26.04.1924
Neðri deild: 56. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2052 í B-deild Alþingistíðinda. (1479)

29. mál, hæstiréttur

Magnús Torfason:

Jeg játa það fúslega, að rjettaröryggið í landinu er skert að mun með þeim ákvæðum um fækkun dómara, sem þetta frv. fer fram á. Það, sem um er deilt, er því rjettaröryggið annarsvegar og sparnaðurinn hinsvegar. Verða því afdrif frv. undir því komin, hvort menn vilja fórna rjettarörygginu fyrir peninga. Hve mikils virði það er, verður auðvitað álitamál. Það fer eftir því, hve mönnum er ant um aurana og hve þeir leggja mikið upp úr rjettarörygginu.

Í haust þegar kosningar fóru fram, kom fram ákveðin krafa af hálfu kjósenda um það, að sparað skyldi á alla lund. Ennfremur virtist mjer í byrjun þessa þings, að almennur áhugi væri fyrir því meðal þm., að þingið gerði tilraunir til sparnaðar þar, sem því yrði við komið. Jeg áleit þess vegna, að þetta frv. væri einn liðurinn í hinni almennu sparnaðarviðleitni þingsins. En nú hefir þetta farið svo, að næsta lítið hefir orðið úr sparnaðartilraunum þingsins. Jeg verð því að segja, að mjer finst það harla óviðkunnanlegt, ef hin eina verulega sparnaðartilraun þingsins, sem samþykt yrði, væri það, að dregið skuli úr hæstarjetti og hann rýrður til muna. Samt sem áður mundi jeg telja mjer skylt að fylgja í þessu máli yfirlýstum vilja kjósenda minna, ef um virkilegan sparnað væri að ræða. Þessar raddir um sparnað við hæstarjett ríkisins eru vitanlega komnar fram sem kröfur frá þjóðinni um sparnað á neyðartímum, og er þá vitanlegt til þess er ætlast, að þessi sparnaður komi straks til framkvæmda. En það er nú ekki því að gegna um þetta frv.

Eins og það er lagt fram, get jeg ekki af orðalagi þess sjeð, að af því leiði nokkum sparnað um ófyrirsjáanlegan tíma. Það eru ákvæði í þessu frv. um frestun á framkvæmd laganna, ef það verður samþykt. Kemur það skýrt fram í 10. gr. frv. Þar stendur, að lög þessi skuli ekki koma til framkvæmda fyr en „fast sæti í hæstarjetti losnar næst“. Þetta þýðir, að þessi lög munu ekki koma til framkvæmda fyr en einhver dómaranna í hæstarjetti biður um lausn frá embætti eða deyr. Verður það ekki skilið á annan veg, enda hefir það og komið fram í ýmsum öðrum þingfrv., að það mun ætíð vera tilgangurinn að lofa mönnum að „rorra“ í embætti meðan þeir sjálfir vilja, þegar svo er tekið til orða, og ákvæði 10. gr. eru nákvæmlega orðuð eins og venja er til um samskonar ákvæði í svipuðum lögum. Jeg fæ því ekki betur sjeð en stjórnin hafi hreint og beint gengist undir að leysa engan dómara úr embætti, ef þessi lög verða samþykt. Afleiðingin af þessu verður, eftir því sem jeg frekast veit, að hæstarjettardómararnir munu stritast við að sitja sem allra lengst í embættunum, í von um betri tíma. Allir vita sem sje, að þetta frv. er borið fram þvert á móti yfirlýstum vilja hæstarjettardómaranna, en þegar þessir betri tímar eru komnir og meira fje er handbært í ríkissjóðnum, mun þingið verða tilleiðanlegra til þess að nema þessi lög úr gildi, ef þau hafa hvort sem er aldrei komist til framkvæmda. Jeg er sem sje ekki í neinum vafa um það, að ef batnar í ári og alt kemst í blóma aftur, munu nýir þingherrar óðar afnema þessi lög aftur. Sparnaðurinn er því allur í orði, en enginn á borði. Þetta er aðeins gert til þess að sýnast. Þetta eru „egg til sýnis.“ Jeg fyrir mitt leyti vil alls ekki eiga þátt í neinu slíku. Jeg lít svo á, að ekki sje tilhlýðilegt að leika þannig með hæstarjett, sem, eins og menn vita, var notaður til að „dubba“ upp á fengið sjálfstæði, með því að bæta 2 mönnum við í yfirrjettinn. Þetta vil jeg ekki láta taka aftur, nema það þá sje gert í fullri alvöru, og það verður ekki gert á annar hátt en þann, sem jeg hefi lagt til, með því að breyta 10. gr. þessa frv. Þá sjest það best, að þessi sparnaður er ekki aðeins í orði; hann er þá líka á borði.

Hin brtt. er samskonar og brtt. á þskj. 456, að það er gengið út frá því, að dómstjóri rjettarins verði ekki kosinn, heldur skipaður. Jeg hefi mikið undrast það, að annað eins og það, að láta kjósa dómstjórann, skuli hafa komið hjer fram, þar sem það er alkunna, að 4 dómarar í rjettinum hafa mælt á móti því, að þessi breyting skuli gerð. Mjer sýnist eins og hjer sje hreint og beint verið að leika sjer að því að lítilsvirða og særa hæstarjett með þessari tillögu, sem enginn sparnaður felst í. Í þessu kemur fram hrein og bein lítilsvirðing á rjettinum, algerlega að raunalausu og þarflausu. Þetta vil jeg alls ekki gera, og því flyt jeg þessa brtt.

Jeg skal svo enda þetta mál mitt með því, að ef um raunverulegan sparnað væri að ræða og ef þessi brtt. mín verður samþykt, mun jeg veita þessu frv. mitt atfylgi; og jeg get gert þetta með góðri sannvisku, vegna þess að útgjöldin til annara dómstóla hafa verið skert að mun í fjárlögunum, án þess að sjerstaklega hafi um það verið kvartað. Skrifstofukostnaður hjeraðsdómara hefir verið færður niður um 1/8 hluta, þrátt fyrir að dýrtíðin hefir aukist í sama hlutfalli, og er því þessi skerðing á skrifstofukostnaðinum ekki minni en ¼ hluti. Afleiðingin af þessu er vitanlega sú, að bæði jeg og aðrir hjeraðsdómarar og sýslumenn verðum að borga meira fyrir skrifstofur okkar en við fáum til þess úr ríkissjóði. Við verðum að leggja fram fje úr eigin vasa. Jeg endurtek það svo, að með pappírssparnaði, sem sennilegast er um, að komist aldrei á, vil jeg alls ekki vera og vil fyrir engan mun leggja þar nafn mitt við.