05.04.1924
Neðri deild: 43. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2127 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg skal reyna að tefja umr. ekki mikið úr þessu, enda á jeg hægra með það eftir yfirlýsingu hæstv. fjrh. (JÞ). Það er annars svo um ræðu hans, að mjer fjell dável við það, sem hann sagði fyrst, og ágætlega við það, sem hann sagði síðast, en mjer fjell ekki að sama skapi vel við það, sem hann sagði þess í milli. Þar þótti mjer hann draga fullfreklega taum bankans á kostnað landbúnaðarins. Jeg ætla samt ekki að áfellast hæstv. ráðherra neitt fyrir þetta, því samkvæmt stöðu sinni er honum skylt að líta fyrst og fremst á hag bankans. En þrátt fyrir þetta er fjarri því, að jeg geti fallist á röksemdir hans.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði fyrst og fremst, að hætta gæti stafað af því fyrir lánstraust bankans erlendis, ef sá orðrómur færi af honum, að honum væri stjórnað eftir öðrum grundvallarreglum en bönkum erlendis. Einkum kvað hann það mundu spilla, ef það færi að kvisast, að hringl væri í stjórn hans og eitt gert í ár og annað að ári. Þótt þetta frv. væri nú samþykt, þá væri samt engin ástæða til að drótta slíku að bankanum. Hann er nú 10 ára gamall aðdragandinn að þessu máli. Þetta frv. er beint framhald af því, sem fram kom á þinginu 1916. Er varla hægt að kalla það hringl, þótt nú sje ráðið til lykta máli, sem búið er að undirbúa svo langan tíma. Það er ekki heldur neitt gegn grundvallarreglum annara banka, að landbúnaðurinn fái að njóta bestu vaxtakjara. Og hvar í heiminum myndi það talið hættulegt að lána bændum með alveg sjerstökum tryggingum?

Jeg tók það fram í framsöguræðu minni, að ákvæðið um 4% vexti er tekið upp úr gildandi lögum. Í jarðræktarlögunum er þetta hvorttveggja tekið fram, að vextir skuli vera 4% og lánin til 20 ára. Þegar jeg því bar fram þetta frv., þá gat jeg auðvitað ekki verið þektur fyrir að fara hærra með vextina en þarna var gert. En hitt vil jeg taka fram, að til samkomulags mun jeg geta gengið inn á, að vextirnir verði eitthvað hærri. Er það í rauninni sanngjarnt, þegar tekið er tillit til þess, að bankavextir hafa hækkað síðan jarðræktarlögin voru samin.

Jeg vil í þessu sambandi geta þess, að mjer þótti gott að heyra, hvernig hæstv. atvrh. (MG) tók í málið. Hann hvíslaði að mjer rjett áðan, að það væri ef til vill heppilegra, að vextirnir yrðu ákveðnir þannig, að þeir væru 1 eða hærri en innlánsvextir á sama tíma, sem lánið stæði. Jeg get vel gengið inn á þetta og vona, að hv. nefnd taki það til athugunar.

Annars verð jeg að halda því fram, að þegar verið er að ákveða lánskjör landbúnaðarins, þá beri ekki að miða við þá vexti, sem nú eru alment greiddir af lánum. Þessi slæmu vaxtakjör, sem menn eiga nú við að búa, stafa að miklu leyti af skakkaföllum, sem landbúnaðurinn hefir engan þátt átt í að stofna til. Það er því engin ástæða til, að hann þurfi hjer endilega að bera „syndir annara“, og lít jeg svo á, að hann eigi fulla sanngirniskröfu til þess að njóta sjerstaklega hagkvæmra vaxtakjara.

Hæstv. fjrh. sagði, að tíminn væri óheppilega valinn til þess að koma fram með þetta mál. (Fjrh. JÞ: Það var sagt með þá vexti fyrir augum, sem ákveðnir eru í frv.). Það er vel, að svo var. Annars get jeg vel skilið slík orð hjá yfirmanni bankans, því vel má vera, að fyrir bankann sje tíminn ekki sem best valinn. En þetta er einmitt rjetti tíminn fyrir þá, sem hugsa um þörf landbúnaðarins. Og það er ekki eingöngu rjetti tíminn, heldur og nálega síðustu forvöð, því landbúnaðurinn er nú svo settur, að svo búið má ekki lengur standa.

Jeg verð að mótmæla sumu af því, sem hv. 4. þm. Reykv. (MJ) hjelt fram í ræðu sinni, — og það sterklega. Hann sagði, fullur af fjálgleik, að Alþingi gæti lagt á menn ærið margt: stóra tolla, þegnskylduvinnu, fangelsisvist, ef út af væri brugðið, og ýmislegt fleira af þessu tægi, og þetta bar hann saman við það, að landbúnaðinum sje gert fært að fá hagkvæm lán. Það lá að minsta kosti nærri að fá þetta út úr orðum hans. Jeg hygg, að enginn skilji þessa samlíkingu. enda á hún sjer engan stað.

Í sambandi við þau ummæli hv. 4. þm. Reykv., að þetta, sem farið er fram á í frv. því, sem hjer er um að ræða, sje beinn styrkur til landbúnaðarins, þá vil jeg leiðrjetta það sem beinan misskilning. Þetta er ekki beinn styrkur, nema hv. þm. (MJ) vilji segja, að það, að Reykjavík hefir setið að miklu leyti ein að seinni deildum veðdeildarinnar, sje beinn styrkur. En jeg vil í þessu sambandi halda því fram, að sje hjer um styrk að ræða, þá sje það ekki eingöngu styrkur fyrir landbúnaðinn, heldur einnig fyrir bankann, því að mikið öryggi er í því fólgið fyrir bankann, að sem mestur hluti af því fje, sem hann ávaxtar fyrir almenning, sje ávaxtaður í tryggum lánum.

Þá var enn atriði í ræðu hv. 4. þm. Reykv., að hjer sje á ferðinni tilraun eins þingflokks til að beita sínu pólitíska bolmagni í því skyni að nota sjer Landsbankann. Mjer mun veitast auðvelt að sýna fram á, að þetta er með öllu órjett og tilhæfulaust. Ef þessi hv. þm. hefði ekki vitað nema það, að jeg var flm. þessa frv., þá gat hann ef til vill álitið, að Framsóknarflokkurinn einn stæði á bak við það. En eftir það, að hv. frsm. (ÁJ) hefir talað svo vel fyrir málinu, og sömuleiðis hv. þm. Barð. (HK), og hæstv. atvrh. (MG) hefir einnig talað um það með miklum hlýleik, þá veit jeg, að hv. þm. (MJ) hlýtur að sjá það, að hjer er ekki um neitt pólitískt flokksmál að ræða. Hjer eru menn úr öllum flokkum, sem fylgjast að því að leiða þetta mál til farsælla lykta, með þörf landbúnaðarins eina fyrir augum.

Jeg þarf enga athugasemd að gera út af ræðu hæstv. atvrh. Mjer þótti mjög vænt um það, hvernig hann tók í málið. Og jeg vil taka undir með honum og beina því til landbúnaðarnefndar að leita enn samkomulags við Landsbankann um rentuna. En jeg vil jafnframt hvetja nefndina til þess að hraða málinu, því nú fer að líða á þingtímann, en áríðandi er, að málið nái fram að ganga. En því getur stafað hætta af því, ef það dregst lengi úr þessu.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) tók málinu einnig vel, og þótti mjer vænt um það, þar sem hann er eftirlitsmaður með bönkunum og hefir kynst þeim málum undanfarið. Jeg tel það góðan fyrirboða, er menn úr öllum flokkum taka málinn vingjarnlega. Jeg vil taka það fram, að jeg veit ekki betur en að tryggingarákvæði þessara laga sjeu algerlega í samræmi við tryggingarákvæði í ríkisveðbankalögunum, líka hvað snertir ábyrgðir sýslu- og sveitarfjelaga.

Loks vil jeg undirstrika þau orð háttv. frsm., að hjer er ekki um að ræða beina skipun til bankans um að leggja fram ½ milj. kr. á ári samkvæmt lögum þessum.

Jeg geri ráð fyrir því, að farið verði hægt af stað í fyrstu. En það er nauðsynlegt, að sem fyrst sje byrjað, til þess að reynsla fáist sem fyrst.