16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2139 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Frsm. (Árni Jónsson):

Þetta mál hefir nú verið svo mikið rætt, að jeg sje ekki neina ástæðu til að halda langa ræðu að þessu sinni. Jeg vil því aðeins með fáum orðum gera grein fyrir, hvað gert hefir verið í málinu síðan við 2. umr. Eins og menn muna, þá kom fram við 2. umr. fyrirspurn til nefndarinnar, hvort hún hefði rannsakað málið til hlítar, og meðal annars hvort hún vissi allan vilja bankastjórnarinnar í þessu efni. Nefndin sneri sjer til stjórnar bankans, og var svar hennar á þá leið, að hún sæi ekki neina ástæðu til að koma fram með brtt. í málinu. Jeg hefi samt ásamt hv. þm. Str. (TrÞ) komið fram með brtt. á þskj. 396, og skal jeg víkja að henni síðar.

Eins og menn muna, hafði hv. landbn. breytt útlánsvöxtunum úr 4% í 5% við síðustu umr. Kom þá jafnframt fram fyrirspurn um það, hvort nefndin hefði leitað umsagnar bankastjórnarinnar um það, að þeir yrðu færðir upp í 6%. Nefndin hefir nú spurt bankastjórnina um þetta. Þá kom og fram till. um það að miða vextina við innlánsvexti á hverjum tíma og hafa þá ½ til 1% hærri. Þetta bar nefndin líka undir bankastjórnina. Í þriðja lagi kom nefndin fram með þá fyrirspurn til bankastjórnarinnar, hvort hún teldi gerlegt að kaupa veðdeildarbrjef fyrir 90% og að vextir væru þeir sömu og áður í veðdeild. Jeg skal nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp svör bankastjórnarinnar við öllum þessum fyrirspurnum. Þau hljóða svo:

„Ad. 1. og 2. Eins og vjer áður höfum munnlega og brjeflega skýrt hinni hv. landbúnaðarnefnd frá, sjer Landsbankinn sjer ekki fært, eins og sakir standa, að leggja fram fje til fyrirhugaðrar landbúnaðarlánadeildar. Umræddar breytingar á vaxtaákvæðum frumvarpsins geta því engin áhrif haft á aðstöðu bankans til að koma slíkri landbúnaðarlánadeild í framkvæmd.

Ad. 3. Bankinn mundi, eftir því sem honum væri fært á hverjum tíma kaupa slík veðdeildarbrjef með gengi, sem svaraði til að brjefin gefi af sjer alt að 1% hærri vexti, en innlánsvextir bankans nema á þeim tíma, er kaup eiga sjer stað.“

Í fjórða lagi átti jeg tal við stjórn Landsbankans og spurði hana, hvort bankinn sæi sjer fært að stofna búnaðarlánadeild, ef tíminn væri lengdur upp í 5 ár og legði bankinn til vissa upphæð á ári. En svar bankans var það sama og áður. Það var eitt skýrt nei við öllum spurningunum.

Jeg ætla þá að minnast stuttlega á brtt. okkar hv. þm. Str. um það, að bankinn fái eftirgefinn arð af innskotsfje ríkissjóðs í bankanum.

Eins og mönnum er kunnugt, þá eru til lög frá 1913 um það, að ríkissjóður leggi bankanum til 100 þús. kr. í 20 ár og fái af þessu fje arð eins og það væri hlutafje. Arður þessi hefir verið árlega síðan 1916 sem hjer segir:

1916 31 þús. kr., 1917 44 þús., 1918 99½ þús., 1919 97½ þús., 1920 79 þús., 1921 35½ þús. og 1922 28 þús. kr. Árið 1923 er arðurinn enginn, og spursmál hvort hann verður nokkur þetta ár, en vonandi er, að hann verði einhver. Og verði hann nú 10 þús. kr. árið 1925, þá sjáum við, að það er meira en 1% af því fje, sem bankinn á að leggja fram til búnaðarlánadeildarinnar, en það er áætlað 750 þús. kr.

Á þennan hátt er til þess ætlast, að bankinn fái uppbót á því, sem vextir búnaðarlánadeildarinnar væru lægri en almennir útlánsvextir. En eitt af því, sem bankastjórnin bar við, var það, að bank inn hefði svo dýrt starfsfje, að hann gæti ekki lánað það út með lágum vöxtum. En eftir till. okkar hv. þm. Str. gæti bankinn fullkomlega staðið sig við þessi lán, ef hann fengi þennan styrk. Aftur er sá styrkur ekki svo hár — ef hinu háa Alþingi er áhugamál að koma þessu fram, — að ríkissjóður geti ekki vel sjeð af þessum fáu þús. þau ár, sem búnaðarlánadeildin starfar, sem búist er við, að ekki verði nema 3–5 ár.

Fyrir utan þessa umræddu brtt. hefir ekkert nýtt komið fram í málinu síðan við 2. umr., og er því ekki ástæða til þess, að þessi umræða verði mjög löng. Menn eru búnir að gera upp við sig, hvernig þeir greiða atkvæði. En hvað sem líður brtt., þá vona jeg það, að frv. hafi fylgi nú eins og við síðustu umr.