16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2153 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Halldór Stefánsson:

Bæði við þessa umr. og fyrri umr. hafa komið fram fyrir hönd bankans aðvaranir frá hæstv. fjrh. (JÞ) og hv. 4. þm. Reykv. (MJ). Hafa þeir haldið því fram, að með þessu frv. væri verið að leiða starfsemi bankans inn á braut, sem væri ósamrýmanleg við hyggilega og eðlilega bankastarfsemi. Það væri þess vegna ekki úr vegi að gera í fám orðum grein fyrir tilgangi bankans og athuga, við hvaða rök álit hæstv. fjrh. og hv. 4. þm. Reykv. hefir að styðjast.

Hinn eðlilegi tilgangur bankans er fyrst og fremst að styðja hlutfallslega jafnt að framgangi og velgengni aðalatvinnuvega landsins, landbúnaðar og sjávarútvegs. Mun og svo vera fram tekið með almennum orðum í lögum um starfsemi bankans.

En hvernig hefir svo þessara ákvæða verið gætt! Um það kom fram fyrirspurn á þinginu í fyrra, en henni mun ekki hafa verið svarað enn. Eigi að síður er það á almanna vitorði, að bankarnir hafa beitt fjármagni sínu hlutfallslega mjög misjafnt til þessara tveggja atvinnugreina. Afleiðingin hefir orðið algert misræmi í vexti atvinnuveganna, framfarir landbúnaðarins ekki haldist í hendur við framfarir sjávarútvegsins, en það er í vissum skilningi sama sem afturför á sviði landbúnaðarins; að fylgjast ekki með í framförum og samkeppni við aðrar atvinnugreinar er í þessum skilningi sama sem afturför.

Í frv. er þess vegna ekki gengið á rjett bankans, heldur aðeins krafist þess, að hann hjer eftir uppfylli betur skyldur sínar við landbúnaðinn en hingað til, því að það er ljóst, að undir því er komin alhliða framför þjóðarinnar í framtíðinni.

Að varhugaverðara sje að lána landbúnaðinum en öðrum atvinnugreinum, get jeg ekki sjeð eða viðurkent. En hitt er satt, að lán til hans verða að vera til langs tíma og geta ekki orðið eins arðvænleg og önnur lán.

Þetta mun og einmitt vera ástæðan til þess, hvernig bankinn hefir varið starfs fje sínu. Hann hefir gætt meira sinna eigin hagsmuna en hagsmuna þjóðarinnar í heild sinni. Og þar sem hann hefir þannig hagað starfsemi sinni sem mest í gróðaskyni, mætti ætla, að hagur hans stæði með þeim blóma, að honum ætti ekki að veitast örðugt að láta það fje í tje, sem fram á er farið í frv. En það virðist svo, sem gróðabrallsleiðin hafi ekki reynst eins heppileg og ætla hefði mátt. Er vafasamt, að hagur bankans hefði staðið ver, þó að hann hefði lagt meira af mörkum við landbúnaðinn en hann hefir gert — eða hvort hann yrði verri framvegis, þó að breytt yrði það um starfsháttu, sem gert er ráð fyrir í frv. Tel jeg það því alls ekki órjettmæta íhlutun eða á nokkurn hátt varhugavert eða að ganga á rjett bankans, þó að þess sje krafist, að hann gæti skyldu sinnar við landbúnaðinn.

Hjer hafa verið höfð stór orð um það, að verið væri að ráðast á bankann; þetta væri blátt áfram tilræði við hann. Þetta er fráleit fjarstæða og ekki svara verð. Það hefir tvent verið talið til, sem gerði bankanum erfitt fyrir með að veita þessi lán; hið fyrra er það, að vextirnir væru áætlaðir of lágir af lánunum, og hitt annað, að bankinn hefði ekki fjármagn til. Nú er komin fram tillaga frá hæstv. atvinnumálaráðherra um að sveigja til um vaxtakjörin, og verði sú tillaga samþykt, er sú ástæða ekki lengur til, enda ef litið er á starfsfje bankans, þá sjest, að hann hefir mikið starfsfje til, sem er ódýrara en þetta. Það er og vitanlegt, að alla þá seðla, sem Landsbankinn dregur úr umferð, leggur hann á lægri vöxtu en þetta í Íslandsbanka, og er engu líkara en að það sje gert til þess að komast hjá því að gera skyldu sína gagnvart landbúnaðinum.

Áður en jeg lýk máli mínu vil jeg aðeins drepa lítið eitt á orð háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) við 1. umr. þessa máls. Honum þótti í þessu frv. vera of lítið tillit tekið til stofnunar nýbýla, en það er ekki svo. Að forminu til eru lán til nýbýlastofnana talin jafnfætis öðrum búnaðarlánum, og veit jeg ekki til, að nýbýlalánin hafi meiri þýðingu eða eigi að teljast rjetthærri en aðrar tegundir lána, sem upp eru talin í frv. Nú sem stendur er landbúnaðinum mikil þörf á fje til varanlegra húsabóta, og er sú þörf svo brýn, að yfir vofir, að hús falli niður og bygð falli í auðn víða um land, ef ekki er kostur á fje til að byggja upp bæina að varanlegum húsakynnum. Ef bygð býli falla í auðn, verður landbúnaðinum meira tjón að því en sem nema mundi þeim ávinningi, er vænta mætti af nýbyggingu jafnmargra nýbýla. Fjárskorturinn er aðalorsök þess, að mörg býli hafa á undanförnum árum lagst á auðn. Það hafa að vísu til þessa mest verið heiðarbýli, sem eru svo að segja á takmörkum þess, sem talið verður ræktanlegt af landinu. Og aðalástæðan er sú, hvað bæirnir eru óvaranlegar byggingar. Þegar þar hafa búið fátækir einyrkjar — sem oftast er — sem ekki hafa getað haldið híbýlunum nægilega við, þá gátu þeir ekki haldist þar við eftir að húsin voru komin að falli eða fallin. Og engir hafa fengist til að taka þessi býli til rekstrar upp á þá kosti að byggja þau að húsum af nýju, enda hvergi að leita að fjármagni til þess. Þetta hefir — að minni meiningu — verið aðalástæðan til þess, hvað mörg býli hafa lagst í eyði hjer á landi, og án stuðnings fjármagnsins vofir sama hætta yfir mörgum býlum, sem enn eru í ábúð. Ef landbúnaðinum verður enginn kostur gerður á hæfilegum lánum til þessa, getur afleiðingin vel orðið sú, að smátt og smátt leggist ótal fleiri bæir á auðn, en fólkið verði að flytjast þaðan í kaupstaðina, og sje þegar of margt þar fyrir nú, verður vandinn ekki minni að sjá öllum fyrir atvinnu í kaupstöðunum, ef fleira atvinnulaust fólk bætist við í þá en nú er þar. Nú hafa bankar vorir lagt fram fjármagn sitt til að byggja upp kaupstaðina svo að við má hlíta. Nú verður að krefjast þess, að þeir snúi sjer að því að byggja upp sveitirnar á sama hátt með varanlegum byggingum.