17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1984 í B-deild Alþingistíðinda. (1433)

29. mál, hæstiréttur

Jónas Jónsson:

Jeg vil aðeins taka fram örfá atriði. Nefndin er í sjálfu sjer sammála um alt, sem fram kemur í frv. En jeg hefi þó þá sjerstöðu, að jeg álít skipun æðstu dómstóla vorra geta orðið enn kostnaðarminni áður en langt um líður, og mundi því styðja það, að gengið væri enn lengra í sparnaðaráttina. Jeg tek þetta fram, enda þótt þessi breyting liggi ekki fyrir nú, og ætla jeg ekki að leiða það inn í umr. að öðru leyti, en get þessa aðeins til skýringar á afstöðu minni til málsins. Jeg get ekki sjeð, að háttv. þm. Seyðf. (JóhJóh) hugsi nógu skarplega, þar sem hann heldur því fram, að þær miklu annir, sem dómarinn í Reykjavík nú hafi, þurfi að leiða til þess, að skipaður verði miðdómur. Eiginlega liggur beint við að auka einungis starfskraftana hjá bæjarfógetanum. Jeg vil í sambandi við hækkun málafjöldans hjer í bænum benda á, að ekki virðist manni þetta starf vera bæjarfógetanum um megn, þar sem hann hefir, ofan á öll önnur störf sín, bætt á sig því ómaki að sitja á þingi, sem þó er ekki embættisskylda hans. Í öðru lagi býst jeg við því, að ef kostnaður hefir vaxið við embættið með vaxandi málafjölda, þá hafi bæjarfógetinn fengið sjer aðstoðarmenn með leyfi stjórnarinnar, þannig, að aukið annríki leiði ekki af sjer neinar kröfur um allsherjarbreytingar á þessari dómaskipun. Aftur á móti finst mjer það ekki heppilegt, að dómarinn í Reykjavík eigi að dæma árlega í 600 málum, en að 5 dómarar hæstarjettar dæmi á sama tíma í 50–60 málum.