16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2167 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Út af orðum hv. frsm. (ÁJ) og fleiri um það, að bankanum sje eins fært að leggja þetta fje fram til lánveitinga eins og að kaupa veðdeildarbrjef landbúnaðarlánveitinga, þá vil jeg benda á, að þetta er hinn mesti misskilningur. Það er einmitt mjög mikill munur á því, hvort hann lánar fje út eða kaupir veðdeildarbrjefin, því lánin borgast í flestum tilfellum ekki inn fyrri en áskilið er í skuldabrjefinu, þ. e. eftir 20–30 ár; en bankinn getur selt brjefin aftur, þegar honum býður svo við að horfa. En sjerstaklega á þetta við um banka, sem ætlar að taka að sjer seðlaútgáfu ríkisins. Slíkur banki á ekki og má ekki veita lán til langs tíma. En Landsbankanum er heimilt að hafa nokkuð af fje sínu í skuldabrjefum og öðrum auðseldum verðbrjefum. Því er ekki nema eðlilegt, að hann kjósi fremur að kaupa brjefin en að veita lánin. Annars er ekki gert ráð fyrir því í frv., að bankinn sje bundinn við ákveðna upphæð til þessara lánveitinga, heldur verður það undir áliti bankastjórnarinnar, hvort og hvað mikið fje hún vill festa á þennan hátt. Af þessum ástæðum yrði þessi lagasetning í sjálfu sjer ekkert annað en pappírsgagn, einkum eftir að bankastjórnin hefir tjáð sig mótfallna frumvarpinu.

Háttv. 1. þm. N.-M. (HStef) talaði um innstæðufje Landsbankans í Íslandsbanka og gaf það í skyn, að Landsbankinn væri að svíkjast undan skyldu sinni við landbúnaðinn með því að leggja fje inn í hinn bankann með lágum vöxtum. Þetta eru mjög óviðeigandi ummæli. Maður verður að gæta þess, að banki með 20 milj. kr. í sparisjóðsfje verður að hafa stóran sjóð; má hann minstur vera sem nemur 7%, en helst ekki minni en 10% af innstæðufjenu. Þetta vita allir menn, sem skyn bera á bankastarfsemi, og þá er það og ljóst, að bankanum er betra að hafa fjeð á vöxtum, þó lágir sjeu, en liggja með það í kassanum. Hitt má vera, að bankinn hafi meira fje í Íslandsbanka en það, sem hjer er talið nauðsynlegt, og eiga því ummæli mín ekki við það, sem umfram kann að vera.

Hv. þm. hafa talsvert rætt um íhlutunarrjett löggjafarinnar um mál bankans. Og er það auðvitað í aðalatriðum rjett, að bankinn er undir ríkisvaldið gefinn og verður að hlíta boðum þess. En hinsvegar má búast við því, að verði gengið mjög á móti ráðum bankastjórnarinnar í mikilvægum málum, þá skoði hún það sem vantraust og fari frá bankanum, því í slíkum ábyrgðarstöðum eiga menn að hafa sannfæringu og standa við hana.

Jeg sje ekkert því til fyrirstöðu að frv. til veðdeildarlaga gangi fram. Geri jeg ráð fyrir, að bankinn, af þeim ástæðum, sem jeg tók fram áður, telji sjer frekar fært að kaupa veðdeildarbrjef en að veita lán. Að minsta kosti er það auðsætt, ef bankinn á að verða aðalseðlabankinn. Og mjer dylst ekki, hversu það er heppilegra fyrir bankann að styrkja landbúnaðinn á þann hátt. Fer það auðvitað eftir hag bankans í hvert skifti, hvað mikið hann getur keypt af þessum brjefum, en jeg hygg, að hann hafi altaf nokkurt fje fyrirliggjandi í því skyni. Og kunnugt er mjer, að hann hefir síðan á nýári keypt veðdeildarbrjef fyrir 300–400 þús. kr. Og sæi bankinn sjer framvegis fært að kaupa brjef veðdeildarinnar, eða þann hlutann, sem stafar af landbúnaðarlánveitingum, svo vextir með afföllum yrðu yfir 6%, þá teldi jeg þessu máli betur borgið á þann hátt, meiri líkur fyrir, að lán yrðu veitt í þessu skyni.