26.04.1924
Neðri deild: 56. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2043 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

29. mál, hæstiréttur

Jakob Möller:

Það er náttúrlega sæmandi að skera niður umræður um slíkt mál sem þetta, beita meirihlutavaldi til þess að hefta málfrelsi manna um það, hvort fara eigi öfuga leið með æðsta dómstól landsins! Í stað þess að efla hann, eða a. m. k. að hlúa að honum, að rýra hann, svo virðing manna fyrir honum hljóti að minka. Þó er auðsætt, að þeir, sem lögðu það til, að umr. um málið yrði slitið, hafa fundið til þess, að þessar aðfarir væru ekki allskostar sæmilegar, úr því þeir vildu þó ekki láta meina þeim orðið, sem þegar höfðu kvatt sjer hljóðs. Í þessu gægist fram hin vonda samviska, á líkan hátt og í áliti nefndarinnar, sem um málið fjallaði, sem eftir undarlegum krókaleiðum kemst að þeirri niðurstöðu, að „samkvæmt framanskrifuðu“ verði hún að leggja það til, að frv. verði samþykt óbreytt. Það hefir verið minst á nál. áður, og jeg sje ekki ástæðu til þess að fara um það mörgum orðum. Það er furðumargt rjett í því, en niðurstaðan er alveg þveröfug við það, sem forsendurnar benda til. Jeg hefi að öðru leyti ekki annað um nefndarálitið að segja en að skýrari spegilmynd kúgaðrar flokkssálar get jeg ekki hugsað mjer.

Þetta frv. er borið fram af aðalforingja Íhaldsflokksins, stjórnarflokksins hjer í þinginu, hæstv. forsætisráðherra, í sparnaðarskyni. En þessi forsætisráðherra er jafnframt dómsmálaráðherra. En mundi það ekki vera einsdæmi um víða veröld, að dómsmálaráðherra beri fram frv., sem rýrir æðsta dómstól landsins, og þar með rjettaröryggið í landinu! En þetta telur hæstv. forsrh. (JM), dómsmálaráðherrann, sjer ekki aðeins sæmandi, heldur blátt áfram skylt, og þó lýsir hann jafnframt yfir því, að þessi breyting, sem í frv. felst, veiki rjettaröryggið í landinu. Jeg hefi ekki heyrt nokkur dæmi þess, að nokkur ráðherra ljeti sjer sæma, hvað þá teldi sjer skylt, að bera fram frv. með slíkum forsendum.

Það hefir glatt mig undir þessum kringumstæðum að heyra þó einstöku raddir úr stjórnarflokknum andmæla þessu frv. Og raunar skín það í gegn í nál., að nefndarmenn hafa gert það nauðugir að skrifa undir það. En því merkilegra er það, ef frv. á að ganga í gegn, eins og því miður allar líkur eru til. Og hvað veldur! Jú, einhver sagði við fyrri hluta þessarar umræðu, að líklega yrði þetta eina sparnaðarmálið, sem þingið að þessu sinni bæri gæfu til að koma í gegn. Og þar sem svo er nú komið, eftir alt sparnaðarfleiprið, þá er mönnum öll vorkunn, þótt þeim þyki sárt að sleppa þessari síðustu von. Hjer er nú samt útbýtt öðru nál. um frv., sem fer í sparnaðaráttina, en þó undarlegt sje, þá er meiri hluti nefndarinnar mótfallinn því frv.

Mjer datt í hug, þegar frv. um hæstarjett kom fram: Er þeim þá ekkert heilagt! Er þá ekkert til, sem þeir dirfast ekki að snerta! Að minsta kosti er hæstirjettur ekki svo heilagur. Það getur verið eitthvað annað, sem kemur þá væntanlega fram síðar. En hvað ætti að vera heilagt í augum þingsins, ef ekki hæstirjettur! Rjettarfarsöryggið í landinu er hyrningarsteinn sjálfstæðisins og þjóðskipulagsins yfir höfuð. Ef traustið á æðsta dómstólnum fer forgörðum, þá er greidd gata byltingar og algerðs stjórnleysis. Ef virðing innlendra og erlendra manna fyrir rjettarfarinu í landinu hverfur, þá er ekki hægt að búast við því, að þjóðin haldi sjálfstæði sínu; því rjettarfarið hjer snertir ekki aðeins innlenda menn, heldur og allar erlendar þjóðir, sem hjer eiga viðskifti. Það er því ekki verið að spara hjer á því, sem okkur einum viðkemur, heldur ekkert síður öðrum þjóðum.

Þegar sjálfstæði vort var viðurkent, var það gert í því trausti, að þjóðin væri fær um það að halda sjálf uppi rjetti í landinu. Ef það kemur í ljós, að hana brestur þroska til þess — ef það verður bert, að hún sjer ekki, hvaða þýðingu það hefir að tryggja sem best rjettaröryggi í landinu, þá hefir hún mist sjálfstæðisrjett sinn. Að þessu er stefnt með frv., sem sjálfur dómsmálaráðherrann ber fram.

Jeg veit ekki, hvað mikið á að leggja upp úr öðru eins og þessu. Jeg hefi orðið þess var, að sumir stuðningsmenn hæstv. stjórnar fella sig illa við þetta frv. En hve illa? Þeir geta hindrað framgang þessa máls. Ábyrgðin hvílir á þeim, ef þeir gera það ekki. Á þeim hlýtur ábyrgðin að skella, sem sjá, hvert stefnir, en reyna ekki að bjarga við, ef málið nær fram að ganga.

Nú verður því ef til vill haldið fram af einhverjum öðrum en hæstv. forsrh., að rjettaröryggið sje ekki skert með fækkun dómenda í hæstarjetti. Dómurinn standi jafnrjettur eftir sem áður. En það verður að reyna að ganga svo frá þessu máli, að allir sjái, að svo er ekki. Hjer hefir heyrst, að hæstirjettur hafi ekki fleiri dóma að dæma en þrem mönnum geti vel unnist tími til að ganga frá. Það er eins og menn sjái ekkert annað í þessu efni en það, hvað dómarnir eru margir. En þetta er aukaatriði. Það er ekkert aðalatriði, hvort dómurinn er afkastamikill, hvort hann dæmir marga eða fáa dóma. Aðalatriðið er það, að hann dæmi rjett, þegar mönnum er fjölgað í dóminum, þá er verið að auka hann að mannviti, þekkingu og dómarahæfileikum. Þegar fækkað er, eru þessir eiginleikar dómsins skertir. Því fleiri sem dómararnir eru, því meiri trygging er fyrir því, að rjetturinn sje fær um það að leggja rjettan úrskurð á hvert mál. Það er vitanlegt, að hjer var, áður en hæstirjettur var stofnaður, yfirrjettur, er skipaður var 3 mönnum. En þá var dómstig fyrir ofan hann, sem var hæstirjettur Dana. En það þótti ekki samrýmanlegt sjálfstæðinu að hafa hæstarjett í öðru landi. En er gera átti yfirrjettinn að hæstarjetti, þótti það sjálfsögð nauðsyn að bæta í hann 2 dómendum, og það var áreiðanlega það minsta, sem hægt var að komast af með.

Því er ekki að leyna, að mjög mörgum var um og ó að leggja niður æðsta dómstól landsins, sem verið hafði mjög lengi. Hitt er öllum ánægjuefni, hve vel hæstirjettur okkar hefir reynst. Hann hefir og verið skipaður ágætum mönnum, og jeg hefi ekki orðið þess var, að nokkur málsúrskurður, sem hann hefir felt, hafi verið í ósamræmi við rjettarmeðvitund almennings.

En sú breyting, sem nú er farið fram á að gerð sje á rjettinum, er í raun og veru sú, að gera hann aftur að yfirrjetti; gera hann aftur að sama dómstólnum, sem áður var undirdómstóll, en kalla hann hæstarjett. Einn hv. þm. sagði við þessa umræðu, að hann væri óhræddur við að eiga sitt mál undir þremur samvöldum, góðum dómurum. Undir þetta geta víst allir skrifað. En skipi nú aðeins 3 menn dóminn, þá er vitanlega engin trygging fyrir því, að í dóminum verði altaf þrír „samvaldir og góðir dómarar“, að enginn þeirra verði miður hæfur. Hver ber svo ótakmarkað traust til allra komandi stjórna, að hann þori að treysta því, að aldrei geti mistekist valið á einum og einum hæstarjettardómara! En það þarf auk heldur raunar ekki til, að valið mistakist nokkru sinni.

Fleira þarf að athuga í sambandi við þetta. Meðal annars það, að tryggingin fyrir rjettum dómum verður ávalt meiri, ef fleiri eru dómarar í rjettinum, aðeins fyrir það, að sjóndeildarhringurinn verður þá víðari; einn kann að sjá það, sem annar sjer ekki, þó að allir sjeu í rauninni jafn„góðir og samvaldir“. Hjer munu oft verða skipaðir í dóminn menn, sem í rauninni eru kannske lærðir og skarpir lögfræðingar, en óvanir dómarar. Það eitt gerir nauðsynlegt, að mennirnir sjeu fleiri. Þá er eitt atriði, sem ber að athuga. Dómararnir verða oft að víkja úr rjettinum. Hefir það komið fyrir, að reglulegir dómarar hafa verið þar í minni hluta. Ef dómararnir væru aðeins þrír, gæti það átt sjer stað, að enginn þeirra ætti sæti í rjettinum, þegar dæma skyldi vandasöm og áríðandi mál. Þau mál yrðu þá ef til vill dæmd af eingöngu óvönum dómurum.

Hæstv. dómsmálaráðherra (JM) hefir sagt, að betra væri að hafa 5 dómara en 3, en það væri líka betra að hafa 7 en 5. Þótt æskilegt væri auðvitað að hafa 7, þá er hjer ekki um það að ræða. Það er enginn að fara fram á fjölgun dómendanna, og er því óþarfi fyrir hæstv. dómsmálaráðherra að vera að berjast á móti slíkri kröfu. Hjer fer enginn lengra í kröfunum en að það skipulag dómsins, sem nú er í gildi, mætti vera í friði fyrir áreitni hæstv. dómsmálaráðherra.

Jeg þykist vita, að sumir hv. þm. muni ætla að greiða þessu frv. atkvæði með það fyrir augum, að miðdómur verði settur á stofn, á næsta þingi jafnvel. En hvaða ástæðu hafa hv. þm. til að ætla, að svo verði, þegar stjórnin hefir skýrt og skorinort lýst því yfir, að hún muni alls ekki leggja neitt slíkt frv. fyrir næsta þing eða í náinni framtíð! Og hvaða tryggingu hafa hv. þm. fyrir því, að samþykt yrði slíkt frv. á næsta þingi, þó að það kæmi fram! Og hvaða trygging væri líka fyrir því, að næstnæsta þing legði þá ekki þetta nýstofnaða miðdómstig niður af sparnaðarástæðum, þó að næsta þing stofnaði það nú! Við skulum reyna að halda því, sem við höfum, en ekki vera að bollaleggja um endurbætur í þessu efni. Öllum má vera það ljóst, að slíkt er tilgangslaust, þegar annað eins frv. og þetta er borið fram af sparnaðarástæðum, og það af sjálfum dómsmálaráðherra landsins, sem þó játar, að það rýri rjettaröryggið með þjóðinni.

Því er borið við, að þjóðin krefjist sparnaðar. En jeg neita því, að þetta frv. sje fram borið til að spara. Það er fram borið til að sýnast spara, Það er enginn spámaður að þessari dómendafækkun í hæstarjetti í samanburði við eyðsluna á öðrum sviðum. Frv. er fram borið til að geta veifað því framan í kjósendur, til þess að þeim glepjist svo sýn, að þeir sjái ekki alla ósamkvæmnina, alt hringlið og öll glappaskotin. Þjóðin heimtar engan skollaleik. Og hún krefst þess síst af öllu, að fjöregg hennar sje haft að leiksoppi í loddaraleik hv. þm.

Ef dómsmálaráðherra hefði sagt hreint og beint: Ja, jeg flyt þetta frv. af því að jeg er í standandi vandræðum. Þjóðin heimtar sparnað, en jeg sje ekki neina skynsamlega leið. — En hvað sparast! Ein 20 þúsund, 21 þúsund í hæsta lagi. Og eru þm. þau börn, að þeir telji sjer trú um það, að fyrir þá upphæð vilji þjóðin rýra rjettaröryggið í landinu! Og hverjir hafa þá, ef um slíka þjóðarkröfu er að ræða, blásið þjóðinni slíkri vitfirringu í brjóst! Hv. þm. sjálfir, og engir aðrir. Það er þá þeirra skylda að koma vitinu fyrir þjóðina aftur, ef þeim í raun og vera hefir tekist að glepja henni sýn í þessu máli. Og jeg býst við því, að enginn vilji í alvöru neita því, að nokkurnveginn standi á sama, hvort 20 þúsundum meira eða minna er eytt í hæstarjett, aðeins ef rjettarörygginu er þá betur borgið, eins og hæstv. dómsmálaráðherra telur að væri.

Yfirrjetturinn kostaði um eitt skeið miklu meira að tiltölu en hæstirjettur nú. Um það talaði enginn; datt engum í hug að tala um það. Og óneitanlega var þó þá ríkjandi sannari og heilbrigðari sparnaðarandi en nú.

Ef það er virkilega álit þm., að nauður reki til að spara 20 þúsund krónur, þá er áreiðanlega hægt að láta þann sparnað koma niður á öðru heppilegra en hæstarjetti. Mætti t. d. sameina landsverslun og áfengisverslun, og spara með því þessa upphæð margfalda. En það má ekki nefna. Það er helgur dómur. En umfram alt að rýra hæstarjett og háskólann og gera þær stofnanir óstarfhæfar.

En hv. deildarmenn eru ekki að hugsa um að spara, heldur að sýnast, alt frá forsætisráðherra (JM) og niður að hinni lítilsigldustu sparnaðarsál deildarinnar. Það verður að segjast og verður að skiljast.