16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2159 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Frsm. (Árni Jónsson):

Jeg ætla að byrja mál mitt með því að þakka hæstv. atvrh. (MG) góðar undirtektir við þetta mál. Mátti og búast við því úr þeirri átt, er hann er allra manna kunnugastur högum landbúnaðarins og skilur því best þarfir hans. Það var því vel vitanlegt fyrirfram, að hann mundi ekki leggjast á móti því, að bætt yrði úr órjetti þeim, er landbúnaðurinn á við að búa í fjármálunum. Hann veit það og vel, að þeir 40% af íslensku þjóðinni, sem landbúnað stunda, hafa alls engan aðgang að velt fje bankanna á móts við aðra atvinnuvegi í landinu, t. d. sjávarútveginn. Lánsfje það, sem landbúnaðurinn hefir notið, hefir varla náð því að vera 15% af veltufje bankanna; þess vegna var það mjög eðlilegt, að hæstv. atvrh. tæki vel í þetta mál. Hæstv. atvrh. hefir komið fram með brtt. við frv., um að hækka vextina, þannig, að þeir verði alt að 1% hærri en venjulegir sparisjóðsvextir. Jeg lýsi því hjer með yfir, fyrir mína hönd og háttv. þm. Str. (TrÞ), flm. frv., að við viljum til samkomulags sætta okkur við þessa brtt. hæstv. atvrh., og tökum við því aftur brtt. okkar á þskj. 396. Og það er enginn skrípaleikur, sem við leikum með þessu; við viljum gera landbúnaðinum gagn með því að koma þessu frv. í gegnum þingið, og viljum því gera okkar til, að það nái að ganga fram. En sá, sem brigslar okkur, hv. þm. Str. og mjer, um það, að við sjeum að leika hjer skrípaleik með þetta frv. okkar, er sjálfur sá, er hjer hefir fyrstur framið skrípaleiki í þinginu um þetta mál, hv. þm. V.-Sk. (JK); hann hefir leitt asnann inn í herbúðir þingsins í þeim efnum. Hann hjelt innreið sína inn í þessa hv. þingdeild keikur mjög á ösnu sinni, og skal jeg ekki öfunda hann af þeirri útreið, sem hann fær hjer. Hann er fulltrúi fyrir landbúnaðarkjördæmi og telur sig vera hlyntan landbúnaðarmálum, — en til hvers er hann að lýsa slíku yfir, er hann legst á móti jafnsjálfsögðum umbótum sem þeim, er þetta frv. felur í sjer! Hann er að fjargviðrast yfir því, að jeg leggi minst upp úr því í brjefi bankastjórnarinnar, sem jákvætt hafi verið, en jeg legg jafnmikið eða lítið upp úr öllu brjefinu jafnt. Þetta eru aðeins skrípalæti hjá hv. þm. Bankinn segir, að hann muni kaupa veðdeildarbrjef „eftir því sem hann sjái sjer fært.“ En hver myndi neyða hann til þess að kaupa þau, ef hann þættist ekki „sjá sjer það fært“? En sú leið, sem þetta frumvarp leggur til að farin verði í þessu máli, er miklu heppilegri, vegna þess að þá eru hendur bankans bundnar í þessum efnum, ef frv. verður samþykt. Bankinn verður að veita þessi lán. Þungamiðjan í þessu öllu er að fá það lögfest, hvort löggjafarvaldið eigi að hafa íhlutunarrjett um rekstur bankans. Mundi t. d. þingið ekki hafa íhlutunarrjett um það, ef stjórn Landsbankans tæki einhverntíma alt fje bankans og legði það í Íslandsbanka? Eða ef bankastjórnin hækkaði vextina einn góðan veðurdag upp í 15% eða 20%? Þetta er þungamiðjan, mergurinn málsins. Er það tilgangur þeirra manna, sem fylgja bankanum að málum, að sá atvinnuvegurinn, sem þjóðinni hefir happadrýgstur verið og tryggastur er fyrir þá, sem hann stunda, verði útundan hjá lánsstofnunum ríkisins!

Hæstv. fjrh. (JÞ) hefi jeg litlu að svara, því þar hefir hv. þm. Str. (TrÞ) tekið af mjer ómakið. Hæstv. fjrh. kvaðst ekki leggja mikið upp úr tölum þeim, sem jeg las upp; hundraðstalan breyttist samkvæmt innskotsfje því, sem bankinn hefði frá ríkissjóði, og er það rjett. En það er þá ekki neitt á móti því, að hv. þm. fái að heyra, hvaða arð ríkissjóður hefir fengið af fje sínu síðan árið 1916. Að vísu eru þessar upphæðir ekki alveg nákvæmlega rjettar, en sem næst því þó, og hefir arðurinn verið sem hjer segir:

Árið 1916 ca

.... 10 %

— 1917 — ....

.... 11 —

— 1918 — ....

.... 20 —

— 1919 — ....

.... 15 —

— 1920 — ....

.... 12 —

— 1921— ....

.... 5½ —

— 1922 — ....

.... 3 —

Þá hjelt hæstv. fjrh. því fram, að ef þessi brtt. okkar kæmist fram, gæti svo farið, að bankinn hefði mjög háar vaxtatekjur af þessu, jafnvel alt að 10%, — en þetta er misskilningur. Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir, að bankinn leggi í búnaðarlánadeildina fyrsta árið um 250 þús. kr., en 2 næstu árin leggi hann fram 500 þús. kr. hvort árið, eða alls um 1% milj. kr. Annars hafa þessar umræður snúist fullmikið um þessa till., sem nú er búið að taka aftur, og því ætti atkvgr. að geta farið bráðlega fram um þetta mál.