26.04.1924
Neðri deild: 56. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2059 í B-deild Alþingistíðinda. (1483)

29. mál, hæstiréttur

Ágúst Flygenring:

Jeg vildi aðeins taka það fram, út af orðum háttv. 3. þm. Reykv. (JakM), að það er hreinasta hunda-„logik“ að halda því fram eins og hann gerði, að fylgismenn stjórnarinnar beri ábyrgð á öllum gerðum hennar, og það einnig þeim, sem þeir greiða atkv. á móti. Það liggur í hlutarins eðli, að svo getur ekki verið, því enginn getur vitað fyrir, hvað einum ráðherra getur dottið í hug að bera fram. Myndi og enginn heilvita þm. nokkurntíma þora að taka að sjer stuðning stjórnar, ef þessu væri svo varið, sem hv. þm. (JakM) lætur í veðri vaka.