05.04.1924
Neðri deild: 43. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2112 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg vildi minnast á það, sem stendur í greinargerð frv. um aðdraganda þessa máls. Það er orðið allgamalt, bæði utan þings og innan. 1916 var farið að tala um búnaðarlánastofnun. Síðan var hafinn undirbúningur á þessu sviði, maður fenginn til að kynna sjer fyrirkomulag slíkra stofnana annarsstaðar og gera tillögur. Þær komu fram í þingbyrjun 1921 og leiddu til laganna um Ríkisveðbanka Íslands.

Með því var málinu stefnt inn á aðra braut en til hafði verið ætlast. Upphaflega hafði verið stefnt að lánsstofnun, er eingöngu væri fyrir landbúnaðinn; en úr varð almennur veðbanki. Hann átti að gera tvent í senn, styrkja landbúnaðinn og koma í stað veðdeildar Landsbankans.

Þetta var mikið óhappaspor í þessu máli, og kom það þegar fram á þingi 1921, og þó betur síðar. Hjer eru ekki til skilyrði fyrir stofnun þessa veðbanka og verða ekki á næstunni. Því er eðlilegt, að slíkt frv. sem þetta sje fram komið.

Mjer hefir ávalt verið stofnun slíkrar búnaðarlánadeildar mikið áhugamál. Þegar lögin um Ríkisveðbankann voru á döfinni, barðist jeg fyrir því, að stofnuð væri sjerstök deild fyrir landbúnaðinn, hvort sem bankinn í heild tæki til starfa eða ekki. Þetta náði þó ekki fram að ganga, sem kunnugt er.

Jeg þarf ekki að geta þess, að jeg lít á þessa till. með sömu velvild og áður. En þótt gert sje ráð fyrir, að þessi stofnun starfi aðeins um stundarsakir, verður að gæta þess, að ekki sje farið út á hættulega braut. Jeg verð því að mótmæla því fyrir hönd stjórnar Landsbankans, að það, sem hjer er farið fram á viðvíkjandi bankanum, komist í framkvæmd. Auðvitað er það satt, að ríkið ræður yfir bankanum. En það má ekki beita þeim völdum bankanum í óhag, og má því ekki gera ráðstafanir til að stjórna honum eftir öðrum en viðurkendum og góðum grundvallarreglum fyrir bankastarfsemi. En fram á slíkar ráðstafanir er einmitt farið í þessu frv.

Í frv. er farið fram á, að bankinn láni allmikið fje með 4% ársvöxtum. í till. nefndarinnar er þetta hækkað í 5%. Þetta er gert einmitt á þeim tíma, þegar lægstu innlánsvextir eru 5%, þ. e. a. s. sparisjóðsvextir. Af fje á innlánsskírteinum er borgað 5½%. Þetta er brot á öllum almennum grundvallarreglum, að útlánsvextir sjeu lægri en innlánsvextir. En slíkar ráðstafanir eru gerðar, hlýtur það að veikja traust innlendra og erlendra skiftavina á bankanum, því að þeir geta ekki vitað, hvar verður staðar numið. Það hefir verið álitið hingað til, að þetta fje yrði að fá með sölu skuldabrjefa eða vaxtabrjefa, sem eru í umferð jafnlengi og skuldin stendur. Þetta er algild regla um veðbanka. Hjer stendur eins á, og verður að gera hið sama og annarsstaðar, nema því aðeins, að fjárveitingarvaldið veiti fje úr ríkissjóði.

Jeg hefi borið þessi mótmæli fram eftir mjög eindreginni ósk stjórnar Landsbankans, enda þótt mjer hafi þótt leiðinlegt að leggjast á móti frv.

Þá hefir komið fram annað frv., frá hv. þm. V.-Sk. (JK), sem fer fram á stofnun nýrrar veðdeildar við Landsbankann. Þetta frumvarp er á rjettum grundvelli bygt, en vafasamt tel jeg, hvort tíminn er nú hentugur til að framkvæma það.

Því hefir verið haldið fram, að landbúnaðurinn færi á mis við lánsfje bankanna, og má vera að svo sje. Þó verður að gæta þess, að hann þarf miklu minna fje til rekstrar síns en sjávarútvegurinn. Því hefir líka verið haldið fram, að landbúnaðurinn ætti að njóta lægri vaxta en aðrir atvinnuvegir. Það er nú að vísu satt, að algengt er, að vextir fari eftir áhættu lánanna. En nú borgar sjávarútvegurinn alt að 9% af lánum sínum, 8% í vexti og um 1% í ýmsan tilkostnað. Jeg tel vafasamt, hvort það er samrýmanlegt, að landbúnaðurinn fái á sama tíma lán fyrir 4–5%. A. m. k. er ekki rjett að landbúnaðurinn borgi lægri vexti en sparisjóðsvexti af lánum sínum, nema, eins og jeg sagði fyr, að ríkissjóður leggi beinlínis fje fram. En einmitt vegna þess, hve sparisjóðsvextir eru nú háir, er tíminn mjög óhentugur til að stofna nýja veðdeild.

Hvað snertir ummæli háttv. þm. Str. (TrÞ) um innskotsfje landssjóðs í Landsbankanum, þá er það að segja, að ekki má gera of miklar kröfur vegna þess fjár. Það er fyrst og fremst að athuga, að þetta er eina sjálfseignarfjeð, sem bankanum hefir verið lagt til, og þetta sjálfseignarfje, 1200000 kr., er mjög lág upphæð í hlutfalli við veltu bankans. Hún er svo lág tiltölulega við veltufje bankans, að þegar af þeirri ástæðu er ekki rjett að gera sjerstakar kröfur til bankans á þeim grundvelli. En við það bætist, að þetta eru því miður ekki einu viðskifti ríkissjóðs við bankann. Fjárkreppan veldur því, að ríkissjóður hefir gert mjög miklar fjárkröfur til bankans, og verður á það að líta, hve mikil byrði bankanum er bundin af ríkissjóði, þegar meta á, hverjar sjerstakar kröfur löggjafarvaldið getur gert til hans.

Jeg get að sjálfsögðu tekið undir með hv. frsm. (ÁJ), að ekki megi telja eftir fje til landbúnaðarins, en vilji Alþingi veita honum beinan fjárhagslegan stuðning, eins og hjer er farið fram á, verður að gera það með fjárveitingu úr ríkissjóði, en þess má ekki krefjast af Landsbankanum, að hann taki slíka byrði á herðar sjer.

Jeg vil að lokum leyfa mjer að mótmæla því, er kann að felast í orðum hv. frsm. um álit manna hjer í Reykjavík á landbúnaði. Kveðst hann hafa orðið var við, að sumir menn færu mjög niðrandi orðum um landbúnaðinn. Jeg vil ekki bera brigður á, að hv. frsm. kunni að hafa heyrt eitthvað slíkt hjá ósvinnum mönnum hjer í bæ, því að óvitrir menn eru jafnan til í þvílíkum mannfjölda, sem hjer er. En sem 1. þm. bæjarins tel jeg skyldu mína að bera sannleikanum vitni í þessu efni, að meðal alls almennings hjer í bænum má heyra fullan skilning og viðurkenningu á því, hvað landbúnaðurinn hefir verið og er ennþá fyrir þessa þjóð. Íbúar höfuðstaðarins taka fullkomlega undir óskir landbúnaðarmanna sjálfra, um að þessum atvinnuvegi megi takast að hefjast á fullkomnara stig og betur í samræmi við kröfur nútímans en verið hefir til þessa. Og heyrist einhverjar aðrar raddir hjer í bæ, eru það einungis hjáróma raddir einstakra manna, sem alstaðar geta verið til og komið fram í bág við almenningsálitið.