16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2174 í B-deild Alþingistíðinda. (1557)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Magnús Jónsson:

Það er nú auðsjeð, hvert straumurinn ber, og ekki til neins mun vera að andæfa. Í þetta sinn á annar aðalatvinnuvegurinn hjer flesta formælendur, næst kynni það að vera hinn og svo einhver annar, og mætti þannig skifta bankanum í ótal deildir þegar frá líður.

Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að hann skildi ekki í því, að Landsbankinn vildi ekki leggja fje til landbúnaðarins, því að það væru tryggustu lánin. Það eru ýkjur, að hann hafi ekkert gert í því efni. En þegar verið er að tala um þetta, þá er altaf borinn saman fólksfjöldinn, sem lifir á landbúnaði og sjávarútvegi, en ekki hve mikið fjármagn liggi í hvorum um sig. Jeg býst við, að ef það væri borið saman, þá sæist, að landbúnaðurinn hefði fengið nokkurnveginn sinn hluta. Það er að heyra svo, sem Landsbankinn sje með fjandskap gegn sveitunum. Stundum hefir annað heyrst. Og geta má þess, að Landsbankinn stofnar útibú á Selfossi um leið og Íslandsbanki stofnar útibú í Vestmannaeyjum. Þetta sýnir að nokkru stefnur bankanna. Íslandsbanki hefir hallað sjer meira að sjávarútveginum, en Landsbankinn að landbúnaðinum. Hjer er heldur ekki verið að ræða um það, hvað Landsbankinn leggur til landbúnaðarins, heldur um hitt, að stofna sjérstaka deild við bankann móti vilja bankastjórnarinnar.

Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að hæstv. fjrh. (JÞ) hefði verið á móti mjer í meginatriðinu. En þetta er nú misskilningur hv. þingmanns. Hæstv. fjrh. sagði, að það kæmi ekki bankanum við, þó stofnuð væri ný deild. Jeg er því sammála, en það kemur bankanum við, þegar honum er skipað að leggja nokkurn hluta af fje sínu í þessa deild. Við hæstv. fjrh. erum alveg sammála.

Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að frá 1885 hafi bankinn verið undir valdi þingsins. Þetta er rjett; en jeg hygg, að þetta hafi einmitt valdið bankastjórninni erfiðleikum, þegar hún var að leita láns, og að þess vegna hafi bankastjórnin einmitt farið fram á, að bankinn yrði gerður að hlutabanka. Jeg get hugsað mjer, að það eitt, að bankinn er ríkisstofnun, veki grunsemd hjá erlendum lánveitendum um, að óheppileg íhlutun ríkisvaldsins kunni að eiga sjer stað, eins og jeg gat um áður, og þeir verði því tregari til að lána fje af því þeir þora ekki að treysta því, að pólitískir flokkar kunni ekki að „disponera“ yfir fje bankans. Að minsta kosti ætti þetta að sýna, hve nauðsynlegt er, að þingið fari hjer varlega. Það er rjett, að hjer er ekki verið að tala um að sletta sjer fram í dagleg störf bankastjórnarinnar. Þó ekki væri. En það er samt að „disponera“ yfir fje bankans, þegar skipa á honum að leggja fram nokkuð af fje sínu í ákveðnum tilgangi, og það þrátt fyrir skýlausa yfirlýsing bankastjórnarinnar. En þetta er einmitt eitt aðalstarf hennar, að ákveða, hvernig fjenu skuli varið. Geta þá bankastjórarnir svarað því utanlands, að engin íhlutun eigi sjer stað af hálfu þingsins um bankastjórnina? Jeg hygg ekki.

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) var eins og aðrir — því ræðurnar voru allar eins og ein ræða fjölrituð — að tala um það, að meira fje gengi til útvegsins en landbúnaðarins. Náttúrlega. Útvegurinn þolir oftast hærri vexti, og því kann að vera, að hann hafi sest að meiru fje en heppilegt væri. Hitt er og sagt, að bankinn geti sætt sig við lægri vexti af landbúnaðarlánum, því þau væru tryggari. Þetta er rjett — en bankastjórnin verður að haga útlánum sínum eftir venjulegum bankareglum. Ef bankinn er rekinn sem „business“, verður bankastjórnin að fá að ráða því, hvaða lán hún veitir til tryggari atvinnurekstrar og hvað til hins, sem ekki er jafntryggur, og hún verður að meta, hve miklu þetta getur numið fyrir bankann, hve mikið bankinn getur ívilnað í vöxtum í notum þess, að lánin sjeu sjerstaklega trygg. Þegar það vald er af henni tekið, er hætt að reka bankann sem „business“, og það er miklu hættulegra en þótt bankinn tapi nokkrum krónum á vöxtum.

Nei! Ef hv. þm. vilja styðja landbúnaðinn, þá eiga þeir að gera það með því, sem þeir hafa ráð á, ríkissjóðnum. Ef hann er uppjetinn, verða þeir að sætta sig við það, og þeir ættu að þakka fyrir, að eitthvað er til, sem ekki er hægt að jeta upp. Jeg stend við það, sem jeg hefi sagt, — þetta er tilræði við bankann.

Hv. 1. þm. N.-M. kom síðan að því fje, sem Landsbankinn á í Íslandsbanka, og svo mintist hver á það af öðrum. Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) sagði, að þar væri einmitt fje til þessa, og hafði eitthvað eftir tveim merkum þm. um það, sem var tóm staðleysa.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) hefir nú skýrt frá þeim mun, sem það er fyrir bankann að hafa þetta fje þarna eða í lengstu lánum, sem til eru. Þarna er það í sjóði, þar sem hægt er að grípa til þess. Hv. 2. þm. Eyf. efaðist um, að það væri handbært þar. Það er bankans mál. En líkindi eru til, að Íslandsbanki þurfi ekki annað en að gefa út meiri seðla til að gjalda það. En látum bankastjórnirnar kljást um það. En það er önnur hlið á máli þessu. Bankinn þarf að hafa þetta fje í Íslandsbanka, en ekki geyma það sjálfur, vegna þess, að hann þarf að „dekka“ með því það, sem hann í yfirfærslum dregur á aðra banka erlendis. Hv. þingmönnum hlýtur öllum að vera það kunnugt, að þegar banki „yfirfærir“ fje, þá sendir hann ekki fjeð, heldur er það borgað inn hjer, en hann dregur aftur á erlenda banka tilsvarandi upphæð í viðskiftabanka sínum erlendis. Eigi hann nú ekki inni þar, hækkar skuld hans, og það er viðurkent, að það sje ekki heilbrigt, að bankinn dragi meira á erlenda banka en það, sem hann getur sýnt, að hann eigi inni í öðrum banka hjer. Og sjóðurinn í Íslandsbanka er einmitt miðaður við þetta, og það kemur ekki til mála að leggja hann til búnaðarlánadeildarinnar og festa hann þannig í löngum lánum. Hvar á þá að finna fjeð? Það er ekki von, að hv. þm. gangi það vel að finna það, þegar bankastjórnin finnur það ekki.

Háttv. frsm. var að tala um, að þetta frv. væri það öðruvísi en frv. hv. þm. V.-Sk. (JK), að það ljeti bankastjórninni frjálst, hvort hún keypti brjefin; í þessu frv. væri hún skylduð til að leggja fram fjeð. Jæja. Nú er það komið á daginn, að hjer er um skipun að ræða. Við 1. umr. var lögð áhersla á, að þetta væru bara heimildarlög. (TrÞ: Útúrsnúningur). Nei, það er ekki útúrsnúningur. Það er að vísu skylda að stofna búnaðarlánadeildina, en hitt verður eftir sem áður á valdi bankastjórnarinnar, hve mikið hún lánar í þessu skyni. Hv. meðhaldsmenn frv. leggja bara áhersluna á þessi tvö atriði eftir því, sem á þarf að halda í hvert skifti. En niðurstaðan er sú, að hv. frsm. veður reyk, ef hann heldur, að hjer sje um nokkuð meiri veruleik að ræða í frv. hv. þm. V.-Sk. Móti vilja bankastjórnarinnar er hvorttveggja pappírsgagn fyrir landbúnaðinn, en skaðlegt til afspurnar fyrir bankann.

Hv. frsm. kvað skrítið, ef þingið ætti ekki að hafa íhlutunarrjett um bankastjórnina, og taldi upp marga glæpi, sem hún gæti annars gert. En jeg býst nú ekki við, að þingið gæti ráðið því, að hún setti ekki óhæfilega forvexti eða hve mikið fje hún legði í Íslandsbanka. Ef bankastjórnin færi að fremja einhverja óhæfu í þessum efnum, t. d. leggja alt fje sitt inn í Íslandsbanka, þá væri eina ráðið að setja bankastjórnina af.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) ætti eftir allri stefnu sinni að vera á móti þessu frv., en játar sig að vera með því, þótt hitt reyndar heyrist milli orðanna. Hann talaði um, að það væri ekki frekar að íhlutast um stjórn bankans að láta hann leggja fje í þessa deild en að honum var veitt innskotsfje, sem óheppilegt hefði að vísu verið. En til þess eru þá vítin að varast þau.

Annars býst jeg við, að hv. þm. (JakM) hafi haft aukatilgang með þessu. Það er sem sje ákveðið í 9. gr. frv., að þetta hætti þegar Ríkisveðbankinn verði stofnaður. Hann er, eins og kunnugt er, mikið með Ríkisveðbankanum og gerir nú að líkindum ráð fyrir, að þetta reynist svo óheppilegt, að það flýti fyrir stofnun hans. En mjer finst miður heppilegt að styðja þetta frv. af þeirri ástæðu.

Hv. þm. Str. (TrÞ) get jeg slept að svara. Hann sagði, að þetta, sem jeg kallaði „postscript“ væri ekki annað en bráðabirgðaákvæði, og það væri algengt að setja þau í niðurlag frumvarpa. En þetta er nú óvart ekki alveg rjett. Þegar bráðabirgðaákvæði eru sett í endi frumvarpa, þá er það æfinlega tekið fram skýrum stöfum. Og svo er hjer ekki um neitt bráðabirgðaákvæði að ræða. Þá hefði alveg eins mátt setja allar greiðslurnar í bráðabirgðaákvæði. — Nei, höf. frumvarpsins hefir sjeð eftir á, að það var ekki rjett að áskilja jafnmikla greiðslu fyrir yfirstandandi ár eins og hin árin, og tekur þá þetta gamla góða ráð, að setja það, sem gleymdist, í „postscript“. Það er gott og gilt í sendibrjefi. En á þann hátt má ekki semja bankafrumvörp.