17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1979 í B-deild Alþingistíðinda. (1431)

29. mál, hæstiréttur

Frsm. (Jón Magnússon):

Það er ekki nema eðlilegt, að menn sjeu á mismunandi skoðun um slík mál sem þetta. En mjer skilst, að menn sjeu sammála um það, að nauðsyn beri til að spara sem allra mest, og á þeirri skoðun hefir einnig hæstv. stjórn verið. Er jeg fyrir mitt leyti ekki hræddur við að ráðast sumpart á elstu og sumpart á æðstu stofnanir landsins í því skyni. — Það, sem menn aðallega greinir á um, er, hvað gera eigi til þess að spara, og í því efni er jeg og hæstv. forsrh. (SE) á gagnstæðri skoðun. Jeg er á móti því að afnema biskupsembættið og hæstv. forsrh. getur ekki sætt sig við að fækka dómendum í hæstarjetti. Jeg skal ekki deila um það. Menn eru sammála um það, að spara þurfi, af því að þeir treysta því ekki, að hægt sje að auka tekjur landsins að nokkrum mun. Nefndin álítur, að hægt sje að fækka dómendum hæstarjettar, og því hefir hún lagt til, að svo verði gert.

Jeg get ekki verið samþykkur hæstv. forsrh. um, að sparnaðar gæti ekki nokkuð fljótt. Gætir hans þegar nokkuð, og er nú einn dómarinn aðeins settur í þetta embætti. (Forsrh. SE: Þetta er aðeins bráðabirgðaráðstöfun). Já, þetta er ágætt. (Forsrh. SE: Má þetta vera svo máske í 4–5 ár?). Mjer fyndist ekkert óttalegt, þótt svo væri. Vjer verðum í þessu sem öðru að sníða oss stakk eftir vexti, og álít jeg þessa fækkun dómaranna vel forsvaranlega hjá ekki fjölmennari þjóð heldur en vjer erum. Finst mjer líka athugunarvert, hvort ekki mætti færa ýmsar stofnanir, sem komið hefir verið á stofn á síðustu árum, í svipað horf og var áður. Jeg álít ekki, að álit dómsins þurfi að rýrna neitt, þótt dómurum yrði fækkað úr 5 í 3. Menn spáðu líka illu, þegar flytja átti hæstarjett hingað frá Danmörku. En eftir að æðsta dómsvaldið var flutt inn í landið, hefi jeg ekki heyrt neinar raddir, sem þætti það lakara. Mjer finst það ekki veikja ástæður nefndarinnar, þótt sagt sje, að í raun og veru hefði hún ekki komið með þessar brtt., ef ekki hefði þurft að spara. Menn hafa álitið það æskilegt að fá miðstigsdóm, jafnvel þótt dómarar í hæstarjetti hjeldu áfram að vera fimm. Er það ekki síður heppilegt, er dómurum hefir verið fækkað í hæstarjetti. Og hafa menn hugsað sjer, að hægt myndi vera að stofna miðstigsdóminn ríkissjóði að kostnaðarlitlu, með því að fá háskólakennarana til þess að sitja í honum. En þetta er framtíðarspursmál og munu líða mörg ár þangað til mönnum þyki fært að leggja í nokkum kostnað við það.

Það er að vísu ekkert sparnaðaratriði, hvort forseti dómsins skuli kosinn eða ekki. En jeg sje ekki, að þetta þyrfti frekar að vekja ágreining heldur en til dæmis kosning háskólarektors. Það hefir verið talað um, að þetta væri forboði þess, að nú eigi að fara að kjósa embættismenn landsins. Vil jeg þó benda á, að þetta er kosning milli áður skipaðra embættismanna. En þessi forboði, sem um er rætt, er þegar kominn með lögunum um að kjósa skuli biskup. (Forsrh. SE: Þetta er þá víst morgunroðinn). Jeg álít mjög skynsamlegt að taka upp kosningu biskups, og liggja fyrir því skýrar ástæður. En vitanlega þykir hverjum sinn fugl fagur, og verð jeg að segja, að mjer finst þessi till. mín vera ógnarlega skynsamleg og langt frá því að skaða dóminn. Og það er óþarfi að óttast, að þetta þurfi að vekja nokkra úlfúð út á við.

Jeg held einnig, að enginn geti með neinum rjetti borið öðrum breytingagirni á brýn, því að líkt mun vera á komið með okkur öllum. Hæstv. forsrh. var einnig að tala um gamla, góða siði, og er það rjett, að þeir eru fáir hjá oss fastir frá gömlum tíma. Vjer höfum a. m. k. um margar aldir verið demókratar. En Englendingar hafa haft ýmsar gamlar venjur og siði, svo sem hárkolluna og ullarpokann; en vjer verðum sjálfsagt að gera oss það að góðu að vera án þess alls.