25.04.1924
Neðri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2013 í B-deild Alþingistíðinda. (1456)

29. mál, hæstiréttur

Atvinnumálaráðherra (MG):

Þótt þetta mál snerti mig ekki beint, þá vildi jeg þó gera litla aths. við það. Jeg vil þá fyrst vekja athygli hv. deildarmanna á því, að það vantar alveg skýringuna á því, hvernig þessu miðstigi eigi að vera varið. Meðan svo er á jeg að minsta kosti ekki hægt með að taka ákveðna afstöðu til þess. Það hefir verið sagt, að bæjarfógetinn í Reykjavík eigi að eiga þar sæti. En jeg veit ekki betur en að hann hafi ærinn starfa á sinni könnu fyrir. Hann verður að kveða upp 600–700 dóma á ári, og er það geysimikið starf. Að minsta kosti er það víst, að hann gæti ekki átt sæti í þessum miðdómstóli, nema bætt væri við hann starfskröftum í staðinn. Annars er ekki gott að komast að neinni fastri niðurstöðu í þessu meðan þetta svífur þannig alt í lausu lofti. Furða jeg mig á því, að hv. frsm. (JK) skuli halda, að hægt sje að láta þetta frv. ganga í gildi áður en miðdómstigið er á komið. Því í 10. gr. stendur, að lögin skuli koma til framkvæmda strax og dómarasæti losni, en þá gæti vel svo farið, að setja yrði upp miðdómstólinn með bráðabirgðalögum, eða þá að skjóta framkvæmd laganna á frest um óákveðinn tíma. Jeg vil þá heldur, að frv. sje felt en slíkt komi til. — Að því er snertir kostnaðinn við málaflutninginn, þá lít jeg svo á, að þessi miðdómstóll verði ekki til að draga úr honum, því það hefir jafnan reynst svo, að þegar um kappsmál er að ræða, þá una menn ekki öðru en að æðsti dómstóllinn skeri úr. Þýðir ekkert þó málaflutningsmennirnir dragi úr því og sýni mönnum fram á, að það sje þýðingarlaust; menn vilja samt sem áður ekki gefast upp fyr en í fulla hnefa.

Að því er snertir það, að málaflutningurinn verði skriflegur, þá mun það sáralítið draga úr kostnaðinum. Málaflutningsmönnum mun, sjálfsagt verða borgað það sama og áður fyrir því. Auk þess eru það sjerstakar ástæður, sem valda því, að þessi málaflutningur er svo dýr nú, en þær ástæður munu innan skamms hverfa úr sögunni.

Jeg sje, að hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) á hjer brtt. Jeg hefi að vísu ekkert sjerlegt að athuga við hana, en vil þó skjóta því til hans, hvort hann geri samþykt hennar að svo miklu kappsmáli, að hann fallist ekki á frv., þótt hún nái ekki fram að ganga. Jeg spyr um þetta af því, að tíminn er nú orðinn svo naumur, að frv. myndi tæplega ganga í gegn, ef breytingar yrðu á því gerðar.

Mjer skildist á hv. þm. V.-Sk. (JK), að hann væri á móti munnlegri málafærslu við hæstarjett. Jeg tel hana aftur á móti sjálfsagða við alla æðri dómstóla. Yfirleitt verður málafærslan ljósari með því móti.

Að því er snertir tölu dómaranna í hæstarjetti, þá skal jeg taka það fram, að jeg hefði helst viljað haga þessu á nokkuð annan hátt en hjer er um að ræða, en annars get jeg vel felt mig við, að dómararnir sjeu ekki nema 3. Held jeg, að sú tala sje alls ekki ósennileg, borin saman við málafjöldann. Að vísu er það svo, að augu sjá betur en auga. En þess ber að gæta í samanburðinum við erlenda dómstóla, að þótt dómarar sjeu þar miklu fleiri, þá koma þeir ekki nærri allir til greina í hverju máli. Þar sem málafjöldinn er svo mikill, hafa þeir ekki tíma til að ganga allir í gegnum öll málin, og skifta þeim því á milli sín. Hjer er þetta á hinn veginn. Jeg hefi heyrt hæstarjettardómara erlendis segja, að hann hafi ekki vitað neitt í sumum málum er hann kom í rjettinn. Dómur hans varð því einungis að byggjast á því, sem hann heyrði af vörum málaflutningsmannanna. Eins og menn vita, er þessu alt öðruvísi varið hjer.

Að lokum skal jeg taka það fram, að jeg tel það illa farið, ef tekið verður að grauta í málinu hjer, eftir að það hefir nú verið samþykt í hv. Ed. Það yrði væntanlega til að hefta för þess gegnum þingið, og væri því æskilegt, að það yrði samþykt eins og það liggur fyrir.