17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (1429)

29. mál, hæstiréttur

Flm. (Jón Magnússon):

Jeg skal þegar taka það fram, að hæstv. forseti hefir bent mjer á það, að breyta þarf 38. gr. hæstarjettarlaganna frá 1919, ef 1. gr. frv. þess, sem hjer liggur fyrir, verður samþykt; vænti jeg því þess, að hæstv. forseti bæti 38. gr. inn í upptalninguna fyrst í frv., ef svo færi, að 1. gr. frv. yrði samþykt. Jeg álít óþarfa fyrir mig að tala langt mál um frv., því eins og sjest af nál., þá hefir nefndin orðið sammála um breytingarnar að öðru leyti en því, að hv. 5. landsk. taldi rjettara, að málaflutningur væri skriflegur, eins og hann hjelt fram við 1. umr. málsins. Nefndin vildi ekki ganga svo langt, og varð það að samkomulagi að koma fram með ákvæði, er gerði mönnum hægra fyrir en áður að fá leyfi til skriflegs málaflutnings. Er eftir því ekkert því til fyrirstöðu, ef annarhvor málsaðilja eða umboðsmanna þeirra óska þess. Skal jeg svo ekki fjölyrða um málið, en læt mjer nægja að vísa til nál. að öðru leyti.