01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2073 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

29. mál, hæstiréttur

Jakob Möller:

Háttv. þm. Str. (TrÞ) ber sig upp undan gusti, sem orðið hafi út af þessu máli. Jeg hygg, að sá gustur sje mestur í hans eigin samvisku; jeg tel það ekki óeðlilegt, þótt hún sje óró, því varla er henni mikil fróun í því að geta nú borið gæfu til að vera sammála hæstv. forsrh. (JM).

Hann taldi það fyrst, að gustur hefði verið vakinn út af því, að skera átti niður umr. við 2. umr. og hefði verið lítil ástæða til þess, þar sem fátt hefði verið sagt þar á eftir. En það er aldrei sæmilegt að banna mönnum að tala um mikilsverð mál, en það er gert við alla þá, sem ekki hafa kvatt sjer hljóðs, þegar umræður eru skornar niður. Hann kvað þrjár umr. nægilegar til að það kæmi fram, sem fram þyrfti að koma. Oft hefir sýnt sig, að svo er ekki. Og jeg vil vekja athygli manna á því, að þegar skera átti umr. niður, var jeg rjett búinn að leggjast fast á móti málinu, og enginn, hvorki hv. þm. Str. nje hæstv. forsrh., hafa enn treyst sjer til að færa rök á móti mínum orðum. Hefir þeim því líklega þótt þægilegra að skera strax niður umr., svo að röksemdaþrotin kæmu ekki eins greinilega í ljós. En þó að segja mætti með rjettu, að allmikill gustur hefði verið gerður út af þessu máli, þá er þess að gæta, að málið er sannarlega þess vert að vekja gust, og jeg vildi óska, að það hefði vakið svo mikinn gust í samvisku hv. þm. Str., að honum hefði ekki tekist að svæfa hana. Hann var að tala um, að vjer vantreystum hæstarjetti. Jeg vil nú vekja athygli hans og annara fylgismanna hans í þessu máli á því, að dómararnir þar treysta sjer ekki sjálfir. Þeir hafa einróma lagt á móti þessari breytingu. Þeir vita, að þessi breyting verður til að skerða rjettaröryggið í landinu, og viðurkenna það líka, og eru menn að meiri. Það er þingið, sem hefir oftraust á hæstarjettardómurunum, er það segir þeim, að þeir sjeu færir um það, sem þeir telja sjer ofvaxið. Og hjer stoðar ekkert að vitna til lögfræðinga. Hvaða lögfræðingar ættu að hafa vit á þessu máli, ef ekki hæstarjettardómendurnir sjálfir? Hæstv. forsrh. talaði um, að það væri hál braut að vitna á lögfræðinga. Það er þá vissulega líka nokkuð hál braut að vitna í hann sjálfan. Hann var ákveðinn móti þessari breytingu 1919. Nú segir hann, að rjettaröryggið sje að vísu skert með þessu, en þó ekki meira en forsvaranlegt sje. 1919 taldi hann óforsvaranlegt að hafa dómarana færri en 5, svo sem lesið hefir verið upp úr Þingtíðindunum; nú telur hann fullforsvaranlegt að hafa þá aðeins 3. Á hverju á nú að taka meira mark, ummælum. hæstv. forsrh. 1919 eða nú? Auðvitað á ummælum hans 1919, af því að þá er varlegar farið, þó að ekki væri annað.

Einna furðulegust af því marga og misjafna, er hjer hefir verið sagt, var þó ræða háttv. 2. þm. Árn. (JörB). Hann sagði, að rjettaröryggið væri alls ekki skert, enda þótt dómendum væri fækkað niður í þrjá, og vitnaði í hæstv. forsrh. máli sínu til sönnunar, sem þó hefir sagt hið gagnstæða. Hann snýr við orðum hæstv. forsrh., og hlýtur því að snúast sjálfur á móti málinu, er hann athugar það, að flestir telja rjettaröryggið skert með þessu. Hann hefir skrifað undir nál. fyrirvaralaust, en í nál, er lögð áhersla á það, að þriggja manna dómur sje öldungis óviðunandi, nema miðdómstig sje stofnað um leið.

Jeg veit það vel, að jeg get ekki haft nein sjerstök áhrif á þetta mál. Jeg er ekki þannig settur. En því, sem jeg hefi sagt um málið, hefi jeg beint til stuðningsmanna stjórnarinnar. Þeir bera ábyrgðina. Jeg er þar fyrir utan, og get því engin áhrif haft á málið þar. Og til andstæðinganna býst jeg við, að þýðingarlaust sje að beina þessum athugasemdum. En jeg hefi viljað, að enginn þingmaður gæti sagt, að ekki hefði verið bent á það, sem hjer er í húfi. Þetta er eitt af þeim málum, sem meiri hluti hvorki á nje þarf að ráða úrslitum á. Það er nefnilega hægt að gera mál að svo nefndum „cabinets“- málum, og það geta fleiri gert en stjórnin, jafnvel fáir þm. úr flokki stjórnarinnar. En þeirri stjórn, er fer að sem núverandi stjórn í þessu máli, er mönnum ekki heimilt að ljá fylgi sitt.