25.04.1924
Neðri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1998 í B-deild Alþingistíðinda. (1451)

29. mál, hæstiréttur

Frsm. (Jón Kjartansson):

Eins og hv. deild sjer á nál. á þskj. 337, hefir allshn. mælt með þessu frv. með vissum skilyrðum. Tveir af nefndarmönnunum hafa þó skrifað undir það með fyrirvara, en jeg hygg þó, að hv. 4. þm. Reykv. (MJ) hafi sinn fyrirvara þar, sem brtt. hans er. Jeg skal þegar taka það fram um mig sjálfan, að jeg er fyllilega sammála hv. 4. þm. Reykv. um efni brtt. hans, og hefði í rauninni getað skrifað undir nál. með sama fyrirvara og hann gerði. Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hefir sjerstöðu um mörg atriði.

Skal jeg nú víkja að málinu sjálfu. Hæstirjettur er ekki gamall. Hann er stofnaður með lögum nr. 22, 6. okt. 1919, en tók til starfa 1. janúar 1920, og er því á fjórða ári. Með stofnun hæstarjettar er gerð gagngerð breyting á dómaskipuninni í landinu. Áður voru dómstigin, sem kunnugt er, 3 hjer á landi — undirrjettur og yfirrjettur, sem báðir voru í landinu, og svo hæstirjettur Dana, sem var æðsti dómstóll landsins.

Þegar hæstirjettur var stofnaður, var um leið afnuminn yfirrjetturinn og jafnframt hæstirjettur Dana sem æðsti dómstóll í íslenskum málum. Dómstigin urðu þannig tvö, í stað þriggja áður. Málaflutningur í yfirrjetti hafði verið skriflegur, en í hæstarjetti var tekinn upp munnlegur málaflutningur, sem hjer var alveg óþektur og hafði því engin skilyrði til að bera. Þrátt fyrir allar þessar breytingar, var lægsta dómstigið látið haldast óbreytt, ekkert bætt upp á það, enda þótt ófullkomið væri. Langalvarlegasta breytingin á dómaskipuninni með stofnun hæstarjettar var sú, að fækka dómstigum. Einkum var þetta alvarlegt atriði, þar sem yfirrjetturinn var lagður niður, eftir að hafa áunnið sjer traust og virðingu utanlands og innan og notið mikils trausts hjá hæstarjetti Dana, sem mun vera einhver hinn besti rjettur á Norðurlöndum. Það var því alvarlegur hnekkir fyrir dómaskipun landsins að missa þetta miðdómstig, án þess að bæta frumdómstigið nokkuð. Það er eðlilegt, að frumdómstigið sje ófullkomið, eins og það líka er. Menn verða þar að hafa dómstörfin í hjáverkum og eru ofhlaðnir öðrum óskildum störfum. Líka verður að líta á það, að þar er ekki fyrir hendi sú aðstaða, sem æskileg er og nauðsynleg, sem sje, að lögfræðingar flytji málin. Það sjest best, hve ófullkomið frumdómstigið er, þegar það er athugað, að af 39 dómum, er hæstirjettur hefir dæmt tvö síðustu árin, hafa 19 verið gerðir ógildir eða snúið algerlega við, 10 verið breytt að meira eða minna leyti, og einir 10 staðfestir. Þetta frumdómstig á þó vitanlega að vera grundvöllurinn undir rjettarfari landsins, og í framkvæmdinni reynist það svo, að langflestir verða að láta sjer dóma þess lynda, þar sem kostnaður við málskot til hæstarjettar er mörgum ókleifur. Þannig munu málaflutningsmenn þar taka lægst 300 kr. fyrir flutning máls, auk ýmislegs annars kostnaðar. Það liggur því í augum uppi, að hinn dýri málaflutningur fyrir hæstarjetti gerir mörgum ómögulegt að sækja rjett sinn þangað. Þar sem ríkið leggur fje til dómsmála hlýtur tilætlunin að vera sú, að allir nái rjetti sínum, jafnt fátækir sem ríkir. Nefndin hefir því lagt aðaláherslu á að tryggja þetta. Hún lítur ekki eingöngu á þetta mál sem sparnaðarmál fyrir ríkissjóð, heldur fyrir einstaklingana, jafnframt því, að dómsöryggið sje trygt. Því er gert ráð fyrir í nál., að ekki sje dómendum í hæstarjetti fækkað fyr en miðdómstig er komið á aftur. Þetta miðdómstig ætti að vera svo ódýrt, að allir gætu átt aðgang að því. Skriflegur málaflutningur, sem altaf er ódýrari, yrði notaður þar. Í hæstarjetti, sem hefir munnlegan málflutning, er nú gerður skriflegur útdráttur úr málsskjölum, en sá útdráttur er mjög dýr.

Jeg fyrir mitt leyti álít, að dómaskipun landsins sje ekki borgið fyr en þetta fyrirkomulag kemst á, og fyr álít jeg, að ekki komi til mála að fækka dómendum í hæstarjetti. (HK: Og þó leggur nefndin það til). Hún leggur einmitt áherslu á, að þetta hvorttveggja verði samtímis: Fækkun dómenda í hæstarjetti og miðdómstig sett á stofn.

Það þarf engum blöðum um það að fletta, að dómsniðurstaðan verður tryggari, ef dómstigin eru fleiri, og því tryggari, sem fleiri dómendur sitja í hverjum dómi.

Mjer heyrist á hv. þm., að þeir sjeu hálfönugir yfir því, að nefndin skuli leggja aðaláherslu á þetta, en jeg get fullvissað þá um, að það er alveg óþarfi. Jeg hefi tekið það fram, að nefndin lítur ekki eingöngu á sparnað ríkissjóðs í þessu efni, heldur einnig á sparnað einstaklingsins, og framar öllu á dómsöryggið í landinu.

Auk þess hefi jeg minst á, að kostnaður við miðdómstigið þyrfti ekki að vera mikill. Jeg get í því efni bent á leið, sem próf. Lárus H. Bjarnason hefir bent á áður, sem er í því fólgin, að hafa miðdómstigið í sambandi við bæjarfógetaembættið í Reykjavík. Þetta er leið, sem er vel fær, og ódýr um leið, og á þennan hátt álít jeg dómaskipun landsins vel borgið.

Það kann nú að vera, að ekki sje rjett af meiri hl. allshn. að mæla með frv. nú, þar sem hann leggur áherslu á þetta, að miðdómstigi verði komið á samfara fækkun dómenda í hæstarjetti. En nefndin telur víst, að þessu verði vel tekið bæði af hæstv. stjórn og hv. deild. Og eins og jeg hefi sýnt fram á, mundi lítinn kostnað af þeirri breytingu leiða, og sje jeg því ekki neitt til fyrirstöðu, að miðdómstigi verði komið á þegar á næsta ári. En ef hæstv. stjórn sjer sjer ekki fært að koma upp miðdómstigi á næsta ári, eða koma fram með frv. um það, mun jeg greiða brtt. hv. 4. þm. Reykv. (MJ) atkv. En jeg vona, að stjórnin sjái sjer þetta fært, að samfara fækkun dómenda í hæstarjetti verði komið á miðdómstigi. Hæstirjettur á að vera þrautalending, en ekki næsta trappa upp af hjeraðsdómunum. Jeg vona því, að deildin fallist á þær röksemdir, er jeg hefi fært fyrir þessu máli. Jeg álít, að ekki megi líta á þetta sem sparnaðarmál eingöngu. Rjettindi og eignir manna og jafnvel líf er í veði, ef dómsvaldið er ekki í góðu lagi. Og því er alls ekki sæmilegt að rýra það án þess að nokkuð komi í staðinn, hvorki gagnvart sjálfum oss nje öðrum þjóðum. Jeg vona því, að málið gangi fram eins og allshn. leggur til og að hæstv. stjórn sjái sjer fært að vinna að framkvæmd þess í samræmi við álit nefndarinnar.