25.04.1924
Neðri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2006 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

29. mál, hæstiréttur

Ágúst Flygenring:

Þetta frv. er komið fram af sparnaðarástæðum Það hefir verið tekið fram af þeim 2 hv. þm., sem talað hafa, að það sje eingöngu komið fram til sparnaðar, og ennfremur er það sagt berum orðum í nál. En þar er einnig tekið fram, að þetta sje síst til frambúðar, og er það undirstrikað.

Nú eru 5 dómendur í hæstarjetti. En ef vjer tökum tvo þeirra og setjum í sjerstakan yfirrjett, geta þá þessar 2 stofnanir orðið ódýrari en hæstirjettur er nú? Hinsvegar eru skoðanir manna mjög skiftar um það, hvort öryggi manna aukist nokkuð, þó að dóminum verði skift þannig, og hygg jeg, að það muni síst verða. Þegar ágreiningur verður í hæstarjetti um eitthvert mál, fer atkvæðagreiðsla fram eins og væri í tveim rjettum. En þá er ekki meiri trygging í því, að 2 menn greiði atkvæði í einum rjetti og 3 menn í æðri dómi heldur en 5 menn greiði atkvæði á þennan hátt í sama dóminum, heldur er tryggingin óneitanlega minni.

Sparnaður yrði enginn að þessu fyrir ríkissjóð, ef dómendum væri fækkað í hæstarjetti, en miðdómstig tekið upp, en máske nokkur fyrir suma þá, sem eiga í málaferlum. En þá er spurning, hve margir muni sætta sig við úrskurð miðdómsins, og fyrir þá, er vilja fá hæstarjettardóm á málum sínum, yrði þetta fyrirkomulag miklu dýrara. Það virðist því ekki vera sparnaður að því á neinn hátt að breyta hæstarjetti og stofna þriðja dómstigið. Nú virðist meiri hluta hv. allshn. ófært að ganga að frv. skilyrðislaust, þar sem öryggi vantar til móts við það, að dómurinn er skertur að 2 mönnum, og telur hann sennilega dóminn þá vera skertan að 2/5 í öllum efnum. Þessir 2/5 verða þá að koma fram einhversstaðar annarsstaðar, og af því leiðir sú uppástunga þeirra um miðdómstig, sem maður gæti kallað yfirrjett.

Það hefir verið sagt, að tegundir mála sjeu ekki jafnmargar meðal vor sem hjá öðrum þjóðum, en jeg hygg, að málin sjeu alt að því jafnmargvísleg og það fari altaf vaxandi fjöldi þeirra tegunda. Það má ekki taka nágrannalöndin til samanburðar í þessu efni og dómarafjölda þeirra, sem eiga á hverjum fingri sjerfræðinga í ýmsum greinum lögfræðinnar. Svo er ekki hjer á landi; vjer höfum menn með almennri þekkingu í lögfræði, en enga sjerfræðinga. Það virðist því óvarlegt að veikja þann dómstólinn, sem hefir æðsta úrskurðarvaldið, og ef sparnaður er enginn að því, þegar málið er krufið til mergjar, sje jeg enga ástæðu til, að það nái að ganga fram. Eins og nú stendur á hjer á landi, er nauðalítil vernd á lögreglusvæðinu. Og ef nú á að gera að engu, eða að minsta kosti veikja mjög, verndina á dómstólasvæðinu, hygg jeg, að muni fara um marga. Dómstólar vorir munu hafa getið sjer gott álit, og ætti því ekki að gera neinar breytingar á þeim, nema trygt sje jafnmikið öryggi sem verið hefir. Það tjáir ekki að hafa sparnaðinn einn fyrir augum, því að það gæti verið feikilegur ósparnaður að því að veikja dómstólana um of, eins og hv. frsm. tók fram. Skil jeg ekki, að menn skuli vera að gera sjer leik að því að breyta í þá átt, enda mun jeg greiða atkvæði á móti þessu frumvarpi.