01.04.1924
Neðri deild: 39. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

1. mál, fjárlög 1925

Fjármálaráðherra (JÞ):

Við framhald 1. umr. fjárlaganna hjer í deildinni gat jeg þess, að jeg mundi við þessa 3. umr. fara nokkrum orðum um fjárhag ríkissjóðs, og sjerstaklega gera nokkrar athugasemdir við skýrslu þá um fjárhaginn, sem hv. fyrv. fjrh. (KlJ) gaf í þingbyrjun.

Jeg hefi nýlega hjer í hv. deild gefið nokkurt yfirlit yfir hag ríkissjóðs, eins og hann er nú, og hefi þá talið upp allar skuldir ríkisins; ætla jeg því ekki að fara að endurtaka neitt af því, en sný mjer því að þessari skýrslu hæstv. fyrv. fjrh.

Jeg ætla þá fyrst að minnast á útreikning hans um tekjuhalla síðustu ára, frá og með 1920. — Hann segir, að við athugun á því máli hafi sjer fyrst reiknast, að tekjuhalli þriggja áranna 1920–’21 og ’22 væri um 5% milj. kr.; hann hafi ekki trúað þessu, og að við nánari athugun hafi sjer fundist, að hjer mætti draga ýmislegt frá, svo að þessi tekjuhalli kæmist niður í undir 4 milj. kr. Þá segir hann, að jeg hafi í skýrslu, sem kom fram utanþings, talið þennan tekjuhalla 7,4 milj. kr., og svo bætir hann hjer við tekjuhalla 1923, eftir bráðabirgðayfirliti sínu, 1 milj. 387 þús. kr., „eða á 4 árum minst 7½ miljón.“ Endar svo með því, að hann búist „ekki við að halli þessara fjögra ára verði minni en 5½ miljón til 8½ miljón, eftir því hvaða tölur maður tekur.“

Þessar tölur eru mjög á reiki, en svo þarf alls ekki að vera, og það er áreiðanlega hollast að horfast beint í augu við sannleikann í þessu máli. Jeg hefi utan þings gefið yfirlit yfir afkomu ríkissjóðs árin 1917 til 1922, eftir landsreikningum þeirra ára endursömdum, og af því að jeg er viss um, að sá útreikningur er rjettur hjá mjer í öllum verulegum atriðum, þykir mjer rjett að niðurstaðan af honum komi fram hjer í þinginu. Samkvæmt honum er:

Tekjuhalli 1917

kr.1953542,22

1918

— 2525340,8

1920

— 2208012,5

1921

— 2627304,6

1922

— 2617482,8

Samtals kr. 11931682,19

Hjer frá má draga tekju

afgang 1919 — 1508763,52

Mismunur tekjuhalli .. kr. 10422918,67

Hjer við bætist tap

Landsverslunar á kolum og salti — 1614104,85

Tekjuhalli alls kr. 12037023,52

Það má engan veginn sleppa síðustu upphæðinni, kola- og salttapinu, þegar tekjuhalli þessa tímabils er gerður upp. Landsmenn hafa borgað þetta tap með sjerstökum tolli á kolum og salti, sem rann inn í ríkissjóð árin 1919 til og með 1922. Ef þessum sjerstaka tolli hefði á hverju ári verið varið upp í greiðslu á tapinu, svo sem lögin mæltu fyrir, hefðu rekstrartekjur ríkissjóðs orðið þeim mun minni hvert árið og tekjuhalli hvers árs þeim mun meiri. Það er vitanlega unt að skifta þessu tapi rjett niður á árin, en slíkt hefir litla þýðingu nú eftir á; einungis mega menn alls ekki gleyma þeirri upphæð þegar gerður er upp halli tímabilsins í heild. Og það því síður, sem enn er ótalið tapið á skipakaupum og gengismunur á hinum erlendu skuldum.

Það er nú auðvelt að gera upp sjerstaklega tekjuhallann fyrir 3 árin 1920 til 1922. Hann er samkvæmt framansögðu kr. 7452809,49

Þar við bætist kola- og

salttapið 1614104.85

Samtals kr. 9066914,34

Tekjuhalli þessara þriggja ára er því yfir 9 milj. kr., en hvorki 4, 6½ eða 7,4 miljónir. Þó skal það athugað, að vera má að rúmar 126 þús. kr. af kola- og salttapinu hafi borgast inn í ríkissjóð á árinu 1919, þó að landsreikningurinn fyrir það ár sýni það ekki, og yrði þá tekjuhalli 3 ára tímabilsins aðeins tæpar 9 milj. kr.

Er unt að draga hjer nokkuð frá? Já, ef menn vilja svíkja sjálfa sig og ekki horfast í augu við svona óþægilegan sannleika, þá geta menn dregið frá. í þessum 9 milj. kr. eru innifaldar samningsbundnar afborganir lána, þannig:

1920

kr. 577141,81

1921

— 715325,52

1922

— 730149,27

Samtals kr.

2022616,60

Ef þessi upphæð er tekin frá tekjuhallanum, þá er það sama sem að ímynda sjer, að ríkissjóður geti komist af án þess að standa í skilum með samningsbundnar afborganir. Og ennþá órjettmætari verður slíkur frádráttur, þegar þess er gætt, að talsvert mikill hluti þessara afborgana er greiðsla af skipakaupalánum, en tapið á skipakaupunum er ekki meðtalið í þessum 9 miljónum.

Loks er að minnast á tekjuhallann 1923. Það var þegar sjáanlegt á þeim tíma, sem skýrslan var gefin, að hann var meiri en 1 milj. 381 þús. kr. Hann er ekki uppgerður til fulls ennþá, en verður naumast undir 2 milj. kr. Tekjuhalli 4 síðustu ára verður þá 11 miljónir, en ekki einhversstaðar milli 5½ og 8½ milj., eins og stendur í skýrslu hv. fyrv. fjrh.

Skýrsla mín um fjárhaginn, sú sem jeg gaf í fyrirlestri rjett fyrir þingbyrjun, var alveg hlutlaus. Tilgangur minn var einungis sá, að segja sannleikann um það, hvernig nú er komið, til þess að ekki yrði haldið lengra áfram á sömu braut. Hitt lá alveg fyrir utan verkefni mitt, að gera upp, hverjum þetta væri sjerstaklega að kenna. Að því er jeg veit, hafa allir tekið skýrsluna á þann hátt, sem jeg ætlaðist til, nema blaðið Tíminn. Ritstjóri þess blaðs hefir reynt að misbrúka hana til þess að ófrægja einn af stjórnmálaandstæðingum blaðsins, fyrv. fjármálaráðherra Magnús Guðmundsson, 1. þm. Skagf., og reynt að telja fólki trú um, að hann ætti sök á því öðrum fremur, hvernig komið er. Þessum ásökunum finn jeg mjer skylt að vísa á bug.

Í því sambandi vil jeg fyrst taka það fram, að ástæðan til þess að jeg vjek ekki nokkru orði að því, hverjir ættu sökina á þessu sorglega ástandi, var eingöngu sú, að jeg áleit lífsnauðsyn, að allir gætu sameinað krafta sína um viðreisn fjárhagsins, og væri því nauðsynlegt að sneiða sem allra mest hjá ágreiningi þeim, sundrung og jafnvel illdeilum, sem búast mátti við, ef farið væri að beina sökum gegn einstökum forráðamönnum eða flokkum. Ennþá held jeg, að best sje að halda sem mestum friði um viðreisn fjárhagsins, en það er vitanlega ekki unt lengur, þegar aðrir brjóta friðinn með ósönnum eða freklega ýktum ásökunum. Þó vil jeg ennþá gera mitt til að halda friði, með því að fara sem allra skemst út í deilur um þetta.

Aðalsökin á því, hvernig fjárhagnum er komið, liggur hjá þinginu, en það er aftur kjósendanna sök, hvernig þeir hafa skipað þingið og hver stefnan hefir verið þar, því að hinn ljettúðarfulli hugsunarháttur undanfarinna þinga í fjármálum hefir verið spegilmynd af samtíma ljettúð kjósendanna, og er eðlilegt að svo sje. Ef gera ætti upp milli einstakra þingmanna, þá eiga þeir auðvitað minsta sökina, sem helst hafa staðið á móti ljettúðinni. Nú sýna Alþingistíðindin það, að af öllum þingmönnum hefir Magnús Guðmundsson verið andvígur einna flestu af því, sem orðið hefir til að auka útgjöld ríkissjóðs svo langt úr hófi, sem orðið er, og fellur því einna minst sökin á hann af því, sem þingið hefir gert.

Þá er að líta á stjórnina. Sumir kunna að ímynda sjer, að hún geti tekið fram fyrir hendur þingsins í fjármálum, en svo er alls ekki, á ekki að vera og má ekki vera. Allra síst getur samsteypustjórn, sem styðst við sundurleitt og losaralegt þingfylgi, ráðið miklu um fjármál gagnvart þinginu, en þannig var aðstaðan þegar Magnús Guðmundsson kom í stjórnina árið 1920. Og alls engu getur stjórnin vitanlega ráðið um fjárlög og aðra lagasetningu, sem afgreidd er frá Alþingi áður en sú stjórn tekur við völdum, en nú stóð einmitt svo á, þegar M.G. tók við fjármálaforstöðunni, að fjárlög fyrir alt hans stjórnartímabil að kalla voru samin og sett á þingi 1919, og margvísleg útgjaldalöggjöf þar á ofan. Og um verklegar framkvæmdir árið 1920 mun hafa verið að miklu leyti afráðið þegar hann tók við. Sem fjármálaráðherra var hann því útilokaður frá því að beita sjer gagnvart þinginu um þau fjárhagsatriði, sem snertu hans eigin stjórnartíð.

En auðvitað hefir stjórnin líka verk að vinna á sviði fjármálanna utan þings. Hún er ráðsmaðurinn, sem á að halda sparlega á litlum efnum í framtíðinni. Stjórnartilhögunin með þrjá sjálfstæða ráðherra hefir gert þetta miklu erfiðara en áður.

Samanburð má þó vel gera, og liggur næst að bera saman árin 1921 og 1922. Tekjur beggja ára voru svipaðar og gjöldin einnig, tekjuhallinn sem næst alveg sá sami. En sá er munurinn, að dýrtíðin var miklu meiri 1921. Það ár var dýrtíðaruppbót embættismanna 1371/3% af launaupphæðinni, en 1922 94%; mismunurinn á föstum launum nemur á að giska ½ milj. kr. Alt verðlag á vörum, t. d. kolum, var miklu hærra 1921 en 1922, og þar af leiðandi hlaut rekstrarkostnaður skóla, spítala og annara stofnana að verða miklu hærri 1921 en 1922. Þetta hefir líka orðið svo. Laun og föst útgjöld eru miklu lægri 1922 en 1921, en önnur gjöld, sem stjórnin getur helst ráðið við, verða þeim mun hærri 1922. Magnús Guðmundsson fer mjög vel út úr þessum samanburði við næsta eftirmann sinn. Samanburð milli áranna 1921 og 1923 er ekki unt að gera fyr en síðar. Þetta, að ekki er hægt að áfella M. G. sjerstaklega fyrir ráðsmensku með landsfje, getur ekki komið neinum á óvart, sem þekkir hann, því að hann er alkunnur sparnaðarmaður.

Af skylduverkum stjórnarinnar í fjármálum vil jeg svo einungis nefna eitt til viðbótar, en það er líka eitt hið þýðingarmesta. Það er að gefa Alþingi sem allra fyrst rjettar skýrslur um ástandið, og þá sjerstaklega ef eitthvað hefir brugðist í reyndinni frá því, sem áætlað var. Jeg hefi ekki getað fundið annað en að stjórnin hafi leyst þetta sæmilega af hendi alt fram á þingið 1923. Og sjerstaklega vil jeg taka það fram um þau árin, sem Sigurður Eggerz var fjármálaráðherra, að yfirlit hans eru glögg og koma vel heim við reynsluna. Í stjórnartíð Magnúsar Guðmundssonar er þingið komið inn á þá braut, að framkvæma óarðberandi verk fyrir lánsfje, og í yfirlitum sínum telur M. G. ekki þær upphæðir beinlínis með tekjuhalla, og fylgir þar ákvörðunum löggjafarvaldsins, en alt, sem sjást þarf, kemur þó fram í yfirlitum hans.

En á þinginu 1923 skiftir um. Þá er kominn annar fjármálaráðherra, sem gefur skýrslu um afkomuna 1922, og segir meðal annars:

„Við höfum komist klaklítið yfir árið; ef afborgun af lánum er talin frá eiginlegum gjöldum, eins og vant er að gera, þó ekki sje allskostar rjett, þá er um verulegan tekjuafgang að ræða. …. Í stuttu máli er því afkoma landssjóðs þetta ár sú, að okkur hefir tekist að halda við, eða vel það; okkur hefir tekist að stansa á þeirri óðfluga ferð niður í glötun fjárhagslegs sjálfstæðis, og við höfum fengið svigrúm til þess að snúa við og reyna að halda upp á við aftur.“

Þetta er fjármálaráðherra Framsóknarflokksins, og það kemur því úr hörðustu átt, þegar aðalblað þess flokks gerist til þess að beina röngum ásökunum um þetta til M. G.

Ætla mætti, að eitt af því allra sjálfsagðasta í núverandi stjórnartilhögun væri það, að öll stjórnin fylgdist fullkomlega með í því, hvernig fjárhag ríkissjóðs er varið á hverjum tíma. En þetta hefir auðsjáanlega ekki verið stjórnarvenja þau tvö ár, sem nýlega fráfarin stjórn sat við völd. Að sjálfur fjármálaráðherrann fylgdist ekki með í febrúar 1923, er bert af framansögðu.

Og í áðurnefndri skýrslu fjármálaráðherra Klemens Jónssonar kemur önnur játning um þetta. Hann hafði verið atvinnumálaráðherra í þessu ráðuneyti frá því snemma í mars 1922, og tekur við fjármálunum í apríl 1923, og segir sjálfur, með fullri og virðingarverðri hreinskilni: „Þegar jeg tók við fjármálaráðherraembætti seint í apríl í fyrra, var mjer það ljóst, að fjárhagurinn var mjög bágborinn, en að hann væri jafnslæmur og hann var í raun og veru, hafði jeg enga hugmynd um þá, annars hefði jeg vissulega ekki tekið í mál að takast það embætti á hendur.“ Hreinskilnin er sem sagt virðingarverð; en í þessum ummælum liggur þungur áfellsdómur, bæði yfir þeirri stjórnartilhögun, sem gerir það mögulegt, að slíkt geti komið fyrir, og yfir þeirri stjórn, þar sem þetta hefir komið fyrir. Hvaða fyrirtæki getur staðist á erfiðum tímum, ef ekki er meiri aðgæsla höfð um fjárhaginn en svo, að sjálfir framkvæmdarstjórarnir vita ekki hvað honum líður?

Það eru ummæli blaðsins Tímans um fjárstjórn M. G., sem hafa knúð mig til þessara andsvara. Fleira mætti segja, en jeg vænti, að þetta nægi til að minna ritstjóra Tímans, háttv. þm. Str. (TrÞ), á það, að óvarlegt er fyrir þá að kasta grjóti, sem sjálfir hafast við í glerhúsi, og að ef blað Framsóknarflokksins vill fara að sópa fjármálagólfið, þá er best fyrir það að byrja innan sinna eigin dyra.

Jeg læt þá hjer staðar numið að þessu sinni um skýrslu hæstv. fyrv. fjrh., en ætla í þess stað að leyfa mjer að fara nokkrum orðum um þær brtt., sem jeg hefi komið með við fjárlögin.

Fyrsta brtt. mín er um greiðslurnar frá Landsversluninni, sem í fjárlögunum eru taldar í einu lagi, en jeg vil skifta þannig, að vextirnir verði taldir sjer og færðir í fjárlögunum undir þann lið, sem telur allar vaxtatekjur, en hitt verði flutt undir nýjan lið: afborganir. Hefi jeg áætlað þessa vexti 25 þús. kr., en afborganir 175 þús. kr. Orðalagið álít jeg að eigi að vera þannig um þetta í fjárlögunum, að hægt sje að færa aðrar samkynja tekjur í landsreikninginn á þennan lið. Eins og frv. er orðað, er erfitt að koma þar að afborgunum og endurgreiðslum af lánum eða andvirði seldra eigna. Þetta eru aðeins formsatriði, sem engin áhrif hafa á þessar upphæðir.

Önnur brtt. mín er sú, að koma að nýjum lið við 4. gr. 7 í fjárlögunum, um vexti af viðlagasjóði, sem áætlaðir eru 75 þús. kr. Þeir hafa að undanförnu verið færðir inn á tekjuhlið fjárlaganna og á tilsvarandi stað í landsreikningnum; en þessu var hætt árið 1920, eða þar um bil, er menn voru orðnir svo vongóðir um góða afkomu ríkissjóðs, að unt væri að láta viðlagasjóðinn vaxa með því að leggja vextina við hann. Nú er svo komið, að ríkissjóður er kominn í skuld við viðlagasjóð, en upphaflega var til þess ætlast að nota viðlagasjóðinn til þess að greiða að einhverju leyti tekjuhalla ríkissjóðs, ef á lægi. Því finst mjer þetta vera tilgangslaust form eitt, að láta viðlagasjóð vera að vaxa, en ríkið að taka svo lán úr honum. Því legg jeg þetta til um vextina af honum, að þeir verði færðir með öðrum vaxtatekjum ríkissjóðs.

Fjórða brtt. mín, við 9. gr. 1, um alþingiskostnað, er afleiðing af því, að þessi liður er of lágt áætlaður ella í fjárlagafrv., ef hann fær að standa óbreyttur. Það hefir komið til orða í þinginu hvað eftir annað að spara eitthvað af þessum lið, og nú nýlega var felt hjer í deildinni frv. um niðurfellingu á prentun umræðuparts Alþingistíðindanna. Þetta hefir verið mismunandi upphæð á hverju ári; sum árin hefir verið spart á haldið og kostnaðurinn verið milli 20–30 þús. kr. árlega. Jeg verð að segja, að mjer sýnist vera full ástæða til að fella fremur niður prentun umræðupartsins og spara þau útgjöld en að færa þennan lið upp, eins og annars verður að gera, svo að áætlunin geti staðið í stað, eins og að undanförnu. Jeg hefi auk þess ekki heyrt færðar fram neinar ástæður móti þessu, sem jeg get talið á rökum bygðar, nema ef vera skyldi að þetta væri hið sama og að loka þinginu fyrir almenningi, ef prentuninni yrði hætt. Jeg geng út frá því að yrði hætt að prenta umræðurnar, þá myndi verða meiri stund lögð á það, að vanda nál. um málin. Og það vita menn, að þegar menn sitja í næði og færa röksemdir sínar á pappírinn, þá þurfa þeir minna rúm til þess en í mæltu máli. Nú er það svo, að sami ræðumaðurinn margendurtekur venjulega sömu ástæður í sama máli, og slíkar rökræður fara fram í báðum deildum, hvorri á eftir annari. Því verður ekki hjá því komist, að lítið þarfar endurtekningar verði bornar á borð fyrir lesendur Þingtíðindanna. Því held jeg, að bæði þingi og landsmönnum væri það hagkvæmara, ef ástæðurnar með og móti væru settar fram í stuttu máli, en skýrt og greinilega, í nál. Þannig myndi, að minni hyggju, nást, auk sparnaðarins, betri vinnubrögð og miklu frambærilegri Alþingistíðindi. Nú er það svo, að dagleg útgjöld kjósenda til ríkisins eru um 30 þús. kr. hvern virkan dag. Myndi það verða vel þegið. ef þingið, með því að fallast á þetta og með því að koma þingfararkaupi í svipað horf og það var 1912, sparaði landsmönnum 30 þús. kr. og gæfi þannig landsmönnum einn virkan dag, svo þeir mættu sjálfir njóta arðsins af vinnu sinni þann dag. Því hefi jeg hreyft þessari till. í aths. við fjárlögin. Gildir þetta auðvitað fyrir það eina ár, sem fjárlögin ná yfir.

Fimta brtt. mín fer fram á, að í stað 100 þús. kr. veitingar úr ríkissjóði til landhelgisgæslunnar komi 50 þús. kr. úr honum, gegn jafnmiklu framlagi úr landhelgissjóði. Árið 1923 var sjóður þessi orðinn um 1 milj. kr. á pappírnum, en eins og kunnugt er orðið, hefir ríkissjóður tekið hann að láni. Þannig eru vextir af honum meiri en sem þessari upphæð nemur. Auk þess vex hann mjög ört fyrir sektarfje, sem hefir numið á annað hundrað þúsund krónum á ári, og meira sum árin. Því er hann sem best orðinn þess megnugur að taka þátt í kostnaðinum af landhelgisgæslunni. enda myndi honum ekki verða það arðlaus eyrir, því lítill vafi er á því, að honum myndi áskotnast sæmilegar tekjur við strangari strandgæslu fyrir það framlag. Enda er þetta fyrirkomulag líka viðkunnanlegra heldur en að demba öllum kostnaðinum á ríkissjóð, sem ekki er betur staddur en svo, að hann verður að fá landhelgissjóðinn að láni.

Að lokum vil jeg leyfa mjer að þakka háttv. fjvn. fyrir það, að hún hefir tekið til greina tilmæli mín um, að teknar yrðu upp í fjárlagafrv. þær greiðslur samkvæmt þingsályktunum og eldri lögum, sem ætlast er til, að greiddar skuli verða. Er þetta nauðsynlegt, ef fjárlögin eiga að verða rjett mynd af tekjum og gjöldum. Auk þessa er það mikill styrkur fyrir hverja þá stjórn, sem með framkvæmdavaldið fer, að vita, hvað þingið ætlast til, að greitt sje eða ekki greitt. En það getur oft verið álitamál, þegar t. d. um greiðslur samkvæmt gömlum þingsályktunum er að ræða og sem settar voru undir alt öðrum ástæðum en þeim, sem síðar eru fyrir hendi.