05.04.1924
Neðri deild: 43. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2125 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg vildi bara taka það fram, út af framkomnum ummælum um, að komið geti til mála að gera breytingar á vaxtakjörunum, að jeg er ekki á móti því, að málið gangi til 3. umr., til þess að þetta atriði verði athugað sjerstaklega. Jeg hefi ekki átt tal við bankastjórnina um þann möguleika, og mjer skildist einmitt á henni, að það væru einkum þessi vaxtakjör, sem hún væri mótfallin. Jeg vænti þess svo, að þessi yfirlýsing mín verði til þess, að umræður verði ekki teygðar mjög úr þessu, því betra verður að ræða málið við 3. umr., að fengnum nýjum upplýsingum.

Jeg get þó ekki stilt mig um að drepa lítið eitt á eitt atriði, sem fram hefir komið í umr. Það er, að því hefir verið haldið hjer fram, að hjer sje um þau tryggustu lán að ræða, sem völ sje á. Jeg get ekki algerlega gengið inn á þetta. Hjer eru ákvæði um lán til stofnunar nýbýla, en fyrir þeim er engin reynsla, og get jeg því ekki samsint, að þar sje um þau „tryggustu lán“ að ræða. (ÁJ: Þar eiga ábyrgðir bæjar- og sveitarsjóða að standa að baki). Jeg geri ekki svo ýkjamikið úr þeirri ábyrgð; að minsta kosti verð jeg að halda því fram, að hagur bæjar- og sveitarsjóða sje sumstaðar svo, að ábyrgð þeirra sje naumast teljandi með „bestu tryggingum“. Skal jeg í því sambandi geta þess, að jeg var á gær að veita viðlagasjóðslán handa einum hreppnum, þótt hálfnauðugt væri, bara til að forða því, að hann gæfi sig algerlega upp. — Ekki myndi ábyrgð þess hrepps geta talist með „bestu tryggingum“.

Þá er hjer annað ákvæði um, að lán skuli veitt til varanlegra húsabóta í sveitum. Þótt mjer sje óljúft að segja það, þá verð jeg þó að líta svo á, að ekki sje hjer heldur um „bestu tryggingar“ að ræða. Hve góð tryggingin er, er alt undir því komið, hvort bóndinn reisir með byggingunum búi sínu hurðarás um öxl eða ekki. Eins og hv. þdm. vita, er það mjög takmarkað, hvað íslenskar bújarðir þola. — Jeg vil mælast til þess, að hv. nefnd taki einnig þetta atriði til athugunar til 3. umr.

Að því er snertir veðdeildarbrjefin, þá held jeg, að hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) hafi gert verð þeirra lægra en það er. Það má vera, að einhver nauðstaddur brjefeigandi hafi selt einhver brjef fyrir 70% af nafnverði. En þótt slíkt hafi komið fyrir, þá ætti ekki að halda því á lofti hjer á þessum stað, því bæði gæti það að ástæðulausu spilt fyrir sölu brjefanna, og gefur auk þess rangar hugmyndir um gengi þeirra. Sú seinasta sala, sem mjer er kunnugt um, fyrir fám dögum síðan, var á 80% af nafnverði.