26.04.1924
Neðri deild: 56. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2056 í B-deild Alþingistíðinda. (1481)

29. mál, hæstiréttur

Forsætisráðherra (JM):

Þar sem brtt. hafa verið teknar aftur, sje jeg ekki ástæðu til að lengja fundinn með því að tala um þær. En jeg verð með fáum orðum að svara hv. 3. þm. Reykv. (JakM), og get jeg þó að mestu leyti vísað til þess, sem jeg hefi áður sagt. Hv. þm. viðhafði stór orð í ræðu sinni. Slíkt hefir heyrst hjer oft áður í öðrum sal hjer í þinginu. Hann sagði það satt, að jeg viðurkenni, að dómar eru betur trygðir með 5 manna dómi en þriggja. Það má vel segja, að öryggi dómanna er betur trygt með fleiri mönnum, og hefir háttv. þm. rjettilega bent á það. En það er álitamál, er hver þingmaður verður að gera upp við sjálfan sig, hvað komast megi af með í þessu atriði. Háttv. þm. talaði um það, að margar stofnanir væru svo heilagar, að jafnvel Alþingi mætti ekki hrófla við þeim, t. d. stjórnarskráin, hæstirjettur etc. Þetta eru bara orð, eintóm orð og hafa heyrst annarsstaðar. Auðvitað hvílir ábyrgðin á þeim, sem frv. samþykkja.

Þá er jeg ekki alveg viss um, að það verði til þess að auka dómarahæfi leikana að hafa fleiri dómara í rjettinum. Eftir því, sem þeir eru fleiri, vinnur hver fyrir sig minna. Það er oftast nær þannig, að ekki brjóta allir dómararnir hvert mál jafnt til mergjar. Sá, sem fyrstur greiðir atkvæði, hefir venjulega mest fyrir, ef ekki er um ágreiningsatkvæði að ræða. Það er eins og hv. þm. sagði, að það getur þráfaldlega komið fyrir, að dómarar verði að víkja sæti, og það margir saman, jafnvel í 5 manna dómi, en þá eru ákvæði um það í hæstarjettarlögunum, að þá komi venjulega lagakennararnir til. Það eru venjulega allgildir lögfræðingar, þó þeir máske sjeu ekki allir þaulreyndir dómarar. En sem sagt, jeg hefi ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál frekar að þessu sinni.