01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2077 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

29. mál, hæstiréttur

Árni Jónsson:

Háttv. þm. Str. (TrÞ) sagðist vera sannfærður um, að jeg hefði aldrei heyrt synodalrjett nefndan fyr en í dag. Jeg skal ekkert þrátta við hann um það. Menn eru nú sannfærðir um svo margt. Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) var t. d. sannfærður um, að hv. þm. Str. hefði slæma samvisku í þessu máli, Jeg vil nú ekki taka undir það, en held, að hann byggi sannfæringu sína á röngum grundvelli, og er sannfærður um það.

Annars skal jeg ekki gera brtt. á þskj. 501 að kappsmáli. En það ber vott um hroðvirkni, ef þetta er ekki lagað, sem till. fer fram á. Það verður að krefjast þess, að lögin sjeu sjálfum sjer samkvæm. Hefðu engar aðrar brtt. komið fram, hefði jeg ekki látið senda frv. til Ed. vegna minnar till. einnar. Frekar þarf jeg ekki að svara hjer, enda hafa aðrir þegar gert það í minn stað.