13.03.1924
Neðri deild: 22. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2100 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Jakob Möller:

Þótt háttv. þm. úr fjhn. hafi falast eftir því að fá mál þetta til meðferðar í sinni nefnd, þá verð jeg þó að álíta eins og hv. flm. (TrÞ), að því muni verða eins vel borgið í landbn., og tel jeg þá auðvitað sjálfsagt, að hún leiti álits Landsbankans um málið. Og hvað því viðvíkur, sem hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) tók fram í sinni ræðu, að álitamál gæti verið, hvað taka mætti mikið fje í þessu skyni frá hinum atvinnuvegunum, þá er það augljóst, að í því efni verður að fara eftir tillögum Landsbankans, því honum er það ljósast, hvað mikið fje hann getur ætlað til þessa og hvers viðskifti hans krefjast í því efni. Jeg skal raunar játa, að eftir venju ætti mál sem þetta að fara til fjhn., en þó er svo sjerstaklega ástatt með þetta mál, að jeg ætla það misráðið, ef það ef ekki látið athugast í landbn. Aftur er ekkert því til fyrirstöðu, að ef hv. þm. þykir málið að einhverju leyti miður athugað fjárhagslega, er það kemur frá nefndinni, þá sje það fengið fjhn. í hendur til frekari athugunar um þau atriði.