viðurkenna það, að það sje ekki hvað síst þörf á að auka framleiðsluna í landinu. Að mínu áliti eru til tvö bjargráð: að spara og auka framleiðslu. Í fyrradag samþykti þessi hv. deild talsverða upphæð til sjávarútvegsins, til að styðja að bættri afkomu sjávarútvegsmanna, styðja að aukinni framleiðslu, sjerstaklega að tryggja smábátaútgerðina betur en gert hefir verið, með auknum landhelgisvörnum, og auka þannig framleiðslu sjávarútvegsmanna. Nú hefir fjvn. borið fram tillögur, er stefna að hinu sama að því er snertir landbúnaðinn, en undirtektirnar undir þessar tillögur komu mjer mjög á óvart, því jeg hafði búist við eindregnu fylgi við þær. Jeg vona, að hv. þm. sjeu ekki þess hugar, að þeir vilji ekki unna landbúnaðinum framfara eins og sjávarútveginum.

Hvað snertir styrkinn samkvæmt jarðræktarlögunum, þá mótmæli jeg því algerlega, að hann sje ölmusa; og hann er heldur ekki veittur bændum af því þeir geta ekki „spekúlerað“ í síld, eins og hv. þm. Str. sagði, heldur sem verðlaun eða hvatning frá þjóðfjelaginu til bændanna um að þeir leggi sig nú alla fram til að vinna að þessu þýðingarmikla máli þjóðarinnar, jarðræktinni. En jeg tek undir það, sem hv. þm. Ak. sagði, að persónulega er mjer nákvæmlega sama, hvort jeg fæ nokkurn styrk eða engan; býst við að vinna engu síður að jarðabótum án hans, eins og hingað til, en það er gamalt spakmæli, sem segir: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru.“ Þeir, sem hafa opin augu fyrir því, hvílík þjóðarnauðsyn það er að auka ræktun landsins, þeir þarfnast ekki þessa meðals, sem við nú nefnum jarðræktarstyrk, heldur þeir, sem halda, að búskapurinn geti haldið áfram með gamla laginu. Það eru þessir menn, sem þarf að lækna; það þarf að opna augu þeirra, með því að fá þá til að hefjast handa.

Jeg skal játa, að það er að nokkru leyti rjett, að það skiftir ekki miklu máli, hvort byrjað er einu sumrinu fyr eða síðar, en jeg vil leyfa mjer að færa rök að því, að áríðandi sje, að byrjað verði sem fyrst.

Fyrst er að líta á það, hvernig ástandið er og hvernig það var, og draga af því ályktanir um það, hvernig verða muni í framtíðinni.

Áður fyrri hafði landbúnaðurinn eins mikinn mannafla og hann óskaði eftir. Nú á síðari tímum, síðan atvinnuvegirnir urðu margir og margbreyttir, hefir fjöldi manna alveg horfið frá landbúnaðinum, enda hafa engar ráðstafanir verið gerðar til að hefta þann straum. Er ekki annað sjáanlegt en að búnaðurinn breytist í einyrkja- eða kotungabúskap, ef þessu fer fram. Þetta er það, sem jeg óttast, og fyrir þessari hættu, sem virðist blasa við, vil jeg ekki loka augunum. Við verðum að nota tímann, meðan enn er færi og talsverður mannafli til sveita, til þess að breyta jarðræktinni í það horf, að af megi komast með miklu færra fólk en nú tíðkast. Ef þetta tekst ekki, að sljetta túnin svo vel og gera slíkar umbætur, að koma megi að fljótvirkum vjelum, þá er ekki annað sýnna en að voði sje þessum atvinnuvegi búinn. Ef afkoman er ljeleg, leita ávalt duglegustu mennirnir til annara atvinnuvega, er betur borga vinnuna, og svo mundi einnig verða um bændurna. Einnig er sú hætta fyrir dyrum, ef landbúnaðurinn breytist í einyrkja eða kotungsbúskap, að landbúnaðurinn verði ekki lengur sú undirstaða, sem hann hefir verið og á að vera undir íslensku þjóðlífi. Það er ekki hægt við því að búast, að menn, sem strita daginn út og inn fyrir afkomu sinni, geti gefið sjer nokkra stund til andlegra starfa, sem nauðsynleg eru til þess að hefja hverja stjett. Þetta er aðeins ein hlið málsins — menningarhliðin.

Til er önnur hlið á málinu, fjárhagshliðin. Vildi jeg aðeins. benda á, hvílíka þýðingu það hefði, ef styrkur þessi gæti örvað menn svo, að sljettaður yrði þó ekki væri nema helmingur af túnum landsmanna, svo að þau yrðu vjelfær. Hver munurinn yrði á því, þegar einn maður með hesti og vjel ynni það, sem 4 mönnum veitist nú fullerfitt, geta menn reiknað í huganum, en það eru háar tölur. Og hver gróði yrði það ekki fyrir land og þjóð, að þeir menn, sem þá yrðu umfram, gætu snúið sjer að öðrum verkefnum.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða meira um þennan lið, en jeg get ekki stilt mig um að minnast örlítið á annað atriði, sem talsvert hefir verið rætt hjer í dag. Það er styrkurinn til búnaðarfjelaganna.

Deildar hafa skoðanir manna verið og eru enn um það, hvernig heppilegast væri unnið að jarðabótastörfum. Sumir hafa ætlað, að best væri að flokkar færu meðal bænda og ynnu verk þessi, aðrir að bændur kynnu þau og ynnu sjálfir, svo sem siður er í öðrum löndum. Jeg er alveg sannfærður um, að ekki kemst lag á þetta fyr en bændur kunna að plægja, eins og þeir nú kunna sjálfir að smíða amboð og stinga út úr húsi, en til þessa hefir þá vantað verkfæri o. fl. Þessi litli styrkur, þó hann sje aðeins 10 þús. kr., getur mikið hjálpað til þess að örva menn í því efni. Undanfarið hefir sú athugasemd fylgt þessum lið, að honum væri ekki skift á milli þeirra manna, sem jarðabæturnar vinna — enda munar engan um hann — heldur búnaðarfjelaganna, í hlutfalli við þær jarðabætur, sem þau hefðu látið gera, og hafa þau notað hann til sameiginlegra verkfærakaupa.

Jeg og aðrir þekkja til þess, að styrkur þessi hefir átt góðan þátt í því að halda búnaðarfjelögunum saman, og eins hitt, að mörg góð og nytsöm verkfæri hafa verið keypt fyrir hann. Tel jeg því, að styrknum hafi verið vel varið og vona, að svo verði. Jeg get bætt því við, að jeg hefi hugsað mjer að koma fram með athugasemd, samskonar og áður, við liðinn til 3. umr.

Það er orðið framorðið, og ætla jeg því að sleppa að tala um ýmislegt, sem þó hefði verið ástæða til að minnast á. Það vill líka svo vel til, að allar þær sparnaðartillögur, sem jeg og fleiri höfum barist fyrir á undanförnum þingum, hefir fjvn. nú tekið upp, og eiga þær nú loks vinsældum að fagna. Jeg er því svo lánssamur að eiga enga brtt. En í sambandi við það, sem sagt hefir verið um uppbót á áætlun um ljós og hita til Hólaskóla, skal jeg segja það, að mjer er það lítið kappsmál, hvort upphæðin er sett 3 eða 5 þús. kr. Hún þarf að greiðast hvort sem er. Og jeg get ekki fallist á það, sem háttv. sessunautur minn (HK) virtist gefa í skyn, að meira yrði notað, ef áætlunin væri hærri. Það hefir sýnt sig á undanförnum árum; þá hefir áætlunin ætíð verið lág, enda kostnaðurinn stöðugt farið langt fram úr áætlun.