16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2162 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Pjetur Ottesen:

Jeg hefi ekki ætlað mjer að lengja mikið þessar umr., en vil þó taka það fram, að þar sem allir virðast hjer vera ásáttir um, að hjer sje nauðsynjamál mikið á ferðinni, þar sem rætt er um að koma upp lánsstofnun fyrir landbúnaðinn, sem, eins og þegar hefir verið margtekið fram, er að heita má frásneiddur því að eiga athvarf hjá þeim lánsstofnunum, sem hjer hafa starfað til þessa, þá virðist mjer það fyrirkomulag, sem stefnt er að með þessu frv., einmitt vera spor í rjetta átt. Það, sem þetta frv. byggir aðallega á, er það, að Ríkisveðbankinn, sem stofnaður hefir verið að lögum, mun í næstu framtíð ekki komast lengra en á pappírinn, og er því lagt til að leysa úr málinu á þennan hátt, sem frv. segir fyrir um. Það er nú svo komið um þá einu lánsstofnun, sem búandmenn hafa átt aðgang að og oft hefir orðið að liði — Ræktunarsjóðinn —, að allmikið af handbæra fje hans hefir nú verið bundið í fyrirtæki, sem með miklum sannindum má segja, að sje að mörgu leyti mishepnað fyrirtæki, þúfnabönunum, og er mönnum því að mestu bægt frá að leita athvarfs þar, eins og nú standa sakir, af þeim ástæðum. Þegar þetta hvorttveggja er lagt saman, að Ræktunarsjóðurinn getur nær enga úrlausn veitt, og engin von til, að ríkisveðbankalögin komi til framkvæmda á næstunni, þá sjá allir, hver nauðsyn er hjer fyrir hendi, að einhver bót sje á ráðin. Því hefir verið haldið fram, að þýðingarlaust mundi að samþykkja þetta frv., þar eð það yrði aldrei nema um pappírslög að ræða, og byggist þetta á mótmælum bankastjórnarinnar gegn frv., sem færir það til, að bankinn hafi ekki handbært fje til þess að lána bændum. En jeg fæ ekki betur sjeð en það hafi þegar verið færðar gildar ástæður, rökstuddar með reikningum Landsbankans sjálfs, fyrir því, að bankanum sje þetta alls ekki um megn, og því fæ jeg ekki skilið rök þeirra manna, sem mæla gegn því, að frv. verði samþykt. Annars geri jeg mjer miklar vonir um, að frv. þetta nái fullkomlega tilgangi sínum, ef það verður samþykt, og byggi jeg það á því, að það er alkunnugt, að hæstv. atvrh. (MG) er mjög eindregið hlyntur landbúnaðinum og ber heill og hag hans fyrir brjósti, og þykist jeg því vita, að hann muni neyta aðstöðu sinnar sem atvinnumálaráðherra og beita öllum sínum áhrifum gegn Landsbankanum til þess að ákvæðum frv., ef það verður samþykt, fáist framgengt. Það er auk þess kunnugt, að hæstv. fjrh. (JÞ) hefir sterka trú á framtíð landbúnaðarins og hefir verið því hlyntur, að á stofn kæmist lánsstofnun, sem landbúnaðinum kæmi að gagni. Hitt er honum vorkunnannál, þótt hann, er um er að ræða hagsmuni bankans, standi í ístaðinu með Landsbankanum, þar sem honum sem fjrh. ber að hafa yfirumsjón bankans og vera á verði um hann. Þegar þetta hvorttveggja er athugað, veit jeg, að takast muni fyrir atbeina stjórnarinnar að koma þessari landbúnaðardeild á stofn í Landsbankanum og tregðulausri framkvæmd þessara laga, sem óefað verður landbúnaðinum að verulegu gagni. Það má að vísu segja, að þessi upphæð sje ekki svo stór, að hún komi að miklu gagni þegar í byrjun; en það má um það segja, að mjór er mikils vísir og hálfnað er verk þá hafið er. Landbúnaðarlán eru meðal þeirra tryggustu lána, sem þessi banki getur veitt, og því er það fullvíst, að bankinn bíður ekki halla af því að veita þessi lán, en landbúnaðinn munar þetta allmiklu, þótt ekki sje um stærri upphæð að ræða þegar í byrjun. Brtt. 396 hefir verið tekin aftur, og þarf því ekki að ræða hana, en um hina skriflegu brtt. hæstv. atvrh. virðist mjer, að vaxtakjörunum sje með henni stilt mjög í hóf, og þarf þá bankinn engu að tapa við það, þegar þess er gætt, hversu tryggingarnar eru góðar og að engu fje bankans er með þessu teflt í óvissu.

Háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) hefir lagst mjög á móti þessu máli, en jeg þarf ekki að svara honum mjög miklu, vegna þess, að það hafa aðrir þegar gert. Hann taldi frv. vera tilræði við bankann og sagði, að erlendir fjármálamenn væru glöggir á að sjá annmarkana á starfsháttum bankans. En jeg tel þetta enga annmarka vera, þó að bankinn leggi fje í þessi lán; jeg hygg og, að engir erlendir fjármálamenn, sem hjer þekkja nokkuð til staðhátta á annað borð, muni álíta það á nokkum hátt ótrygt, að bankinn beini starfsfje sínu inn á þessa braut. Jeg hygg, að álit þeirra verði alveg gagnstætt því, sem háttv. 4. þm. Reykv. hjelt fram. Jeg mun því ljá þessu frv. atfylgi mitt, og jeg teldi það vera mikinn ávinning fyrir landbúnaðinn, ef þetta frv. gæti orðið afgr. sem lög frá þessu þingi.