16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2173 í B-deild Alþingistíðinda. (1556)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Jón Sigurðsson:

Út af síðustu ummælunum vil jeg skjóta því til ritstjóranna, hvort þeir vilji ekki velja sjer annan stað til sinna ritstjórnardeilna. Við höfum sannarlega annað þarfara með tímann að gera en hlusta á deilur um mál, sem hvorki eru þingmál eða koma okkur við, og þar sem báðir hafa blaðakost, sýnist þeim innanhandar að snúast þar gegn hvor öðrum og þjóna þannig lund sinni.

Jeg vil svo víkja örfáum orðum að frv. því, sem hjer liggur fyrir, sjerstaklega af því, að jeg hefi ekki fyr neitt um það rætt.

Það er helst haft á móti málinu af hálfu bankanna og andstæðinga frv., að bankamir geti ekki lagt fram neitt fje í þessu skyni. Jeg vil ekki rengja, að svo sje; brestur kunnugleik og býst jafnvel við, að svo sje. En eitt er víst, að af öllum þeim miljónum, sem Landsbankinn hefir fengið til umráða, hefir aðeins örlitlum hluta verið varið til landbúnaðarins. Og þrátt fyrir þetta snýst Landsbankastjórnin öndverð gegn þessum óverulegu kröfum okkar bændanna og segist ekki geta lagt ¼ milj. kr. á ári til annars aðalatvinnuvegarins. En hann hefir þó getað lánað einstaklingum, sem alment eru taldir eignalausir, svo tugum þúsunda króna skiftir, já, t. d. 60–70 þús. kr. til eins slíks manns síðastliðið ár til húsabygginga. Og í fyrra hafði bankinn ráð á að fara að gera tilraunir með húsabyggingar og húsabrask hjer í Reykjavík. Og nú síðast hefir hann bygt stórhýsi, sem kostar nær 1 milj. kr. og er þannig úr garði gert, að okkur, sem komum úr sveitunum, ofbýður skartið og tildrið, þegar inn í það er komið. Já, þetta hefir bankinn getað gert, en hann hefir ekki getað lánað landbúnaðinum.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta mikið frekar, en jeg get búist við því, eftir undirtektum bankans, að þessi lög verði ekki annað en pappírslög; en jeg tel þó skylt að samþykkja þau. Því samþykt frv. má skoða sem skýlausa kröfu þingsins um það, að landbúnaðurinn sje ekki afskiftur eins og hingað til. Og í öðru lagi skoða jeg samþykt þessa frv. sem hreina og beina vantraustsyfirlýsing á stjórn Landsbankans undanfarin ár í þessu efni, og hana tel jeg, að hún verðskuldi. Af þessum ástæðum greiði jeg hiklaust atkv. með frv.