19.03.1924
Efri deild: 23. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (1444)

29. mál, hæstiréttur

Forsætisráðherra (SE):

Jeg verð að spyrja hv. 4. landsk. þm., hvort hann viti til þess, að þetta fyrirkomulag eigi sjer annarsstaðar stað. Ef svo er ekki, hvers vegna eigum vjer þá að taka fyrstir upp þessa nýung! Hvað snertir það atriði, að allir dómendur eigi rjett til sömu launa, þá skal jeg geta þess, að frá mínu sjónar miði er ekkert því til fyrirstöðu, að dómstjóri hafi sömu laun og hinir dómendurnir, þó að hann sje skipaður, en ekki kosinn. Jeg legg enga áherslu á það, og fyrir mjer er það heldur ekki neitt metorðaspursmál, en jeg tel, að það verði meiri festa í rjettinum við það fyrirkomulag, sem nú er um þetta atriði; og því hefir ekki verið mótmælt. Jeg tel það mjög varhugavert að fara inn á þá braut, sem hjer er verið að gera, sem sje að skapa í hæstarjetti meiri og minni hluta, og finst mjer ekki sitja á Alþingi að stofna til slíks. Hv. 4. landsk. þm. mintist á forseta Alþingis og háskólarektor í þessu sambandi, en slíkt er alls ekki sambærilegt við breytingu þá, sem hjer ræðir um. Annars skildi jeg ekki, hvernig hv. 4. landsk. þm. ætlaði að fara að því að höfða sakamál á hendur hæstarjettardómendum fyrir það, að enginn þeirra yrði löglega kosinn dómstjóri. Afleiðingin af slíkri ólöglegri kosningu yrði engin önnur en sú, að setja þyrfti ítarlegar reglur um kosninguna, hvort hún ætti að vera leynileg, hvernig fara ætti um kosningaúrslit í vissum tilfellum o. s. frv. Jeg get ekki neitað því, að mjer fyndist kominn broslegur blær á hæstarjett, ef breyting þessi verður samþykt. Jeg vil því skora á hv. 4. landsk. þm., að hann falli frá till. Hinsvegar ætti að geta orðið samkomulag um það að launa alla dómendur jafnt.