05.04.1924
Neðri deild: 43. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2131 í B-deild Alþingistíðinda. (1529)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Jón Kjartansson:

Jeg vildi leiðrjetta misskilning hjá tveimur hv. þm. í sambandi við frv. mitt um útgáfu nýs flokks bankavaxtabrjefa í veðdeild Landsbankans. Hv. frsm. landbn. (ÁJ) og hæstv. atvrh. (MG) töldu báðir, að slík lög mundu ekki ná tilgangi sínum. En jeg held, að annaðhvort sje hjer um misskilning að ræða eða þá að þeir hafa ekki lesið frv. mitt. Þar er það beint tekið fram í athugasemdunum við frv., að bankinn sje skyldur að kaupa þau verðbrjef, sem gefin verða út í þessum nýja flokki, með hæst 6–10% afföllum. Hjer má ekki blanda saman 4. flokki eða því, sem óselt er af honum, þar sem afföllin hafa verið 25–30%. Þennan misskilning vil jeg leiðrjetta, því mjer hefði alls ekki komið til hugar að flytja frv. til laga um nýjan flokk (serie) bankavaxtabrjefa með þeirri vissu, að brjefin yrðu strax í 20–90% afföllum. Jeg er ekki að setja mig á móti þessu frv.; það er síður en svo. Enda hygg jeg, að það sje nú að komast á rjettari leið. En jeg var hræddur um, að það mundi ekki ná tilgangi sínum; verða aðeins pappírslög. Og eftir síðustu orðum hv. flm. (TrÞ), er hann sagði, að hjer væri aðeins um heimild að ræða, þá óttast jeg, að svo geti farið, einkum þegar bankastjórnin er þeim mjög fráhverf, eins og komið hefir fram.

Þá var jeg hálfhissa á þeim ummælum hins háttsetta bankaeftirlitsmanns, háttv. 8. þm. Reykv. (JakM), að litlu skifti, hver vaxtakjörin væru, hvort vextir væru ákveðnir 5 eða 6 af hundraði. En það er auðvitað annað aðalatriði fyrir bankanum, að vextirnir sjeu í samræmi við eðlilega bankastarfsemi. Virðist mjer hóflegt, að þeir sjeu t. d. ½–1% fyrir ofan innlánsvexti. En þá breyting þarf að gera á 1. gr. frv., að það sje ljóst, að hjer sje um skipun, en ekki heimild eina að ræða. Annars óttast jeg, að lítil verði framkvæmd laganna.