25.04.1924
Neðri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2035 í B-deild Alþingistíðinda. (1464)

29. mál, hæstiréttur

Jón Baldvinsson:

Jeg vil taka undir það með hv. 2. þm. Rang., að hæstirjettur hafi fullsnemma verið fluttur inn í landið. Jeg tel engan vafa á því, að sjálfstæði landsins hefði eins vel verið borgið, þótt fyrst um sinn hefði verið látið standa eins og áður var, og öryggið fyrir góðri úrlausn málanna engu minna.

Fyrirvari minn eða aths., sem jeg vildi leyfa mjer að gera við nál., er fyrst og fremst sú, að jeg er alls ekki viss um, að það, sem sumir telja aðalbreytinguna, að fækka dómurum í hæstarjetti niður í 3, sje vel til fundið. Og komi nú brtt. fram við frv., sem gengi út á það að hækka tölu þeirra aftur upp í 5, þá myndi jeg hiklaust greiða atkvæði með því. Jeg held það sje varla gerlegt að fækka dómurum við hæstarjett eingöngu af sparnaðarástæðum, ef við það væri hnekt öryggi og áliti hans. Og fylgi mitt við frv. er því alls ekki af sparnaðarástæðum.

Aftur á móti tel jeg sumar aðrar gr. frv. vera til bóta. Svo er t. d. um 5. og 6. gr. frv., og einnig 1. gr. að nokkru. En því er jeg algerlega ósamþykkur, að miðdómstigið, sem gert er ráð fyrir að sett verði síðar, nái aðeins til mála utan af landi, en það verður maður að álíta að sje ætlunin, þar sem það virðist bundið við bæjarfógetann í Reykjavík. Jeg get ómögulega komið auga á það, hvað við þetta vinst. Eins og áður hefir verið upplýst, má telja, að bæjarfógetinn hjer sje svo miklum störfum hlaðinn, að óhjákvæmilegt yrði að leggja fje fram til að vinna þau verk, sem hann feldi niður við þetta. Getur líka oft verið svo, að engu síður sje ástæða að skjóta málum úr þessu hjeraði undir miðdóminn, þó gera megi ráð fyrir, að bæjarfógetaembættið sje oftast skipað góðum lögfræðingi. Þetta dómstig verður því að vera fullkominn og óháður rjettur, en þó hæstv. stjórn lýsi því yfir, að hún muni ekki flytja frv. um það á næsta þingi, þá er ekkert því til fyrirstöðu, að þm. sjálfir geri það, ef Alþingi vill fallast á það. Í einu orði sagt: Jeg mun greiða frv. atkv. mitt, en teldi þó til bóta, ef tala dómaranna væri færð upp í 5. Eins hefði jeg mikla tilhneigingu til að koma með brtt. við sum önnur ákvæði hæstarjettarlaganna. Vil jeg sjerstaklega í því sambandi nefna 13. gr., sem gerir I. einkunn að skilyrði fyrir því, að menn megi flytja mál í hæstarjetti. Við höfum mörg dæmi fyrir okkur um það, að lögfræðingar með II. einkunn eru alveg eins góðir eða betri lagamenn og málaflutningsmenn en hinir, sem I. einkunn hafa hrept, og það er fylsta ranglæti í því, að gera með þessu ágæta lögfræðinga að undirtyllum hjá ljelegum lögfræðingum. Enda hefir þetta verið viðurkent með breytingu þeirri, sem í frv. felst, að hæstarjettarritari þurfi ekki að hafa I. einkunn. Tel jeg sjálfsagt, að þessu verði breytt, og má vel vera, að jeg komi með brtt. í þá átt við 3. umr. Mun jeg fyrst reyna fyrir mjer um undirtektirnar.

Jeg þykist þá ekki þurfa að gera frekari grein fyrir sjerstöðu minni í málinu. Vil jeg aðeins að lokum undirstrika það, sem jeg hefi áður látið í ljós, að jeg er því algerlega mótfallinn, að væntanlegt miðstig sje á nokkurn hátt bundið við bæjarfógetaembættið, eins og virðist vaka fyrir sumum hv. þm., því jeg álít, að málum úr þessu hjeraði þurfi oft alveg eins að skjóta til hans eins og málum úr öðrum hjeruðum landsins.