26.02.1924
Efri deild: 6. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

29. mál, hæstiréttur

Forsætisráðherra (SE):

Jeg er sammála báðum þeim hv. þm. (JM og JJ), sem nú hafa talað, um, að æskilegt væri, að dregið verði úr embættafjölda landsins. Til sannindamerkis um, að mjer sje hjer full alvara, skal jeg vísa til sparnaðarfrv. þeirra á þessu sviði, sem stjórnin lagði fyrir þingið í fyrra. Þar komu fram hinar alvarlegustu sparnaðartilraunir, sem enn hafa gerðar verið. En, því miður, þingið daufheyrðist við þeim frv.

Þó að sjálfsögðu sje rjett að draga úr óþarfa embættishaldi, þá er auðsætt, eins og hv. 4. landsk. (JM) reyndar tók fram, að enda þótt lögð verði niður nokkur embætti, þá verður ekki með því greitt úr fjárhag landsins í augnablikinu. Jeg tek þetta fram vegna þess, að það er eins og sumir haldi, að ef þeir riti nafn sitt undir frv. um að leggja niður eitt eða tvö embætti, þá hafi þeir með því borgið fjárhag þjóðarinnar og geti snúið heim með góða samvisku.

Þegar litið er á miljónahalla undanfarinna ára, þá er það auðsætt, að niðurlagning fárra embætta ræður enga bót á augnablikserfiðleikunum, en hinsvegar er þó vegna framtíðarinnar sjálfsagt að draga úr embættakostnaðinum, þar sem því verður við komið.

Annars skal jeg geta þess, að þegar talað er um að fækka dómurum í hæstarjetti, þá er álit margra merkra lögfræðinga, að slíkt sje vart gerlegt, nema því aðeins, að dómstigin verði jafnframt gerð þrjú. En ef bæta á við miðdómstigi, verður kostnaður við það mun meiri en nú.

Það er rjett, að jeg hefi ekki sjeð mjer fært að leggja til, að dómurum í hæstarjetti verði fækkað, enda þótt af því hlytist sparnaður nokkur. Jeg álít sem sje, að það skifti afarmiklu máli fyrir þjóðfjelag vort, að sem mest trygging sje fyrir því, að æðsti dómstóll landsins geti gefið sem ábyggilegastar úrlausnir mála þeirra, sem fyrir hann eru lögð. Vegna þess, að jeg vil ógjarnan veikja þá tryggingu, get jeg ekki greitt frv. þessu atkv., enda þótt ætla megi, að til lítils sje að greiða því mótatkvæði, þar sem þeir hv. 4. landsk. og háttv. 5. landsk. hafa fallist í faðma í máli þessu og ætla sýnilega að fá frv. samþykt.

Á síðasta þingi var því skotið til stjórnarinnar, hvort hún vildi ekki bíða með að skipa í dómarasæti við hæstarjett fram að þessu þingi, ef sæti losnaði þar milli þinga. Jeg lofaði þessu þá, og samkv. því loforði gegnir nú einn lagaprófessora háskólans jafnframt dómstörfum í hæstarjetti, síðan sæti losnaði þar.

Það mátti jafnvel skilja á hv. 5. landsk., að hann áliti, að hægt væri að setja dómara í hæstarjetti frá án eftirlauna. Má hjer benda honum á stjórnarskrárákvæði, sem segir, að dómarar fullra 65 ára, sem láta af embætti, haldi fullum launum.