05.04.1924
Neðri deild: 43. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2123 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Frsm. (Árni Jónsson):

Jeg hefi mjög litlu að svara að þessu sinni, því allir þeir hv. þm., sem talað hafa, hafa farið hlýjum orðum um málið, þótt hinsvegar sjeu nokkuð skiftar skoðanir meðal þeirra um það, hvort það sje framkvæmanlegt eins og sakir standa.

Jeg ætla þá fyrst að svara fyrirspurn hæstv. atvrh. (MG) um það, hvort nefndin hefði grafist fyrir það, hvort bankastjórn Landsbankans myndi sætta sig við frv., ef vextirnir væru ákveðnir 6%. Því er þar til að svara, að nefndin hefir ekki gert þetta, af þeim sökum, að henni virtist höfuðmótbára bankastjórnarinnar ekki vera vaxtaspursmálið heldur hitt, að hjer færi þingið of langt inn á verksvið framkvæmdarstjórnar bankans. Hinsvegar skal jeg taka það fram, að nefndin mun að sjálfsögðu taka þetta atriði til athugunar.

Annað atriði er það líka, sem nefndin mun íhuga, en það er, hvort ekki muni vera rjettast að ákveða í frv., að vextirnir skuli vera vissri hundraðstölu hærri en innlánsvextir bankans á sama tíma. Það er nú vonandi, að þessi dýrtíð haldist ekki um aldur og æfi og að vextir bankanna lækki talsvert, en færi svo, þá yrðu þeir illa úti, sem samið hefðu um lán með hærri vaxtakjörum en þá væra ella tíðkuð.

Það hefir mikið verið talað um það, hve erfitt bankinn eigi með að festa fje um svo langan tíma. Það má vera, að eitthvað sje til í því, en hitt held jeg þó, að bankarnir hjer hafi undanfarið ekki fest fje sitt nægilega, því það hefir reynst svo laust, að þeir hafa jafnvel tapað því að fullu og öllu.

Háttv. þm. Reykv. hafa staðið hjer upp hver af öðrum til þess að bera hönd fyrir höfuð kjósenda sinna út af orðum mínum áðan. Jeg vil nú halda því fram, að þeir þekki þá kjósendur sína ekki út í æsar, ef þeir hafa ekki tekið eftir því hjá allmörgum þeirra, að þeir hafa landbúnaðinn ekki í neinum hávegum. En það er ekki svo að skilja, að jeg kæri mig nokkuð um tómt smjaður í garð landbúnaðarins, hvorki frá þeim eða hv. þm. þeirra; landbúnaðurinn kemst engu betur af fyrir því. Það er starfsfje, sem hann þarf frekar á að halda en falleg orð.

Hæstv. fjrh. kvað frv. stríða gegn reglum um starfsemi bankans og kvað hann vart standa sig við að lána fje út gegn svo lágum vöxtum. Bankinn hefir þó þegar gengið lengra í þessu efni, þar sem hann hefir lánað Íslandsbanka um 2½ milj. kr. gegn 3% vöxtum. Hann ætti þá ekki síður að standa sig við að lána landbúnaðinum fje gegn 5% vöxtum.

Þá talaði hæstv. fjrh. um það, að heppilegri leið væri skuldabrjef, sem gengju kaupum og sölum. En hver hefir reynslan orðið um þau skuldabrjef, sem nú eru í umferð? Þau hafa mörg selst fyrir um 70% af nafnverði og eru nú lítt seljanleg. Þótt gefin væra út slík brjef, þá yrði lítið gert með andvirði þeirra á meðan þau ekki seldust.

Það, sem þetta mál snýst aðallega um, er það, hvort þingið eigi að marka bankanum línur á þessum efnum. Og jeg vil líta svo á, að þessi mótmæli bankastjórnarinnar sjeu mótmæli gegn því, að eigendur bankans ráði honum og hvernig hann er rekinn. Það eru ráðsmenn ríkisins í bankanum, sem hreyfa hjer andmælum gegn húsbónda sínum og segja: „Ja, hún er nú heimskuleg þessi tilhögun, sem þú vilt koma á í dag, en ennþá heimskulegri verður sú á morgun.“ Þegar svo er komið, finst mjer að ráðsmennirnir sjeu orðnir að húsbændum, en það tel jeg ekki allskostar heppilegt eða viðeigandi. Og jeg lít svo á, að það sje ekki hvað minst varhugavert að ganga inn á þann skilning bankastjórnarinnar.

Jeg verð að lokum að benda á það, að þegar tekið er tillit til ársveltu bankans, þá er það mjög lítil upphæð, sem hjer er um að ræða að verja til landbúnaðarins. Hámark upphæðarinnar er aðeins 1¼ milj. kr., og myndi oft verða talsvert minna. Þessi upphæð er aðeins 66. hluti af því fje, sem bankinn hafði í veltu árið 1922, og ætti því ekki að vaxa neinum í augum.

Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) sagði, að hjer væri um að ræða reglulegt frumhlaup á bankann. Jeg tel óþarft að svara því sjerstaklega, en mótmæli því með sömu rökum, sem jeg hefi nú borið hjer fram.