01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2068 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

29. mál, hæstiréttur

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg vildi aðeins rifja það upp, að við 2. umr. var gerður hjer mikill gustur bæði að mjer og öðrum, er við vildum skera umr. niður af því nógur tími væri til að ræða frv. við 3. umr. Þá var mikill gustur að okkur ger, málið sagt svo mikið, að óverjandi væri að ræða það ekki til hlítar, og ennfremur sagðar fram komnar brtt., sem nauðsyn bæri til að tala um.

En þrátt fyrir allan gustinn, varð sú niðurstaðan, að umræður urðu sáralitlar eftir það, að till. okkar var frá vísað og — allar brtt. voru teknar aftur til 3. umræðu.

Jeg þarf ekki nú að verja okkur fyrir þeim gusti, eftir að þetta er komið fram. En sá gustur er gott dæmi þess, hve mikið hefir verið gusað um þetta mál.

Jeg ætla ekki að segja margt um brtt., en það er opinbert leyndarmál, að þær eru allar fram komnar til þess eins að koma málinu fyrir. Það er mín persónulega sannfæring, og staðfestist hún vel með seinustu brtt., og þá sjerstaklega brtt. hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) á þskj. 501, sem leita verður afbrigða um. Hv. þm. hefir fundið það út, að vegna synodalrjettarins megi ekki breyta lögunum. Jeg er nú sannfærður um, að hv. þm. (ÁJ) hefir aldrei heyrt synodalrjettinn nefndan fyr en nú. Það er ósköp eðlilegt, því þeir einir, sem lesið hafa kirkjurjett, og nokkrir duglegir lögfræðingar, kannast við hann; aðrir ekki. Hann dæmdi aðeins 1 mál öldina sem leið. Síðan eru 30–40 ár og á þeim tíma hefir þessi rjettur ekkert mál dæmt. Þetta er úrelt stofnun, sem jeg efa ekki, að hæstv. forsrh. (JM) í samráði við biskup getur sjeð um, að standi ekki þessu máli fyrir þrifum. Þessi till., eins og aðrar, eru því aðeins vottur um tilraunir manna til að koma frv. fyrir kattarnef.

Jeg vil því vara hv. þm. við því að samþykkja brtt., því það getur orðið til þess, að málið dagi uppi, þar sem ekki eru eftir nema 2–3 dagar af þingtímanum. En hægurinn er hjá að laga galla, sem á kunna að vera, á næsta þingi. Auk brtt. hefir orðið ákaflega mikill gustur út af málinu sjálfu. Það er sagt, að sjálfstæðið og rjettlætið sje í veði, ef þetta frv. nær fram að ganga, þetta frv., sem flutt er af hæstv. dómsmálaráðherra (JM) og stutt af bestu lögfræðingunum á þingi.

Þessi gustur minnir í dæmisögu Esóps um smalann, sem vanur var að hlaupa inn á þorpið og hrópa: Úlfur! Úlfur! Svo oft hrópaði hann þetta, að menn hættu að leggja trúnað á það. Þetta endurtekur sig hjer dag frá degi, viku eftir viku. Þegar komið er við embættismannakerfið, sendiherrann eða hæstarjett, þá eru altaf vissir menn, sem hrópa hástöfum, að sjálfstæði, menningin, rjettlætið sje í veði. Jeg er hættur að sinna þeim. (JakM: Ekki um landsverslun). Jú, jeg álít ekki, að sjálfstæði landsins sje hætta búin, þó landsverslun sje lögð niður, en jeg tel, að landsbúum sje hagkvæmara að hafa hana.

Jeg vil seinast geta þess, að það hefir verið sagt um þá, sem frv. fylgja, að þeir sjeu að ráðast á hæstarjett og beri ekki traust til hans. Þetta er alveg gagnstætt. Hvernig er ástatt nú? Eitt sæti er autt í dóminum og elsti og reyndasti dómari landsins, sem situr nú í hæstarjetti, er kominn yfir það aldurstakmark, þegar stjórninni er heimilt að setja annan mann í hans stað. Því er um þetta að ræða: Má Alþingi, má þjóðin treysta þeim 3 yngri dómurum, sem dæma nú í hæstarjetti, til þess að dæma rjetta dóma fyrst um sinn? Því vitanlega verður aftur breytt, þegar ástandið leyfir. En nú er þröngt á öllum sviðum og alt verður að spara, sem hægt er. Og spurningunni, má treysta þessum 3 mönnum til að dæma rjett, svörum við, sem frv. fylgjum, játandi. Þeir, sem mæla á móti frv., treysta þeim ekki til þess. Og því eru það þeir, rjett skoðað, sem lýsa vantrausti sínu á hæstarjetti og vekja tortryggni á honum, en ekki við, sem fúsir erum til að eiga æru og líf okkar og samborgaranna undir hæstarjetti eins og hann er nú.