05.04.1924
Neðri deild: 43. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2118 í B-deild Alþingistíðinda. (1524)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer virðist af brjefi Landsbankastjórnarinnar, að andstaða hennar gegn málinu sje að miklu leyti sprottin af því, að hún telji bankann mundu skaðast á því að lána með þeim kjörum, sem um getur í frv., og á þar sennilega einkum við vaxtahæðina. Jeg vil því leyfa mjer að spyrja háttv. landbn., hvort hún hafi átt tal við bankastjórnina um það, hvort álit hennar yrði óbreytt, þó að vextirnir væru hækkaðir upp í 6%. Það er vel skiljanlegt, að þá er bankinn greiðir 5% í vexti af sparisjóðsfje, þyki honum ilt að fá ekki hærri vexti af fje því, sem hann lánar út, enda er það beint tjón fyrir bankann; en fengi hann 6% í vexti af vel trygðum lánum, þá er vel gerlegt frá sjónarmiði bankans að fara svo með innstæðufje sitt, þar sem hæglega má sjá um, að lánin sjeu algerlega trygg.

Þá er á það að líta, hvort tilgangi frv. muni verða náð, ef vextirnir verða hækkaðir. Jeg vildi ekki fyrir hönd landbúnaðarins láta málið stranda á því, hvort vextirnir væru 5 eða 6%. Þó að landbúnaðurinn gefi ekki mikinn arð, þá er guði svo fyrir þakkandi, að sumar jarðabætur gefa tiltölulega fljótt nokkuð í aðra hönd, svo sem áveitur og túnasljettur. Ef hægt væri að ná samkomulagi á þessum grundvelli, teldi jeg ekki rjett að hafna því. Jeg veit ekki, hvort það hefir verið reynt, en vildi gjarnan fá að vita það, og hafi það ekki verið gert, vildi jeg óska, að þessi leið væri reynd.

Hjer er einungis um það að ræða að heimila að ráðstafa í þessu skyni 500 þús. kr., og er það ekki mikil upphæð frá sjónarmiði bankans. Hann hefir mjög mikið sparisjóðsfje og á jafnan stórfje í Íslandsbanka, sem hann fær 3% í vexti af, og get jeg því ekki sjeð, að þetta væri bankanum til niðurdreps. Þessi lán verður að telja svo algerlega trygg, að jeg get ekki annað sjeð en að það væri fullsæmileg meðferð á sparisjóðsfje, að verja því til þessa, án þess að taka mikinn ágóða af lánunum. Og þegar bankinn á stórfje í Íslandsbanka, getur hann ekki barið því við, að hann hafi ekki fje til þessa. Jeg sje ekki, að of nærri sje gengið bankanum, þegar honum væri trygt, að hann fengi dálítinn ágóða af lánunum, þó að minni sje en af öðrum ótryggari lánum Jeg hef dálítið fyrir mjer í því, að bankastjórnin mundi vilja ganga að því að veita þessi lán með 6% vöxtum, þar sem jeg veit til þess, að hún hefir nýlega lofað að veita lán í þessu skyni með sömu vöxtum.

Jeg get ekki sjeð, að nýr flokkur bankavaxtabrjefa geti komið landbúnaðinum að neinu haldi, ef gert er ráð fyrir sama verði sem á 4. flokki. Þegar afföllin eru 30%, svo að greiða verður fyrsta árið 35% í vexti og afföll, þá eru veðdeildarlán svo dýr, að menn taka þau ekki nema í ýtrustu neyð. En öðru máli mundi gegna, ef ráð fyndist til þess að hækka verðið á þessum brjefum.