26.04.1924
Neðri deild: 56. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2051 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

29. mál, hæstiréttur

Frsm. (Jón Kjartansson):

Jeg vil nú gera það mönnum til þægðar að lýsa að nokkru afstöðu nefndarinnar í þessu máli. Leit hún svo á, að fært væri að fækka dómendum, ef miðdómur yrði þá settur á stofn. Sjerstaklega er það mín persónulega skoðun, að án þess að miðdómur verði settur á stofn sje illfært að fækka dómendum. Tel jeg rjettarörygginu enn betur borgið en nú, ef dómstigin yrðu þrjú, jafnvel þó að aðeins væru 3 dómarar í hæstarjetti. Var það misskilningur hjá hv. 2. þm. Rang. (KlJ), að nefndin ætlist til, að prófessorar háskólans, þ. e. lögfræðideildarinnar, skipi miðdóminn. En dómurinn gæti verið til mikilla bóta, þó að aðeins sæti í honum einn maður. Ef bornir eru saman hinir ýmsu dómar, sem koma fyrir hæstarjett, mun það koma í ljós, að dómar bæjarfógetans hjer bera langt af dómum hinna ýmsu sýslumanna utan af landi. Þó að aðeins einn slíkur maður sæti í miðdóminum, væri það því stór bót. Er það alls ekki rjett, að sparnaður verði ekki að þessari breytingu, að minsta kosti fyrir almenning. Því að þótt ekki sje hægt að banna mönnum að fara með mál sín fyrir hæstarjett, mundu þó margir láta sjer nægja miðdóminn og una úrslitum þeim, sem málin fengju þar. Nefndin vildi ekki bera fram brtt. við frv., þar sem hún taldi þá hætt við, að alt kynni að fara út um þúfur. Enda bjuggumst við fastlega við því, að málið mundi á þessum grundvelli fá góðar undirtektir.

Um innra skipulag dómsins tel jeg litlu skifta. Vil jeg aðeins geta þess, að jeg tel óheppilegt að gera að skyldu, að birt verði ágreiningsatkvæði. Mundi það aðeins verða til þess, að rjetturinn mundi verða fyrir óþörfu aðkasti almennings, sem ekki ber skyn á alla aðstöðu í vandasömum málum.

Jeg vil sjerstaklega kröftuglega mótmæla þeirri aðdróttun hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að hjer sje um nokkra flokksþvingun að ræða. Málið hefir ekki einu sinni verið rætt á flokksfundi í Íhaldsflokknum.

Annars hefi jeg ekki svo mjög að athuga við ræðu hv. þm. Þar var margt rjettilega fram tekið.

Vil jeg enn taka það fram, að þessum málum er svo best komið, að dómstigin sjeu þrjú, og að því á að stefna.

Um brtt. greiða nefndarmenn atkvæði eins og þeim þóknast, þar sem nefndin sem heild hefir ekki tekið til þeirra afstöðu, og hefir því óbundnar hendur.