01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2079 í B-deild Alþingistíðinda. (1499)

29. mál, hæstiréttur

Bjarni Jónsson:

Jeg býst við, að menn hafi ekki gleymt því, hvílíkt áhugamál öllum góðum Íslendingum var það lengi að ná hæstarjetti heim úr útlöndum, hinum æðsta dómstóli um líf manna og æru. Þetta gekk fram árið 1919, þó þannig, að slept var miðdómstiginu. Þó þótti þá ósæmilegt, að færri en 5 dómarar ættu sæti í hæstarjetti. Nú veit jeg það, að sá, sem þetta frv. bar fram, gerði það aðeins í sparnaðarskyni, til þess að geðjast þessum sparnaðaranda þingsins, sem þar gengur ljósum logum á þessum síðustu tímum. Hann segir það af ásettu ráði, að það sje þingið, en ekki kjósendur, sem heimti þetta nurl, sem bæði er hlægilegt í sjálfu sjer og landinu til stórrar vanvirðu, ef það verður að lögum.

Það er annars gott að fá tækifæri til að lýsa þessu þingnurli og sýna, hversu gálauslega hv. þm. fara með tíma þingsins árlega. Það er líklegast, að þeir ætli, að þingið kosti ekki peninga. Jeg ætla að koma með lauslegan reikning eða yfirlit yfir þær afturgöngur, sem þingnurlararnir hafa vakið upp á hverju þingi. Það ætla jeg, að þingið muni kosta eitthvað um 1600 kr. á dag, og að meðaltali ætla jeg hverri afturgöngu 1 eða l½ dag af þingtímanum. Sumar taka máske eitthvað lengri tíma, en sumar eru þá skemur á ferðinni. Mun þá hver afturgangan kosta ríkissjóð um 2000 kr. (ÁF: Þær eru miklu dýrari). Jeg reikna lágt og veit því, að jeg þarf ekki að skammast mín neitt fyrir þann reikning minn. Það er alls ekki minni upphæð en þetta, sem draugarnir kosta, og nú skal jeg nefna þá uppvakninga, sem jeg man eftir í svipinn. Fyrstan tel jeg frægra grískudósentinn. Hann er þrefaldur. Hann hefir einu sinni verið vakinn upp á Ed., og hjer í Nd. hefir hann gengið aftur tvisvar sinnum. Hann hefir því kostað ríkissjóð 6000 kr. Þó er þetta líklega ekki gert í sparnaðarskyni, er það hefir verið látið í veðri vaka, að jeg ætti að fá að halda þessu embætti meðan jeg lifi. Það er því aðeins verið að leika sjer með tíma þingsins. Þá er próf. Guðmundur Finnbogason næstur. Draugur til höfuðs honum hefir að minsta kosti þrisvar verið vakinn upp hjer í þinginu, og reikna jeg það 6000 kr. Þá eru embættasamsteypur við söfnin og halaklipping háskólans; þetta sumt margfalt. Hæstirjettur og sendiherrann hafa kostað um 2000 kr. hvort málið fyrir sig. Alls held jeg, að jeg hafi þá talið um 22 þús. kr., sem þannig hafa farið til einskis; en þá ætla jeg alls ekki að reikna annað, sem af þessum tímaspilli hefir leitt, eða það gagn, sem af þessum tíma og fje hefði mátt verða, ef þingið hefði í stað þessa viljað vinna eitthvað að alvarlegum og nytsömum þingstörfum. (TrÞ: En þm. gætir þess ekki, sem er mikið og sparast hefir landinu við það, að hv. þm. Dala. var veikur í vetur). Jú, jeg hefi heyrt það, að bæði háttv. þm. Str. (TrÞ) og ýmsir aðrir hafi leikið hjer lausum hala, broshýrir mjög og óspart látið munninn ganga, óhræddir vegna þess, að jeg var hjer ekki viðstaddur.

Margt af þeim sparnaði, sem hjer hefir verið framinn, kemur ekki til greina fyr en eftir 10–20 ár. Hverjum dettur t. d. í hug, að þessi lög, ef samþykt verða, um hæstarjett muni lifa í 5–10 ár! Fyr getur enginn sparnaður af þeim orðið. Nei, ekki einu sinni 1 eða 2 ár munu þau fá að lifa. Því það munu þegar allir sjá, að það er engu landi sæmandi að hafa slík lög sem þessi. Samkvæmt orðum hæstv. forsrh (JM) sjálfs þarf enginn þm. að greiða þessu frv. hans atkvæði. Hann er sjálfur gamall og reyndur dómari og hann hefir játað, að með þessu tefli hann öryggi dómanna og rjettarfari landsins í hættu. Hann heldur ekki þessu frv. sínu mjög fram, en hann segist telja það „forsvaranlegt“ að gera þetta: Að veikja öryggi rjettarfarsins í landinu, auk þess, sem sá dómstóll, sem frv. snertir, er svívirtur. Nú vil jeg álíta, að hvað, sem hv. þm. halda um þetta mál, muni almenningur þessa lands ekki telja eftir að greiða 5 dómendum í hæstarjetti laun þeirra, ef rjettaröryggið er þá meira en áður, enda veit jeg, að allflestir munu telja langtum meira öryggi fyrir rjettum dómum og hafa meira traust á rjettinum, ef dómendur væru heldur 5 en 3. Jeg veit og, að allur almenningur er sannfærður um það, að þetta er rjett, og því mun það ekki lengi standa, að dómararnir verði aðeins 3 í æðsta dómi landsins. Við skulum snöggvast líta á þennan mikla sparnað (!) og við skulum gera ráð fyrir að fækka tveimur í rjettinum. Aldurstakmarkið mundi þá koma til greina, að minsta kosti um annan þeirra, og menn mundu verða að borga honum laun sín samt, þótt hann viki úr rjettinum, nema þá að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að hann lifði ekki of lengi úr þessu. En það, að rjettaröryggið er skert í landinu, getur gert langtum meiri skaða af sjer en nemur hálfum launum eins manns, og ef aðrar þjóðir fara að efast um öryggi rjettarfarsins í landinu, munu öll erlend viðskifti verða okkur síerfiðari með degi hverjum, og mun það þá verða bert, að við höfum af þessu haft þúsund sinnum meiri skaða en þó að 5 mönnum væru greidd laun þeirra. Jeg tel það og vera vott um allmikla ómensku, að vera að því ár frá ári, þing eftir þing, að reyna að rýra æðsta dómstól landsins. Þetta verður líka auðsætt öllum mönnum og alstaðar mun þetta rýra eða fyrirgera með öllu allri virðingu og áliti á þeirri þjóð, sem fremur þetta fólskuverk. Þessi þjóð hefir áður verið talin meðal hinna fullmentuðustu þjóða, en þó höfum vjer lifað allmjög á hinum miklu andlegu yfirburðum forfeðra vorra, og nú sýnum vjer það ljóslega í verkinu, hversu miklir aukvisar og ættlerar vjer erum orðnir. Þetta gefur og erlendum þjóðum fulla ástæðu til að líta þannig á okkur, enda geta þær varla ályktað öðruvísi.

Það er því mikil ábyrgð, sem þeir fáu menn taka á sig, sem hjer sitja og þetta fremja. Mundi það og sýna sig, ef þetta mál væri lagt undir úrskurð þjóðarinnar, að þeir yrðu átakanlega bornir atkvæðum. Þau atkvæði mundu teljandi, þeir fengju með þessu.

Hinn broshýri þm. Str. (TrÞ) telur, að ekki megi halda marga menn og dýra til þess að dæma örfáa dóma á ári. Jeg vorkenni honum að verða að taka á sig ábyrgð þeirra orða. Hafa menn nokkurn tíma fyr vitað fulltrúa þjóðarinnar meta rjettinn til peninga? Hver veit, á hverju það gæti riðið, ef feldir yrðu rangir dómar hjer í landinu? Það getur riðið á því, sem mestu varðar hverja þjóð, heiðri hennar og sjálfræði, ef farið verður að meta rjettvísina til fjár. Þarna ríður á öllu, ef ekki má greiða atkvæði um þetta frv. með það fyrir augum, sem rjettarfari landsins er best borgið með. Það, að einu smábarni verði ekki gert rangt til, er meira um vert en þó að alt landið yrði með öllu fjelaus. Nei, þetta væri áþekt og ef sálnahirðirinn færi að meta þær sálir landsins barna til fjár, sem honum hefði tekist að hóa inn í himnaríki. Þeir þm., sem mælt hafa þessu frv. bót eða ætla að samþykkja það, ættu það skilið að teljast óalandi og óferjandi og óráðandi nokkrum bjargráðum sem stjórnmálamenn. Jafnvel þó þetta frv. verði aldrei að lögum, sem til framkvæmda munu koma, verður þó ábyrgðin svo þungt farg á þeim, sem það hafa samþykt, að þeir ættu að láta sjer nægja það, sem þeir hafa áður borið, ef þeir vilja ekki algerlega sligast af þeirri byrði.

Brtt., sem bornar hafa verið fram við þetta frv., álít jeg heldur til bóta, og kýs þær því heldur en frv.; enda gera svo allir, ef um tvent ilt er að velja, að taka heldur það, sem minni óheill stafar af.