19.03.1924
Efri deild: 23. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (1442)

29. mál, hæstiréttur

Forsætisráðherra (SE):

Jeg er þakklátur hv. þm. Seyðf. og öðrum hv. flm. brtt. Hv. þm. rökstuddi till. vel og ítarlega, og hefi jeg ekki ástæðu til að bæta þar miklu við. Þó vildi jeg leyfa mjer einu sinni ennþá að benda á það, að með þessari breytingu getur hæglega skapast meiri og minni hluti í rjettinum, þannig að tveir menn hjeldu þar saman til þess að ráða rjettinum, og gæti slíkt mjög haft áhrif á niðurstöðu málanna. Svo mikið sem jeg er á móti því að fækka dómendum, þá er jeg ennþá meir á móti því, að þessi breyting nái fram að ganga. Jeg er sannfærður um, að hún yrði ekki til þess að auka virðingu rjettarins. Enda sje jeg ekki ástæðu til þeirrar breytingar, því jeg hefi aldrei heyrt, að nein umkvörtun hafi komið yfir því, að justitiarius sje skipaður en ekki kosinn. Hvað það snertir, sem hv. 5. landsk. sagði, að lögfræðingum bæjarins litist vel á breytinguna, þá skal jeg geta þess, að fyrst og fremst er hæstirjettur sjálfur andvígur breytingunni og ennþá hefi jeg ekki hitt lögfræðing í bænum, sem ekki er óánægður með breytinguna og leiður yfir því, að háttv. 4. landsk. skyldi verða til þess að koma fram með hana.