01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2061 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

29. mál, hæstiréttur

Sigurjón Jónsson:

Jeg á brtt. á þskj. 456, ásamt hv. þm. Ak. (BL). En eins og hv. þm. hafa væntanlega sjeð, þá eru þær samhljóða brtt. á þskj. 443, frá hv. 1. þm. Árn. (MT). Hefðum við dregið okkur í hlje, hefði okkur verið kunnugt um, að till. hans væri á leiðinni. Þær eru, eins og jeg hefi þegar minst á, samhljóða nema hvað snertir 3. brtt. á báðum þessum þskj., við 10. gr. laganna 1919. Er mismunurinn slíkur, að verði þessi brtt. hv. 1. þm. Árn. feld, þá getur okkar brtt. við sama lið komist að.

Jeg skal ekki ræða mikið um málið alment, enda hefir þegar verið allmikið um það fjallað hjer í hv. deild. En óhætt mun að segja það, að allir hv. þm. sjeu á sama máli um það, að forðast beri að gera nokkuð í þá átt að rýra hæstarjett, svo rjettaröryggið raskist og dómhæfið skerðist. Spurningin er þá einungis sú, hvort fækkun dómendanna geri þetta að verkum. — Vil jeg benda á það, að verði frv. að lögum, þá er nauðsynlegt, að notuð verði heimildin í 57. gr. í stjórnarskránni, til þess að veita þeim dómendum, sem orðnir eru 65 ára gamlir, lausn frá embætti. Þarf vilji þingsins í þessu efni að koma fram í umræðunum. Það er raunar svo, að slíkt skerðir að nokkru tilganginn með frv., þar sem svo er ákveðið, að dómendur þessir missi ekki neins í af launum sínum. En hitt tel jeg þó mikilsverðara, að þeir sitji ekki eldri en 65 ára í embættum sínum. Hefði jeg verið fús að miða lausnina við 60 ára aldur.

Hvað okkar brtt. viðvíkur, þá skal jeg geta þess, að þær hafa ekki neinn ósparnað í för með sjer, svo þeirra hluta vegna er sama hvort þær verða samþyktar eða frv. Er það fyrst það, að við teljum betur viðeigandi, að forstjóri dómsins sje skipaður, í stað þess að vera kosinn, eins og nú er gert ráð fyrir. Þegar dómstjórinn er kosinn árlega, þá veit almenningur aldrei, hver hann er á hverjum tíma, og miðar þetta til að minka álit rjettarins. En þetta embætti á að vera virðulegasta embætti landsins. Að fara nú að breyta til og kjósa dómsforseta í stað þess að skipa dómstjóra, virðist mjer vera af einhverjum demókratiskum ástæðum, sem eiga hjer illa heima. Jeg get fullyrt, að það eyðileggur ekki þetta frv., þótt brtt. okkar verði samþyktar.